föstudagur, febrúar 26, 2010

Biblískur cunnilingus

Hressandi titill og hressandi efni í vændum!

Biblíuna hef ég stundum átt til að verja er á hana er ráðist. Þetta er fallegur texti á ýmsum stöðum og ég hef almenna virðingu gagnvart fornum hlutum - og auk þess er þetta rit raunverulega svo ósanngjarnt lítið lesið. Meira að segja þverkristnir þekkja minnstan part af þessari blessuðu bók - og það er ekki bara leiðinlega stöffið um ættartölu geita Jelebababs sem þeir sleppa, ónei! Í biblíunni leynast gullmolar, svo sem sá sem ég ætla að fjalla um hér: Söng söngvanna, eða ljóðaljóðin, eða söng Sólómons: erótískt ljóð staðsett í miðju Gamla testamentinu.

Kristni hefur alltaf verið og mun alltaf vera í grunninn á móti kynlífi, og ef nánar á út í það að fara þá sérstaklega því að hafa ánægju úr kynlífi, og ofar öllu því að konur geti haft ánægju úr kynlífi. Fall mannsins úr paradís fólst í kynferðinu, og var þar konan að verki; konan sem er sköpuð úr rifbeini karlmannsins honum til ánægju. Síðan er það konan sem tælir og eyðir hinum hjartahreina karlmanni, ekki bara Adam heldur alveg síðan, jafnvel sem hin sjöbrjósta hóra Babýlón; en þar sést hið sanna form konunnar að mati kirkjufeðra, þykist ég nokkuð viss um.

Því er það ekkert minna en stórfurðulegt hvernig söngur Sólómons rataði inn í hina kanónísku útgáfu biblíunnar. Innan um bitur aðvörunarorð geitarekandi karlkyns þurrkuntna verður þetta ekkert minna en stórkostlegur léttir til aflesturs, eins og sýdrusviðir við bakka Lebanóns, ó, ég er farinn að nota orðfar ljóðsins!

Það er nefnilega raunverulega gaman að lesa Söngvana, líkingarnar eiga það til að vera stórfurðulegar - "ásýndar er hann sem Lebanón" er dálítið erfitt að meta í dag - eða hvað þá "Við hryssu fyrir vagn Faraós líki ég þér, ástin mín". Annað virkar hinsvegar og er fallegt:

Í hvílu minni um nætur
leita ég hans sem sál mín elskar,
ég leita hans en finn hann ekki.
Ég fer á fætur og geng um borgina,
um stræti og torg.
Ég leita hans sem sál mín elskar.
Ég leita hans en finn hann ekki.
Verðirnir, sem ganga um borgina, koma að mér.
„Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?“
Óðara en ég fór frá þeim
fann ég þann sem sál mín elskar;
ég hélt honum, sleppti honum ekki
fyrr en ég hafði leitt hann í hús móður minnar,
til híbýla hennar sem ól mig...

Þið sjáið hvert þetta stefnir. Eins og svo oft í fornum ástarkveðskap er elskendum líkt við her, honum/henni til hróss; hún er eins og stríðsvagn, hann er eins og úrvalslið Líbanons. En höldum áfram með smjörið og skrýtnar en afar frumlegar líkingar:

Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
og augu þín dúfur
undir andlitsblæjunni.
Hár þitt er sem geitahjörð
sem rennur niður Gíleaðfjall,
tennur þínar ær í hóp,
nýrúnar og baðaðar,
allar tvílembdar
og engin lamblaus.
...
Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
dádýrstvíburar
að leik meðal lilja.
Þegar kular í dögun
og skuggarnir flýja
mun ég halda til myrruhólsins
og reykelsishæðarinnar.
...
Lokaður garður er systir mín, brúður,
byrgður brunnur, innsigluð lind.
Laut þín sem garður af granateplum,
með gómsæta ávexti,
henna og nardus...

Úr þessu er ekki erfitt að lesa forleik. Þetta heldur áfram nokkuð, og reglulega er minnst á Sólómón, sem er óskýrt hvort sé annar elskhuganna eður ei. En svo kemst hreyfing á hlutina, og hér er það sem ég hef helst áhuga á í þessum pósti:

Hve léttstíg ertu í ilskónum,
höfðingjadóttir.
Ávöl lærin eru sem skartgripir,
handaverk listasmiðs,
skaut þitt kringlótt skál;
ekki skal það skorta vínblönduna,
kviðurinn sem hveitibingur
og liljur allt um kring,
brjóst þín eins og tveir hindarkálfar,
dádýrstvíburar,
háls þinn sem fílabeinsturn,
augun eins og tjarnirnar hjá Hesbon,
við hlið Batrabbím,
nef þitt eins og Líbanonsturninn
sem snýr að Damaskus,
höfuð þitt sem Karmelfjall
og hárið purpuri;
konung má fanga í lokkunum.
Fögur ertu, yndisleg ertu,
vina mín, dóttir lystisemdanna.
Vöxtur þinn er eins og pálmatré,
brjóst þín sem klasarnir.
Ég segi: „Þetta pálmatré klíf ég
og gríp í greinarnar,
megi brjóst þín líkjast vínberjaklösum,
andardráttur þinn eplailmi,
gómur þinn sætu víni,
nýju víni, rennandi um sofandi varir.“

Jaso. Þetta ofangreint er skýrt: Hann er að hreyfa sig upp á við, byrjar á lærum, færir sig upp til píkunnar sem hann líkir við vínbikar, þaðan mittið, brjóst, háls og varir. Þetta er, gott fólk, cunnilingus í biblíunni - 3000 ára gamall texti, að öllum líkindum. Þetta er ritið sem við fengum í hendurnar í Sunnudagaskólanum og var kennt um í Kristinfræði, og er í hverju hótelherbergi þessa heims. Argasta klám!

Ég hef mikinn áhuga á ritskoðun fornra verka til að fá þau til að passa inn í nútímalegan menningarheim, og þetta er engin undantekning. Ekki geta fyrrnefndar karlþurrkuntur hafa leyft þessu að standa hér í 3000 ár? Á íslensku, bæði í þessari þýðingu (þeirri nýjustu) og þeirri fyrri frá 1981 er hér þýtt "skaut". Það er hinsvegar ekki algilt. Látum oss sjá:

New International Version:
Your navel is a rounded goblet
that never lacks blended wine.

King James:
Thy navel is like a round goblet, which wanteth not liquor.

Önnur:
Your body is a chalice,
wine-filled.

Önnur:
Your navel is like a round drinking cup
always filled with wine.

Nú gefur svo að skilja að þetta er ekki nægilega vel rannsökuð ritgerð til þess að ég hafi tékkað á öllum enskum biblíum, en mér virðist a.m.k. ansi líklegt af ofangreindum dæmum að hinn enski málheimur hafi einfaldlega ekki þorað að þýða þetta á þann hátt sem á að þýða þetta, hvorki til forna né nú. Ég vildi tékka á öðrum tungumálum:

Vúlgatan á latínu:
umbilicus (nafli) tuus crater tornatilis, numquam indigens poculis.

Spænska:
Tu ombligo (nafli) es una copa redonda,
rebosante de buen vino.

Franska:
Ton nombril (nafli) est comme une coupe bien arrondie
où le vin parfumé ne manque pas.

Ítalska:
Il tuo ombelico (nafli) è una coppa rotonda, ove non manca mai vino aromatico.

Meðal rómönsku málanna er sem sagt sama hefð og á ensku. Nú á ég bara tvö tungumál hér eftir (nenni ekki að tékka á forngrískunni) o
g loks kemur eitthvað á óvart:

Gamla lúthersþýðingin á þýsku:
Dein Schoß (kjalta!) ist wie ein runder Becher, dem nimmer Getränk mangelt.

Og svo loksins, jafn dónaleg og íslenskan, að sjálfsögðu danska:
dit Skød som det runde Bæger, ej savne det Vin.

Jahá! Íslenska virðist vera í minnihlutahópi. Ég er óhebreskulæs en af wikipedia skilst mér að málið sé eftirfarandi:

Song of Songs

Verse 7:3 (verse 7:2 in the King James Version of The Song of Solomon) of the Biblical Song of Songs may contain a veiled reference to cunnilingus, although many translators render the key term "navel."[7] An alternate translation could read as follows: "Your vulva is a rounded crater, never lacking mixed wine". (Song of Songs 7:2 שררך אגן הסהר אל יחסר המזג)

The context, moving up from her sandals to her vulva to her belly to her breasts, however, makes the meaning of "vulva" (Heb. shor), as derived from an Aramaic word meaning "secret place", all but conclusive.[8] In many Christian and Jewish traditions the erotic intimacy between the bride and groom described in the Song of Songs is given spiritual significance.


Einmitt þetta er svo áhugavert: "is given spiritual significance." Já, reddingin fyrir þá sem stýra kristinni kirkju er sem sagt að þetta sé alls ekki í alvörunni kynlíf sem þarna fer fram: Þetta er metafóra fyrir samband Krists og kirkjunnar (Kristur var hreinn sveinn, giftur kirkjunni sem þó var þá ekki til, samkvæmt Kaþólikkum.) Fyrir utan það hve perraleg tilhugsun það er, þá er þetta teprulegt rugl - einhverjar kirkjudeildir hafa nefnilega áttað sig á því að þetta er eitthvað sem á bara ekki heima inn í því sem þær vilja kalla hið óhreyfða orð guðs. Mormónar segja, einkar skynsamlega, Söng Sólómons ekki guðs orð, ólíkt rest biblíunnar.

En ég, á minn einkar öfugsnúna hátt, vil halda öðru fram. Ég held að ef við ættum að ímynda okkur kristinn guð sem skiptir sér af lífum fólks og inspírerar það, þá sé það þessi bók biblíunnar einna helst sem ber þessa merki.

Ég vil nefnilega sjá fyrir mér að sá sem Sönginn skrifar sé manneskja sem hafi bætt heiminn með hverri niðurför,

Ég vil sjá fyrir mér að hann dreifi hamingju og kynjajafnrétti yfir þúsundir kynslóða, hefji kynánægju kvenna upp á æðra stig,

Ég vil sjá fyrir mér heim þar sem Söngur Sólómons er lesinn upphátt og af tilþrifum í kynfræðslutímum sunnudagaskólanna,

Ég vil sjá fyrir mér,
já,
að Jesús Kristur
hafi sleikt píkur.

(afsakið minn fyrsta dónalega bloggpóst!)

sunnudagur, febrúar 21, 2010

Brecht var fyndinn kall

17. júní 1953 gerðu vinnumenn í hinu nýstofnaða A-þýska Alþýðulýðveldi uppreisn gegn sínum kommúnísku valdhöfum, sem hugðu á að auka vinnukvóta þeirra án nokkurs endurgjalds, auk annarra lífsgæðaskerðinga. Sovéskir hermenn og hermenn A-Þýskalands sölluðu uppreisnarmennina niður. Brecht var frægasti rithöfundur Alþýðulýðveldisins og þótt hans fyrstu viðbrögð væru stuðningur við ríkisstjórnina þá sá hann síðar að sér og skrifaði þetta:

Die Lösung

Nach dem Aufstand des 17. Juni

Ließ der Sekretär des Schriftstellerverbands

In der Stalinallee Flugblätter verteilen

Auf denen zu lesen war, daß das Volk

Das Vertrauen der Regierung verscherzt habe

Und es nur durch verdoppelte Arbeit

zurückerobern könne. Wäre es da

Nicht doch einfacher, die Regierung

Löste das Volk auf und

Wählte ein anderes?


Lausnin

Eftir uppreisnina þann 17. júní

lét formaður Félags rithöfunda

dreifa dreifibréfum á Stalinallee

þar sem lesa mátti, að þjóðin

hafi glutrað niður trausti ríkisstjórnarinnar

og gæti aðeins endurheimt það

með tvíefldri vinnu. Væri það þá

ekki öllu einfaldara, að ríkisstjórnin

leysti bara þjóðina frá störfum

og kysi sér aðra?

föstudagur, febrúar 19, 2010

Frá Íslandi

Það að koma hingað heim í vikufrí eftir nærri hálft ár í Berlín er eilítið merkt. Í það fyrsta skil ég engan veginn hvernig heilt hálft ár getur hugsanlega verið mögulegt. Í það annað, það er engin leið að bera þessar borgir saman. Í Berlín býr fólk í risastórum íbúðahúsum - stórum byggingum sem innihalda á að giska 50-100 íbúðir og fjögur til sex heimilisföng. Þetta gerir það að verkum að þar er afskaplega hár íbúafjöldi á ferkílómeter, sem gerir það mögulegt fyrir litlar hverfisbúðir að virka. Ef þú setur upp litla ávaxtabúð á einhverri no-name götu sem er nær en næsti súpumarkaður fyrir kannski 200 manns, hefurðu komið þér upp 200 fastakúnnum jafnóðum, og þannig fyrirtæki virðast standa ágætlega undir sér eftir því sem ég sé að utan. Þetta er eilítið annað en Reykjavík þar sem allt sem ekki er Bónus fer á hausinn jafnóðum og menning er eitthvað sem þarf helst að setja inn í búr og undir hitalampa til að fái þrifist.

Svo er Reykjavík svo strjálbýl sumstaðar að það er hrikalegt. Hvert hús stendur eins og eyja í úthafi og ég fékk, eftir Berlín, það furðulega á tilfinninguna að hvert hús stæði í óþökk við hitt, eins og stríðandi fjölskyldur. Borg af stríðandi fjölskyldum. Og hverfisbúðir? Ekki séns. Ekkert menningarlegt getur hugsanlega orðið til í þannig fáránlegu dreifbýli, fólk þarf að leita annað, sem krefst bílaumferðar þar sem engar eru almenningssamgöngurnar, sem mengar og lætur fólk taka bílalán, og í þannig einbýlishúsum er enginn séns á að leigja, svo allir þurfa að taka sér húsnæðislán...

Þetta er eiginlega afskaplega misheppnuð borg, Reykjavík, hvað skipulagningu varðar. Á flestum stigum máls.

Mér líður, eins og minni tilgerðarlegu persónu svo vel hæfir, best í miðbænum. Þar eru kaffihús og barir sem ég fíla, þeir minna mig á Berlín og íbúðina mína á Kuglerstrasse, þar sem mér finnst ég nú eiginlega eiga heima þessa dagana. Á mínu gamla heimili hefur mitt fyrrverandi herbergi verið tileinkað öðrum notum - ekkert miklar breytingar, en nægilegar til þess að ég fíli mig sem gest. Sem er ágætt, annars væri nú lítið varið í þýsku íbúðina og mér alfarið mistekist við að gera hana að eigin samastað.

Nú dettur mér ekkert meira í hug en ég er fáránlega ánægður með að vera kominn til baka. Ég held svei mér þá að þessi heimsókn hafi dregið verulega úr löngun minni til að hallmæla þessu blessaða landi. Með allan sinn vind, alkóhólisma og almennu klikkun.