laugardagur, desember 29, 2007

Sorgleg samantekt ársins

Á árinu 2007 gerðist mest lítið.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Dómkirkjuhneykslið seinna

Aldrei hefur tónskyni mínu verið jafn ofboðið og eftir tónun aðstoðarprests Dómkirkjunnar í aðfangadagsmessunni. Sem var útvarpað á öll heldri heimili.

Undir skerandi falstónum misstu mæður fóstur og mjólk súrnaði í brjóstum. Eistu karlmanna sigu og sáðrásir skruppu saman. Hvílíkt og annað eins.

laugardagur, desember 22, 2007

Aaaaa ha ha ha ha ha ha!!!!


Deyðu, fokker!

föstudagur, desember 14, 2007

Þessi bloggpóstur fjallar um sjálfan mig og er langur og loðinn eftir því

Nú, fyrst í framrás aldanna, er kominn tími á eina allsherjarsamantekt og ritdóm frá mér um mig til þín. Ég ætla að líta á opinberan ritferil minn, sem hefur einungis farið fram á þessari bloggsíðu, með gagnrýnum augum. Ekki það að ég sé að fara að hætta að skrifa hérna, en hér gæti leynst hið ágætasta tækifæri til að draga úr sjálfum mér, sem ég má alls ekki missa af.

Síða þessi hefur verið starfrækt lengur en arkívur þessa bloggs gefa til kynna. Það var stofnað í febrúar 2003 (ég get alls, alls, alls ekki trúað að það séu næstum fimm fokking ár síðan) þegar ég var í tíunda bekk Hagaskóla.

Ég þoldi ekki við í grunnskóla, aðallega af völdum eineltis og fleira í þeim dúr sem varði ansi lengi á mínum ágæta skólaferli. Því lauk loks þegar ég skipti um bekk í tíunda, en áhrif þessa komu þá samt fram því að ég var uppfullur af hatri og óþoli út í allt og alla og það sem mér fannst vera heimskan í kring um mig. Ég var s.s. á gelgjunni. Og er það enn að mörgu leiti.

Ritstíll minn þá einkenndist af skúðyrtum umkvörtunarstíl og yfirlátssemi falið undan þykku lagi af sjálfshatandi kaldhæðni. Þetta gæti reyndar líka lýst ritstíl mínum í dag. Og í þessari grein, svei mér þá, en treystið mér, ég er minna óþolandi núna. Eilítið minna.

Eftir að ég byrjaði í MR sá ég að mér og einfaldlega eyddi öllum mínum gömlu skrifum. Hér átti að byrja nýtt líf! Ei lengur sátu um mig skuggar fortíðar. Mitt var alvald hugsanna og gjörða í samfélagi sem átti ekkert í gríðarlegan menntamátt minn eða heilastarfsemi. Í gegn um þykkt lag af unglingabólum byrjaði ég svo aftur að skrifa í nóvember 2004. Það var hörmung.

 • [Postscript] Hmmm. Á maður ekki að hafa 'á fóninum' eða eitthvað hérna, samkvæmt siðferðislögmálum bloggmenningarinnar? Ehm. Humm. Segjum:
Gubb. Ég er þarna að reyna að setja mig á æðri stall en aðrir á meðan ég hermi á eftir þeim af áfergju í félagslegt samþykki. Þetta er vond blanda. Svo skrifaði ég einhverja reiðiblásturspósta sem ég treysti mér ekki til að vitna í, svo lélegir og móðgandi eru þeir. Rauður í framan af hroka og eymd yfir því að fólk sem er öðruvísi en ég sé hamingjusamara en ég. Skömm.

Svo fer ég að stæra mig af einkunnum og vorkenna mér fyrir að vera í svona mörgum prófum. Og ég enda fjárans vorkunnarpóstinn á
 • Oh, happy day...
Aaaaaarggghh!!! Ertu ekki að grínast, Þorsteinn! Smekkleysi þitt er algjört! Ég skammast mín fyrir erfðaefni þitt!

Svo byrjaði ég að gerast dramatískur.
 • Ég er veikur... veikur af gleði.
Komm fokking on.

Svo kemur eitt hrikalegt: Wannabe George Orwell dæmisaga um sjálfeyðingarhvöt mannsins þar sem ég tala um apa. Ég var api þegar mér datt í hug að birta þetta.
 • Fyrsti maðurinn stígur varlega niður úr trénu, og finnur fyrir mjúkum jarðveginum milli hárugra tánna í fyrsta sinn...
Þetta er einhver vitleysa um hvenær hann finnur morðvopn og lærir að drepa! Ómægod ómægod!
 • Síðan hvarflar að honum: En hvað ef það eru tveir grænir steinar?
 • ...og þar með er mannkynssagan byrjuð. Við höfum nákvæmlega ekkert breyst síðan þá.
Hroðalegt. Gelgjugáfur mínar alveg á sínum lægsta punkti og þar er mikið sagt. Öhöh! Manneskjan sökkar og við munum öll deyja. Sjáið hvað ég er vantengdur heiminum! Mér er sama um allt! Hahaha. (röddin brotnar)

Já, ekki byrjar þetta vel. En stuttu eftir þetta fer ég að mildast og skrifin verða aðeins minna tilgerðarleg og aðallega bara litlaus og leiðinleg. Hápunktar eru transkrípt af MSN samræðum millum mín og Þórarins Sigurðssonar fyrrverandi Inspectors Scholae í fjórum bindum. Það sorglega var að það var alltaf Doddi sem var fyndinn í þessum samræðum. Hvílíkur ritstuldur hjá mér. Á einum stað skilgreinir Doddi gelgjumig þó vel:
 • Vox populi: Mér líkar einstaklega vel við 'intraconformal membranes'. Hljómar svakalega gáfulega.
 • Doddi: haha
 • Doddi: þessi setning lýsir Þorsteini fullkomlega
 • Doddi: 'Mér líkar einstaklega vel við 'intraconformal membranes'. Hljómar svakalega gáfulega.'
En einmitt þá kom það lélegasta af öllu, einn hroðalegur póstur sem var alveg eins og það sem ég hafði skrifað þegar ég var í tíunda bekk, ef ekki bara verra! Ég treysti mér bara til að vitna í eina setningu þaðan:
 • Mótmæli er grunnur hins meingallaða lýðræðis.
Botninum er náð. Með skelli og opnum beinbrotum; lærbein í gegn um hnéskel. Sjitt!

Fyrst fór að bera á einverju sem gaf minnstu rithæfileika til kynna í janúar 2006. Þá hafði ég tekið upp á að paródía mér betri bloggara og ég parodíaði blogg félaga míns Einars. Út kom þetta sem kom sjálfum mér stórlega á óvart í sjokkfaktor:

Í gær vaknaði ég við það að ég var að éta á mér höndina.

Ég horfði á það, ég sá hvað ég var að gera en ég gat ekki stoppað, ég tók bita og annan bita og sinahnyklar og húðtægjur og blóðsósa ólgaði um í meltingarfærum mínum, og ég át og át þangað til að það var bara bein eftir.

Þá byrjaði ég að naga eins og hundur og ég gat ennþá ekki hætt, ég fann tennurnar skrapast og slípast og verða að engu, en ég gat ekki stoppað mig, ég var svo svangur. Ég horfði á fastur inn í stjórnlausu hylki eins og hrætt barn í rússíbanaferð sem endar aldrei. Ég át og át þangað til tannholdið sargaðist niður og blóðið flæddi ofan í kok, en ég gat ekki brotið beinið og ég gafst upp, en ég var samt svangur og ég hafði ekkert að éta nema mig sjálfan.

Steik í matinn, namm namm

Jahá! Þetta er nefnilega dálítið skemmtilegt. Pointless en sjokkerandi og jafnvel dálítið ljóðrænt. Nú fóru skrif mín að batna; ég byrjaði að skrifa færri, lengri og fyndnari pistla og ég fór að skapa hér þema á síðuna sem er húmor. Uppskrúfuð fyndni sem gerir grín að sjálfri sér og mér og flestu en ekki lesendum lengur, eins og áður var. Svo er þetta meira að segja, leyfi ég mér með hiki og stami að segja, dálítið fyndið stundum.

Allt var á uppleið; og sjá. Hér stöndum við. Skyndilega fannst mér ég hafa einhverja ástæðu til að skrifa hingað, varð jafnvel stundum eilítið stoltur af þessu ritsafni. Ég held að ég sé einn helsti aðdáandi minna eigin skrifa, en t.d. var ég í hláturskasti yfir eigin ágætum á meðan ég skrifaði þetta til sjálfs mín:
 • PS II: ÞÚ MIÐPUNKTUR MENNSKRAR HEIMSKU OG ALMENNS BLÆTIS!!! Ég gæti étið þig, nei, fú, oj! Oj!!!
Nú er þessi póstur orðinn óþægilega sjálfshælinn, en er það ekki einmitt bara tákn um betri tíma?