mánudagur, mars 30, 2009

Ég hjarta Bob Dylan

Úr glænýju viðtali:

What's your take on politics?
Politics is entertainment. It's a sport. It's for the well groomed and well heeled. The impeccably dressed. Party animals. Politicians are interchangeable.

Don't you believe in the democratic process?
Yeah, but what's that got to do with politics? Politics creates more problems than it solves. It can be counter-productive. The real power is in the hands of small groups of people and I don't think they have titles.

...

Images don’t hang anybody up. Like if there’s an astrologer with a criminal record in one of my songs it’s not going to make anybody wonder if the human race is doomed.

miðvikudagur, mars 18, 2009

Um fréttir

Kannski hef ég flutt þennan fyrirlestur áður fyrir einhverja lesendur. Ég á það til að heyra eða lesa um eitthvað sem vekur athygli mína, velta því rækilega fyrir mér og formúlera það út í samtölum við fólk (eða þá samtölum við sjálfan mig). Síðan skrifa ég hugsunina hingað - kerfi sem ég er enn sannfærður um að muni færa mér heimsfrægð einn bjartan veðurdag.

Enívei.

Ég las um daginn grein á Wikipedia af tilviljun. Þessa grein. Hún lýsir því sem kallast 'The Missing White Woman Syndrome' - nokkuð sem sannaði endanlega eitt fyrir mér sem var óskýrt áður varðandi eðli frétta.

Það hefur nefnilega verið sýnt í Bandaríkjunum og Bretlandi að þegar tvær manneskjur hverfa á sama tíma undir svipuðum kringumstæðum og báðar eiga augsýnilega fjölmiðlaathygli skilda, þá beinist hún í margfalt meira magni að þeirri manneskju sem er 1) kvenkyns, 2) hvít, 3) fögur, 4) ung og 5) af miðstétt.

Þetta er ekki tilgáta eða kenning, þetta er skýrt og fullkomlega mælanlegt. Þetta er staðreynd. Fullt af fólki hverfur eða er rænt á hverju ári í BNA en þau mál sem hljóta umfjöllun snúa alltaf að fallegum, ungum hvítum stúlkum úr miðstétt, oftast ljóshærðum með stór, sakleysisleg augu, sem nísta meðaumkvun og áhyggjur úr áhorfanda.

Þessi staðreynd sneri mér nokkurn veginn á hvolf af ógeði, en þegar ég fór að velta þessu fyrir mér tók þetta að fjalla minna um hve ógeðfelldir bandarískir fjölmiðlar eru og meira um fréttir almennt.

Í sjónvarpi birtist okkur heimur alls ólíkur þeim sem við upplifum þar fyrir utan, í vinnunni, í skóla, í okkar nánasta samfélagi. Í sjónvarpi finnum við helst fólk sem er hvítt, fagurt, ungt og af miðstétt, þó vissulega af báðum kynjum. Hví ætti þá ofangreind rannsókn yfirleitt að koma á óvart?

Þar koma inn mörkin sem við setjum á milli frétta annarsvegar og skemmtiefnis hinsvegar. Í skemmtiefni, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, búumst við við því að finna ýkta útgáfu raunveruleikans - þar eru ákveðnar staðalmyndir sem sjaldan er frá vikið. Hin hrausta, unga, hvíta miðstéttar-karlhetja bjargar hinni ungu, hvítu, fögru miðstéttar-kvenhetju, sem hefur verið rænt af manni á trássi við eitthvert þessara skilyrða.

Það sem þessi grein fékk mig til að átta mig á er að þessi mörk eru lygi.

Hugsið það út til enda sem ofangreint segir okkur. Mikill fjöldi mála koma inn til fjölmiðla sem má finna og búa til efni úr. Einhver einhversstaðar tekur ákvörðun um að fylgja einu máli á eftir frekar en hinu. Þegar um mannrán er að ræða, er það afar skýrt eftir hverju er valið - eftir því að hvaða marki málið henti sjónvarpi. Eftir því hvað muni skemmta fólki mest.

Svona held ég að sé farið með allar fréttir. Á þær er helst hægt að líta sem einskonar átakanlegar stuttmyndir, byggðar á raunverulegum atburðum. Fréttatímar eru byggðir upp eftir öllum kúnstarinnar handritsreglum - þungu, erfiðu fréttirnar til að byrja með, fullar af hörmungum, svo hægist á og fréttatíminn leystur upp með skondinni frétt um húsdýr. Allar þær nauðganir, þau rán og þjóðarmorð sem birtast fremst, voru valin úr gífurlega stórum hópi hörmunga sem yfir heiminn dynja á hverjum degi, með því tilliti hversu vel þær gætu haft ofan af fyrir fólki.

Er ég hafði hugsað þetta dæmi til enda fór ég að velta fyrir mér hvort það þýði eitthvað yfirleitt að vera 'vel upplýstur', að vera 'inni í umræðunni', annað en bara félagslega. Það að fylgjast með fréttum má kannski líkja við að vera vel inn í plottinu í Desperate Housewives eða Lost. (Hér skal þó tekið fram að ég er enn vel inn í fréttum og hef ekki hætt fréttaneyslu, enda hræsnari.)

Að auki kallar þessi sýn á að maður hugsi það algjörlega upp á nýtt að taka fréttir inn á sig, að verða fyrir áhrifum af fréttum, skipta skapi yfir þeim. Það er fullkomlega merkingarlaust að fylgjast með máli Madeleine litlu ef litið er til þess að hún er ein af þúsundum sem þér er sama um, sérvalin fyrir athygli þína af andlitslausri fréttastofu. Það er fullkomlega merkingarlaust að finna til hryllings yfir Josef Fritzl þegar það er skýrt að slíkt hefur áður gerst og mun gerast aftur, en þetta og aðeins þetta var valið yfir öll önnur illskuverk sem komu til greina.

Það sem fréttaneytendur gera hinsvegar er að taka eitt svona mál, sérvalið af fjölmiðlum (það eru raunar afar fáir fjölmiðlar eftir í heiminum, langflestar fréttir sem við lesum eru unnar af Reuters eða AP og svo þýddar allstaðar um heiminn) og gera það að tákni, að symbol. Fritzl-málið verður skyndilega, fyrir allri heimsbyggðinni, táknmynd um illsku heimsins, um það að ófreskja gæti búið í næsta húsi. Madeleine-málið verður tákn um það að barn er hvergi öruggt. Mál um að Pólverjar hafi gengið í skrokk á einhverjum verður tákn um ofbeldishneigð þess þjóðernis og þörfina á hreinsunum.

Gallinn er sá að allar þessar tákngervingar eru til hins verra. Þær brjóta í öllum tilfellum á móti bæði þolendum, gerendum og lesendum. Þolendur dæmir tákngervingin til opinberrar píningar frekar en sorgar í kyrrþey. Gerendur dæmir hún til dauða áður en lög og réttur fá komist að. Lesendur svo sem mig grætir hún, ókyrrir, fyllir ótta og fordómum sem eru með öllu tilhæfulausir - en vissulega, þótt ógeðfellt sé, skemmtir þeim, hefur ofan af fyrir þeim, gefur þeim eitthvað til að tala um, óttast, hata.

Þegar svo tákngervingarnar, sem hafa ill áhrif á líf hundruða þúsunda manna, eru byggðar á þessum fáránlegu forsendum, kemst maður að sönnu tilgangsleysi fréttanna. Vissulega má margt af þeim læra. Ég er ekki að halda því fram að fréttirnar sjálfar séu lygar, ekkert slíkt samsæri þrífst hér. Það sem þær eru, hinsvegar, eru merkingarlausar, áhrifalausar, nema fyrir það sem við ákveðum, nema fyrir þau gildi sem við persónulega gefum þeim.

Hvenær hefur frétt raunverulega, á beinan hátt, snert líf þitt? Snert, fýsískt? Væri líf þitt nokkuð öðruvísi ef þú vissir ekki af kreppunni, vissir ekki af ríkisstjórnarskiptunum, vissir ekki af 11. september? Þú hugsar öðruvísi vegna þessara atburða en það er þitt val að svo gera. Fæstir hafa raunverulega upplifað fréttir - þær eru annar raunveruleiki, byggður á líkum staðalímyndum og hvert annað skemmtiefni. Myndarlegar hetjur, ljótir skúrkar, fagurt sakleysi og ljótt siðleysi bítast á. Það er stríð milli Ísraels og Palestínu, Sjálfstæðisflokks og vinstriflokka, Repúblíkana og Demókrata, maður velur sér hlið sem hentar og gerir hana að tákni fyrir stöðu samfélagsins, jafnvel heimsins alls. Og sú staða er alltaf dimm.

En hvernig tengist þetta mínu eigin daglega lífi?

Ég held að við værum öll hamingjusamari ef við tækjum minna mark á þessum löngu skuggum okkar ágæta samfélags.