þriðjudagur, janúar 29, 2008

Ekki margt fær mig til að skríkja af kæti

En nú er ég að læra nútímagrísku af svona netkennslusíðu rekinni af gríska utanríkismálaráðuneytinu og ég er kann mig vart að hemja. Þetta er æði! Ég var að þýða forna grísku, fór svo á netið og byrjaði að læra nútímagrísku. Ég verð að þessu í alla nótt.

Þetta er málið:

Filoglossia Web version - Learning Greek as a foreign language

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Hohoho!

Það er fátt fyndnara en að sjá 'borgarstjórann' stama fyrir framan hinn reiða múg sem hann á einmitt að stjórna. Jakkaföt og siðleysi gegn fjöldanum.

Þó mun hann auðveldlega komast upp með þetta, fokkerinn sá.

mánudagur, janúar 21, 2008

Heill, Sauron, borgarstjóri vor.

Ég var að horfa upp á dálítið magnaða atburðarás. Nýsnúinn aftur af geðdeild rænir Ólafur F. Magnússon völdum í borginni eftir að hafa verið mútað af Sjálfstæðismönnum.

Í því geðveiluæði sem fylgir svona fjandsamlegum yfirtökum á meirihluta þjóðarinnar birtast oft brestir í stálpúpunni sem stjórnmálamenn læra að vefja um sig í Hitlerjugend-hliðstæðum flokka sinna og athugull maður fær merkilega innsýn í líf og störf þessa formanna þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn, með ljótasta manngerpi borgarinnar í fararbroddi og þau myndarlegustu í eftirdragi, hefur víst alla þessa hundrað daga síðan þeir voru sviknir reynt allt til að ná völdum aftur og hafa boðið öllum í nú fyrrverandi borgarmeirihluta gull og græna skóga fyrir að taka upp með þeim, skv. Ólafi í Kastljósinu. Björn Ingi slapp þó líklega við það. Röðin hefur einfaldlega komið að Ólafi Magnússyni eftir að hann sneri aftur frá geðdeild (þetta er ekki stílýking hjá mér, þar var hann í marga mánuði og því var varamaður hans Margrét Sverrisdóttir með embætti hans) og hann varð á endanum keyptur fyrir geypilegt verð.

Ekki náðist í Geir H. Haarde til að kommenta á þetta. Af góðri ástæðu. Vilhjálmur er greinilega hefnigjarn og glottið á hans fyrirlitlega smetti þegar hann tilkynnti þessa þróun mála hinni gapandi alþýðu fullvissaði mig og alla sem einnig á horfðu að þetta væri persónulegt mál fyrir hann. Gísli Marteinn flissandi af kæti á bakvið hann. Þeir borguðu nefnilega allt, allt, allt, allt, allt of mikið. Þessi 'flokkur' sem Ólafur stendur fyrir hefur nær engin atvæði og ef Ólafur þessi átti sér yfirleitt einhverja stuðningsmenn missti hann þá í Kastljósviðtalinu, þar sem hann kom fram sem ofurkaldlyndur valdafíkill sem skildi ekki af hverju Margrét Sverrisdóttir mundi neita því valdi sem hann býður henni. Þetta er bein tilvitnun.

Allir menn með viti skilja að stjórnmál eru siðlaus og allt annað er blekking, en þó er óvanalegt að stjórnmálamenn viðurkenni það svona eins og Ólafur þessi gerði. Hann hefur líklega ekki næga reynslu.

En aftur að ríkjandi málum; allt það helsta sem Ólafur þessi vildi fá var svo sett á stefnuskrá og honum gefin titill borgarstjóra án þess að nokkur maður sé til sem vilji ekki fá einhvern annan. Báknið, Sjálfstæðisflokkurinn, er reiðubúinn til að leggjast ótrúlega lágt, alveg ótrúlega lágt, til að ná fram hefndum á Birni Inga og co. Og ég held að Geir viti að þeir hafa tapað fylgi og velvilja á þessu og sitji nú heima hjá sér með lúkurnar fyrir froskandlitinu og berjist við freistinguna að láta taka gamla góða Villa af lífi til að spara sér frekari hneyksli.

Og til að toppa þetta alltaman þá á Ólafur engan varamann; Margrét Sverrisdóttir mun ekki ganga með Sjálfstæðismönnum. Þ.e. ef Ólafur missir af svo mikið sem einum borgarstjórnarfundi er meirihlutinn fallinn. Öllu heldur, ef mér leyfist að nýta mér tjáningarfrelsi mitt svo lengi sem það endist, ef svo vel vill til að Ólafur þessi taki upp á því að tala tungum og froðufella í beinni útsendingu þá munu Sjálfstæðismenn missa þetta smápeð sitt af taflborðinu. Þetta er ótraustasti meirihluti í sögu alheimsins.

Eina spurningin sem er eftir er: Hvernig í heitasta helvíti datt Sjálfstæðismönnum í hug að selja sig svo dýrt fyrir svo ofboðslega, ofboðslega lítið? Ég hef ekki álitið þá heimska hingað til en þetta virðist ætla að breyta því áliti mínu til muna.

Endanlega niðurstaðan er einfaldlega sú að það þurfi eitthvað að gerast til að breyta skipulaginu eins og það stendur í dag. Stöðugar bakstungur frá örflokkum siðspilltra illmenna er vonandi ekki einhverskonar órjúfanlegur partur af lýðræðisfyrirkomulaginu; og þetta þarf að kæfa í fæðingu.

Í öðrum fréttum: Björn Bjarnason vill vopna lögregluna á tímum minnkandi glæpatíðni.

Framtíðin er svört.

mánudagur, janúar 14, 2008

Það var meira vit í legsteinum í denn

Oft er ég spurður hvað sé eiginlega gert í þessu blessaða námi sem ég er í. Mest lítið er svarið, en stundum, afar sjaldan, næstum aldrei, gerist þó eitthvað af viti. Ég skilaði nýlega lokaverkefni fyrir skásta fagið sem ég var í á síðasta misseri. Það fag heitir því ágæta nafni Grískar og latneskar orðsifjar, en í lokaverkefninu átti ég að skýra nokkrar fornar áletranir að eigin vali.

Í Rómarferðinni frægu hér síðasta sumar (sjitt, það var bara síðasta sumar! virðist lengra) heimsótti ég Capitol-safnið og sá þar í göngunum milli safnbygginganna sýningu á fornum grafskriftum. Mér þóttu sumar mjög fallegar, og tók því tvær af netinu fyrir í þessu verkefni. Ég hef nú í huga að birta þær hér, ykkur lesendum til yndisauka. Já, ég er leiðindagaur sem birtir heimavinnuna sína á blogginu. Sue me.

Áletrun 2: Frá
Dunaujvaros í Ungverjalandi

D M

AVRELIAE BARACHAE [.]IXIT

ANN XXV ET AVREL GER

MA[.]ILAE VIXIT

ANN IIII ET ALTERA

FILIA AVRELIA GER

MANILLA VI[…] ANN

II ET IMMOSTAE MATRI SU

E VIXIT ANN LX GERMAN

IUS VALENS MIL COH M HEM

ES UXORI ET MATRI ET FI

LIIS POSVIT ET SIBI V[..]US FE

CIT

D(is) M(anibus); Aureliae Barachae, (v)ixit ann(os) XXXV, et Aurel(iae) Germa(n)ilae, vixit ann(os) IIII, et altera filia Aurelia Germanilla, vi(xit) ann(os) II, et Immostae matri su(a)e, vixit ann(os) LX. Germanius Valens, mil(es) coh(ortis) m(illiariae) Hemes(enorum), uxori et matri et filiis posuit et sibi v(iv)us fecit.

Og loks bein þýðing:

Til guða undirheimsins; fyrir Aureliu Baracha, (sem) lifði í 35 ár, og Aureliu Germanilu (sem) lifði í 3 ár, og hin dóttirin, Aurelia Germanilla lifði í 2 ár, og fyrir Immostu móður sinnar (sem) lifði í 60 ár. Germanius Valens, hermaður þúsundaherdeildar Hemesenora, setti konu (sinni) og móður (hennar) og dætrum (sínum) (þennan legstein) og gerði sér (sjálfum) á meðan hann lifði.


Nördinördinörd: Það er áhugavert að sjá að Germanius Valens þessi gerir ýmsar málvillur sem maður hefði ekki búist við að sjá frá Rómverja með latínu að móðurmáli. Hann skrifar töluna fjórir IIII en ekki IV og sleppir alltaf tilvísunarfornafninu quae (sem fyrir ólatneska menn). Einnig er furðulegt hvernig þágufallið dativus commodi hverfur þegar hann minnist á yngri dótturina (..et altera filia Aurelia Germanilla…) en snýr svo aftur er hann ræðir um tengdó. Þá notar hann su(a)e í staðinn fyrir eius (sína í staðinn fyrir hennar.) Þó er eins og þetta misgóða vald hans á tungumálinu geri áletrunina enn kröftugri í einfaldleika sínum, og afar dapurt að hann sé einnig að reisa legsteininn fyrir sjálfan sig á meðan hann lifði.

Áletrun 3: Frá Aþenu.

Μινακὼ Λίβυος χρηστή.

εἴ τις ὅλως γέγονεν χρηστὴ γυνή, ἥδ’ ἐγώ εἰμ[ι]

πρός τε δικαιοσύ[ν]ην καὶ τοῖς ἄλλοισιν ἅπασιν·

οὖσα δὲ τοιαύτη χάριν οὐ δικαίαν κεκόμισμαι

οὔτε παρ’ ὧν ὤιμην οὔτ’ ἀπὸ δαιμονίου·

[…]ος ἀπὸ μητρὸς ἐμῆς καὶ πατρὸς ἄπιμι {ἄπειμι}

[.....…κρύ]πτω, οἵας χάριτάς μοι ἀπέδωκα[ν]·

[ἀνθ’ ὧν ἤμελλον π]αρὰ τῶν παίδων κομίσεσθαι.

Þessi finnst mér mjög merkileg. Hér setur skrifarinn sig í spor hinnar látnu og hefur þvílíka samúð með henni og hennar hlutskipti að maður vill næstum því kalla þetta feminískt, nokkrum þúsund árum áður en femínismi kom til sögunnar. Þetta er mín þýðing og má vera röng.

Minako frá Lýbíu, hin gagnlega;

ef einhver varð algjörlega gagnleg kona, (þá) er ég sú,

fyrir réttlætinu og öllum öðrum,

en þótt slík væri fékk ég ekki verðskuldaða ánægju,

hvorki frá þeim sem ég hélt (að ég fengi hana), né frá guðdómnum.

[…] ég er fjarri móður minni og föður

[...…fa]lið, þau gáfu mér ánægjuna eina,

[í staðinn fyrir það sem ég ætlaði] að fá frá börnunum.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Þetta er ótrúlega fallegt