fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Um hreinan og beinan vilja til þess að gera fólk fátækt

PIGS er nú orðið mjög vinsælt orð yfir þær þjóðir sem herrar Evrópu, lesist stjórnendur Bretlands, Frakklands og Þýskalands, hafa löngum fyrirlitið og fyrirlíta, allgreinilega, enn. Portúgal, Írland, Grikkland og Spánn - hörundsdökkar þjóðir álfunnar eða þá hinir langhötuðu Írar.

Fjölmiðlar fundu upp á þessu hugtaki fyrir nokkru síðan og hafa allar götur síðan haldið uppi megnum áróðri gegn efnahag þessara þjóða. Og eins og frægt er, þá nægir að tala um að þjóð sé á leiðinni á hausinn og spádómurinn, ef nógu margir heyra hann, rætist af sjálfu sér - The Economist tekst þannig að hafa nær aldrei rangt fyrir sér. Og nú skulu svínin falla.

Írland er nýfallið. Nú er rekinn harðvítugur áróður gegn hinum. Og meira að segja er fólk farið að taka Belgíu inn líka - eins og að það bara verði að vera alltaf fjórar þjóðir í einu!

Þetta gæti hugsanlega kallast einhverskonar aðhald eða hlutlaus greining. Það er það ekki. Þetta er rasískur, lítilsvirðandi, ógeðslegur áróður sem hefur eitt og aðeins eitt að markmiði: að gera þjóðir fátækar. Þetta er glæpur, hryllilegur glæpur. The impoverishment of nations. Og gert með fullum, glæpsamlegum vilja þessara siðlausu, sálarlausu manna sem leika sér að saklausum lífum og fá borgað fyrir það.

Mér er þó nokkuð niðri fyrir þegar að þessu fólki kemur.

mánudagur, nóvember 08, 2010

Um femínisma

[Ég hef snurfusað þessa grein til fyrir birtingu hennar á kistunni.is, hún hefur því breyst lítillega frá upprunalegu formi.]

Ég held að flestir kannist við þetta fullkomna og algjöra sambandsleysi sem stundum kemur upp þegar manns eigin skoðanir hitta fyrir algjörlega andstæðar, fullkomlega viðteknar skoðanir hjá öðrum. Ef maður hitti manneskju sem í fullri alvöru tryði á flata jörð, og myndi bara brosa og hrista höfuðið þegar maður reyndi að tala um fyrir henni; á slíkum stundum kemur upp ákveðið vonleysi. Það er ekki hægt að eiga samskipti yfir þessa gapandi gjá: hér eru tvær manneskjur sem hreinlega geta ekki skilið hvor aðra.

Dæmið um flata jörð er hinsvegar allt of augljóst. Því það er eitt svona fenómenon í gangi á Íslandi sem er, held ég að sé hreinlega staðfest, til staðar hjá gífurstórum hluta þjóðarinnar, og já, er þar fullkomlega viðtekið og talið augljóst: það er leynt eða ljóst hatur á femínisma og hugmyndinni um jöfnuð karla og kvenna. Eða bara einfaldlega kvenhatur, eins og ég vildi satt að segja kalla það.

Nú hefur t.d. verið stofnuð síða "fyrir konur", sem kallast bleikt.is. Hún fjallar um "samskipti kynjanna" og "íslenska deitmenningu"; þá helst hvað er að henni. Í afar furðulegu viðtali í Fréttablaðinu við stofnanda síðunnar kom fram að hún hefur reyndar aldrei búið í útlöndum og hefur nákvæmlega engan raunverulegan samanburð: þetta skal hinsvegar ekki stoppa neitt. Því einn helsti máttarstólpi þessarar síðu og þessarar gervallrar kvenhatandi undirmenningar er nefnilega sá að það nægi alveg að horfa á Sex & The City og amerísk sitcom til að verða alvitur um einkenni kynjanna. Já, einkenni kynjanna, ekki sum, heldur öll; karlmenn fíla þetta í fari kvenna en hata hitt. Allir karlmenn! Og öfugt! Og hverjar eru þær staðalímyndir sem þarna er sprautað framan í lesendur eins og moneyshot úr aldraðri klámmynd? Jú, tvær amerískar klisjur, sem eru furðulega tvískiptar:

Í fyrsta lagi þá birtist konan sem dulúðug, ung, fögur, gjörsamlega án áhuga á kynlífi, fjarlæg og ábyrgðarfull; á móti kemur að maðurinn hennar er heimskur, einfaldur, kynóður og hugsar helst um (amerískan eða evrópskan) fótbolta. Þetta er ímynd 1 og sést hvað helst í gamanþáttum. Hún háir mikla baráttu við ímynd 2; þá eru konur þvert á móti frjálsar, einhleypar, orðheppnar, en þó fáránlega grunnhyggnar og hugsa ekki um neitt annað en að finna sér karlmann til að giftast og fá peninga frá; þess á milli sefur hún hjá fullt af nærfatamódelum sem eru nær fullkomlega lausir við persónuleika, eins og allir karlmenn virðast vera í þeim heimi. Þessu er stillt upp sem einhvers konar leik, skemmtilegum og leyfilegum (innan marka), en þó ber að muna: þetta er allt uppbygging fyrir kristilega giftingu; og þá giftingu í lagi! Hvítur meyjarkjóllinn, yfirborðshyggjan og bara öll hin viðurstyggilega erkitýpíska symbólógía kvenkúgunar sem brúðkaupið er; þetta er allt uppfyllt í minnstu smáatriðum. Þetta er Sex & The City klisjan.

Og hvort tveggja er gubbandi fáránlegt. Fyrir mig sjálfan og flesta sem ég þekki þá eru hreinlega engin dæmi um að manneskjur hagi sér líkt þessu, og sem betur fer. En veruleikinn kann að virðast annar hjá svo fáránlega, fáránlega mörgum. Síður eins og bleikt.is og nokkur gífurvinsæl blogg, flest á þeim subbulega klámmiðli pressan.is, byggja einfaldlega á því að halda fram ímynd af heiminum sem er einhverskonar blanda af þessum staðalímyndum að ofan. Og það versta: þetta er allt sett fram með þessum sérstaka tóni, sem er erfitt að lýsa í rituðu orði en allir kannast við, þegar maður fleygir einhverju fram sem maður veit að er ekki rétt en gerir samt tilkall til réttmætingar í gegn um það að vera orðið viðtekin klisja. Fólk notar þetta þegar það segir svertingjabrandara, en meinar það ekki, því það er bara að grínast, kommon! Eða yfirleitt þegar það fleygir fram einhverri klisjukenndri setningu til að taka samræður af alvarlega stiginu og á annað yfirborðskenndara; eins og í umræðu um stjórnmál, þá er sagt: æj, þið vitið að þetta skiptir engu máli, það er sami rassinn undir þeim öllum; og hugsun þarmeð lýkur.

Á sama hátt er fullyrt: æj, þið vitið að karlar og konur geta ekki verið vinir (ég er ekki að skálda neitt af þessu, þetta er allt á netinu.) Það er fullyrt, konur vilja bara frekar hjúkra en skapa, konur (eingöngu) vilja alltaf verða fallegri og grennri, karlar vilja bara fá það sjálfir og ekki gefa neitt af sér í kynlífi; dæmin eru endalaus og þið kannist við þau öll. Þessar hörmulegu klisjur eru út um allt og við heyrum þær allan daginn. Þær gera tilkall til þessa ímyndaða heims amerísku sjónvarpsþáttanna og gera stórfurðulegar reglur hans að okkar eigin. Og bæði kynin taka þessar klisjur upp; þetta vandamál einskorðast lítið við fyrrnefndar vefsíður. Frá karlmönnum hef ég persónulega heyrt: að konur séu heimskari en karlar, að konur skilji ekki rök og hugsi eðlislægt öðruvísi, að karlar, eins og að ofan, vilji bara fá'ða, að inni í hverri konu sé lítil lesbía (þetta virkar hinsvegar alls ekki á hinn veginn), að femínistar séu eingöngu ljótar, kynlausar beljur, þær sömu beljur hati karlmenn og að það sjáist á því að þeim sé sama um það þegar hallar á réttindi karlmanna (sem er frámunalegt rugl; það hallar nákvæmlega hvergi á réttindi karlmanna og mun að öllum líkindum aldrei gera.)

Þegar maður tekur þetta allt saman, hreinar og beinar vinsældir þessara klisja og þá fáránlegu umræðu sem er allstaðar í gangi um femínista, fer maður að fá áhyggjur af því að það sé í gangi reaksjón eða gagnbylting gegn kvenréttindum, og þegar út í það er farið, hugmyndinni um jafnrétti manna óháð þjóðerni, kynþætti og kynhneigð. Og þannig virkar nefnilega sagan, segja margir: þegar einhver framþróun verður mun hún alltaf mæta reaksjóni eða gagnbyltingu gegn breytingunum, upprunninni frá íhaldinu. Í þeirri baráttu, ef það fer að skerpast á henni, þarf maður að vera afskaplega viss um hvar maður stendur.

Ég segi því fyrir sjálfan mig að ég spýti á amerískar staðalímyndir um samskipti kynjanna og er argasti öfgafemínisti, trukkalessa, kynlaus belja og karlhatari ef það fylgir þar með, og býð ykkur vel að lifa.