mánudagur, október 12, 2009

No Country For Old Men

No Country For Old Men er góð mynd sem tókst vel upp að vera lýsandi fyrir Bandaríkin. En þrátt fyrir líkindi Bandaríkjanna og Íslands að flestu menningarlegu leiti þá er einmitt eitthvað annað uppi á Íslandi. Það er einmitt ekkert land fyrir ungt fólk.

Með kreppunni yndislegu hefur þetta svo enn ágerst. Fyrir hana var jú eitthvað ungt fólk sem tjáði sig á Íslandi. Það voru ungir höfundar endrum og eins, ungt listafólk. Jafnvel ungt fólk í stjórnmálum sem lét smávegis til sín taka, þótt það væri sjaldgæft. Á þeim gullnu dögum fyrir moggabloggið voru allir bloggarar ungir og það voru án vafa bestu tímar þeirra iðju á Íslandi.

Svo breyttist allt. Kreppan og búsáhaldabyltingin - þessi orð eru gamaldags og þau boðuðu gamla tíma. Bloggið var tekið yfir af miðaldra moggaáskrifendum og er nú þessi iðja einungis, og ég segi einungis tengd við þann hóp. Ungt fólk hefur einfaldlega flúið miðilinn og stundaði fyrst Facebook, þar til miðaldra fólk réðst þangað líka, og er nú að flýja yfir á Twitter eða eitthvað annað nýrra.

Ungir tónlistarmenn, krúttkynslóðin svokallaða sérstaklega, duttu algjörlega og fullkomlega út. Nú skyldu Hörður Torfa og Bubbi taka við, sem þeir og gerðu með sínu hörmulega gauli. Stjórninni var skipt út - gamalt lið hvarf og afgamalt lið tók við. Er Jóhanna ekki elsti forsætisráðherra í sögu landsins? Ég fíla hana, en guð minn góður. Hún er ekki hið nýja Ísland.

Ungt fólk er einfaldlega horfið úr stjórnmálum. Ég mundi ekki búast við manneskju undir þrítugu í stjórnmál næsta áratug - nema frjálshyggjupjakkarnir, Friedmanjugendið í SUS og Heimdalli, sem eru kröftugri en nokkru sinni og hafa nú loks einhverja mótöldu til að berjast gegn. Þeir eru alsælir, en verður ekki hleypt fram á sviðið af Sjálfstæðisflokknum frekar en venjulega.

Íslenskt tónlistarfólk sem ekki mun semja beinum orðum um kreppuna - um myntkörfulán - mun verða fyrir hæðnisglósum og ásökunum um að hylma yfir með útrásinni af miðaldra bloggurunum sem nú eru landsins almáttugu álitsgjafar. Von Íslands í tónlist virðist mér vera bandið Retro Stefson, sem er svo algjörlega fokking sama að unun er að hlusta á - þau spila enga krútttónlist og enga lífsins pólitík. Miðaldra fólki er fullkomlega fyrirmunað að skilja þetta band, sem ég held að sé þeirra helsti gæðastimpill.

Allt það fólk sem ég þekki á mínum aldri hefur tekið skynsömu leiðina sem ég hef ekki enn getað tekið - að hætta, algjörlega og fullkomlega, að fylgjast með fréttum og umræðu. Þetta er afar skynsamt og virkilega eina leiðin til að hægt sé að vera hamingjusamur á Íslandi í dag - fréttir og umræða virðast miðuð að einu og aðeins einu: Að enda sögu hamingjunnar á þessu landi, eins og hún leggur sig. Þetta sést best á því hversu rosalega hamingjusamur maður verður strax á því að forðast fréttir í eina viku!

Ég sem þó enn fylgist með af hálfum hug get samt alls ekki tekið þátt í umræðunni. Skoðanir mínar eru rangar fyrir álitsgjafana, og þegar þú ferð á svig við álitsgjafana þá er þess hefnt. Faðir minn kom til mín rétt fyrir hrun, tók í hendina á mér kankvíslega og bað mig afsökunar fyrir hönd hans kynslóðar. Við höfum bara algjörlega klúðrað þessu fyrir þér og þínum, sagði hann. Hárrétt, þótt faðir minn ætti nú með minnstu mögulegu ábyrgðum þar á - en fyrir einmitt það yrði hefnt. Ef ég tæki þátt í umræðum þá mundi Egill Helgason fletta mér upp á Íslendingabók, grafa upp hverjum ég er ættaður, og nota það gegn mér í þessum yndislegu ad hominem árásum sem eru lenskan hjá upplýstum álitsgjöfum landsins í dag. Og það er raunverulega ekkert djók. Egill Helgason getur látið fólk óttast um öryggi sitt með því einu að benda á tilveru þess, og gerir það gjarnan.

Mín helsta synd er að vera alfarið á móti helgustu belju umræðunnar, 'leiðréttingu' húsnæðisskulda. Það er einfaldlega svo að hver sá sem svo telur er föðurlandssvikari talinn. Ég held að sjaldan hafi svona rugluð skoðanahreinsunarstefna verið stunduð á landinu, og er það til marks um brjálæði tímanna. Þar sem ég er ungur og skuldlaus get ég ekki samþykkt að fólk sem tók fáránleg húsnæðislán fái að velta byrðum heimsku sinnar yfir á ríkið og þar af leiðandi mig. Það má kannski réttlæta þessa skuldajöfnun innan hóps skuldara - allir skuldarar taki sig saman um þessa dreifingu sín á milli - en það er málið. Skuldararnir átta sig ekki á að það eru til Íslendingar sem ekki tilheyra þeirra hópi og hafa ennfremur megna skömm á þeirra hópi. Það er bara ekki réttlátt að ég eða mínir jafnaldrar borgi húsnæðisskuldir annarra. Það er fáránlegt að ætlast til þess.

En... þessi skoðun er víst röng og ill. Ég ber hana á borð hér því ég hef lítt lesið blogg og get því vonast eftir því að sleppa með hana. Minn eigin faðir er ekki svo heppinn og lendir oft í ýmsum persónuárásum á sínu bloggi fyrir þetta, sínar röngu skoðanir. Mér finnst þetta slæmt ástand.

Brátt mun þetta vonandi lagast. Hrunið var ótrúlega þarft, það sjá allir núna, og landið er betra eftirá - en ekki nægilega. Fólkið er ennþá í hryllilegum skotgröfum og gerir sitt besta til að eyðileggja allan bata. Það er eitt það magnaðasta við Ísland hvernig svona lítil þjóð getur samt hatast svo rosalega sín á milli. En þegar allt kemur til alls þá mun þetta tímabil eftir kreppu vera þekkt sem dimmt tímabil í sögu landsins þar sem kynslóðin sem öllu klúðraði háði huglægt borgarastríð meðan unga fólkið einangraði sig algjörlega frá umræðu síns eigin lands eða einfaldlega flutti burt - og háðungin mun einungis vera einum megin, vil ég fullyrða.

Ég held einfaldlega, til að binda þetta saman, að sjaldan hafi ein þjóð þurft jafn rosalega á kynslóðaskiptum að halda og Íslendingar nú. Vonum að svo verði sem fyrst.

Sorrí pabbi!

mánudagur, október 05, 2009

Liebe und Gewalt

Berlínskar furður:

Þverástfangið rónapar á Ku'damm í slow-motion atlotum, sem mér fannst í alvöru fremur rómantískt,

Vel klæddur ungur maður með dýrt hjól sem skeindi sér með rassinn út í loft í fámennum almenningsgarði,

Heimilislaus maður sem sat og blaðraði við sjálfan sig á Rosa-Luxemburg-Strasse,

Austur-þýskur dansleikur í gömlu Ballhaus við Elvis-tónlist, stundaður meðal annarra af agnarsmáu gamalmenni með hnéskegg, þroskaheftum súperdansara og bústnum lesbíum,

Svartur unglingaþýskumælandi unglingur í fótboltaaðdáendaliði sem blandaði sér og drakk viskí í kók í S-Bahn á leið til Berlin-Hauptbahnhof,

Elskendur, tungum tengdir í S-Bahn, sveigjast um í smáum dansi í takt við hreyfingar lestarinnar,

Gamlir elskendur og rónaelskendur og hippaelskendur og gotaelskendur, líkir sækja líkan heim, öll pör eru líkleg í hinu berlínska almenningssamgöngukerfi,

Þungvopnað lögreglulið með þýskar vélbyssur, ekki minna en fimm bílfylli, vakta þungbrýndir gang Risessunnar frönsku á Unter den Linden,

Glæsilegt nýklassískt hús skrýtt ólíkum textum: annarsvegar hinni ágröfnu latnesku áletrun HANC DOMUM COLENDAE ARTIS CAUSA CONSTITUIT FREDERICUS ANNO MIXCIIIX, og hinsvegar DIE NEUE SUPER-SENSATIONAL SEXY SHOW - BESSER ALS LAS VEGAS,

Maður sem bauð mér konur á gangi heim á leið seint um nótt, ég svaraði með minni dýpstu rödd 'NEIN' og lét vera að segja bitte,

Dúóið Black Lotus á B-Flat-klúbbnum, kínversk, flugþýskumælandi kona að nafni Xiu sem spilaði á kínverska hörpu og banjó og öskraði á meðan trommarinn fór hamförum,

það er mjög auðvelt að upplifa Berlínarrómansinn fræga, þessi orð að ofan bera þess merki. Þó ég ég alltaf að missa af öllu og hef líklega ekki helming þeirra sagna sem aðrir hafa héðan.

Allavega, eitthvað virðist vekja þessa kennd hjá fólki, að rómantísera allt berlínskt. Eitthvað við þessi glæsilegu götuheiti og allt ofbeldið sem skapaði borgina, það gerir það sem eftir lifir að fögrum hlut.

Einhverntíman skrifaði ég íslenskuritgerð um eitthvað hundleiðinlegt efni, þetta var prófsritgerð svo ég hafði engan tíma til að hugsa heldur varð að skila eftir einn og hálfan tíma – ég komst allavega á flug og skrifaði skoðun sem kom sjálfum mér algjörlega á óvart – að öll heimsins fegurð sé byggð á ást og ofbeldi.

Það er nú það.

Þessu velti ég svo alvarlega fyrir mér eftir prófið, hvort þetta væri satt og hvort þetta væri raunverulega mín skoðun sem þarna dembdist út, og ég komst að þeirri niðurstöðu að hvort tveggja væri. Ég man svo ekki hvað ég fékk fyrir ritgerðina, en mér fannst hún býsna merk.

Allavega, Berlín, ást og ofbeldi. Eine Stadt von Liebe und Gewalt.

Toppi rómantíseringunnar er hérmeð náð.