laugardagur, september 22, 2007

Sannlega segi ég yður

My Favorite Things með John Coltrane er sannleikur lífsins.

Ennfremur biðst ég afsökunar á hversu leiðinlegur ég hefi verið í mínum bloggpóstum undanfarið. Britney Spears er orsök alls þessa.

föstudagur, september 21, 2007

Aðgerðin 'Pólstjarnan'

Nú er það mikil frétt að lögreglu Íslands hefir tekist að leggja hald á um sjötíu kílógrömm af amfetamíni sem einhverjir seinheppnir sjómenn sigldu með á Fáskrúðsfjörð. Fyrirsagnir íslenskra miðla eru bráðfyndnar að vanda.

Blaðið er með risastórt "TEKNIR" á forsíðu. Vísir.is var víst með fyrirsögnina 'STÆRSTI FÍKNIEFNAFUNDUR SÖGUNNAR'.

Húrrahrópunum ætlar ekki að linna og nú á víst stofnun ríkislögreglustjóraembættis, greiningardeildar og sérsveitar að vera fullréttlætt. En sumir muna kannski eftir að undanfarið hafa þessi mál komið upp aftur og aftur og aftur... 'stóra fíkniefnamálið' og 'stærra fíkniefnamálið' og 'stóra kókaínmálið' og svo framvegis og svo framvegis. Samt sem áður eru allir sannfærðir um að þetta vandamál sé að ágerast. Hvernig passar þetta saman?

Nú er hugmyndin á bakvið aðgerðir á við þessa að hér sé verið að forða dópistum frá hinu ógurlega eiturlyfjahelvíti sem þeir munu annars sogast enn dýpra í - og með þessu sé einhverskonar sigur unninn gegn hinni illgjörnu eiturlyfjamafíu landsins. Þetta er ákveðinn langvinnur misskilningur um hvernig eiturlyf nákvæmlega koma inn í samfélagið sem við búum í.

Eiturlyfjamarkaðurinn fer eftir öllum lögmálum um framboð og eftirspurn eins og hver annar markaður í kapítalísku hagkerfi. Munurinn er hinsvegar sá að með því að minnka framboð minnkar eftirspurn ekki neitt: Þetta eru fíkniefni, kaupendur eru háðir þeim.

Þar sem lyfin eru ólögleg og áhætta að flytja og selja þau hækkar verðið á þeim langt yfir framleiðslukostnað sem gerir sölu og flutning þeirra að gríðarlegu gróðafyrirtæki. Þúsundir manna vinna við þetta út um allan heim, því að ágóðinn af þessu ákvarðast við áhættuna og yfirvinnur hana; eiturlyfjasalar græða nóg á þessu til að finnast það þess virði að lenda kannski í fangelsi fyrir vikið.

En nú þegar ein sjötíu kíló af amfetamíni hverfa af markaðnum munu nokkrir hlutir gerast og engir þeirra íslensku samfélagi í hag.

  • Verðið á amfetamíni á götunum mun hækka. Amfetamín er dýrt efni og þeir sem eru háðir því eru líklega ekki mjög efnaðir fyrir vikið. Nú hafa margir hverjir líklega ekki efni á skammtinum sínum.
  • Til að fjármagna þennan skort munu þeir grípa til þess að ráðast inn í næstu 10-11 og ógna fimmtán ára afgreiðslustúlkunum með vasahnífum.
  • Svona hlutir misheppnast nær alltaf og þá verða komnir fleiri unglingar í fangelsi og á sakaskrá, og þessir sömu unglingar fá ekki vinnu framar, og hafa eiginlega ekkert frekara að gera í lífinu sér til brauðs en að... já... selja dóp.
  • Í þeim skorti sem nú mun myndast á Íslandi og með þessari verðhækkun, mun innflutningur amfetamíns hingað verða þeim mun gróðavænlegri en áður. Íslenskir 'athafnamenn' munu nú rjúka upp til handa og fóta og drífa sig að flytja meira inn til landsins til að nýta sér þessa stöðu. Ég held satt að segja að afleiðingin verði meira amfetamín en áður á landinu.
Enn önnur afleiðing þessa er sú að hið nýja skipulag lögreglunnar fær athygli og hylli og, guð forði okkur frá því, að það verði jafnvel meira fjármagn veitt embætti ríkislögreglustjóra. Til dæmis um algjöran ofmetnað þessa embættis þessa stundina skal til dæmis nefnt að Blaðið telur yfir fimmtíu lögreglumenn hafa tekið þátt í handtöku þessara sjómanna; flestir þeirra sérsveitarmenn á ómerktum jeppum. (Örugglega svörtum á lit.) Og til að toppa þetta allt fékk þessi 'aðgerð' víst hernaðarheiti; 'Pólstjarnan'.

Íslenska lögreglan er í lögguleik sem hún tekur afar alvarlega. Um daginn kom frétt þess efnis að íslenskir lögreglumenn væru nú á námskeiði hjá bandarískum kollegum sínum í 'mannfjöldastjórnun' (crowd control). Ljósmynd af þeim var birt í Fréttablaðinu, svartklæddir í skotheldum vestum með stóra óeirðaskildi. Það vantar bara nokkra á svörtum hestum með táragasbyssur - þá fer þetta að líta út eins og fréttaljósmynd frá tímum kynþáttastefnunnar í Bandaríkjunum - þegar herlögreglumenn marseruðu um með þessa sömu skildi, sumir einmitt á hestbaki, og börðu upp höfuðkúpur svertingja sem dirfðust að krefjast réttinda sinna.

Ég hef illilega á tilfinningunni að bráðum muni eitthvað hrikalegt gerast í þessu valdaójafnvægi milli lögreglu og borgara. Þú gefur manni ekki byssu ef þú býst ekki við því að hann skjóti einhvern - ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég er skíthræddur við eigin lögreglu og ég er ekki viss um að ég mundi taka þá áhættu að leita réttinda minna gagnvart henni ef hún gæfi mér skipun.

Það er alltaf best að hlýða manni með byssu.

fimmtudagur, september 13, 2007

Note to self

Þorsteinn, þú múlheimski kuggur, það er ekki sniðugt að drekka kaffi á kvöldin. Þá verður þitt ógeðfellda sjálf andvaka; sem er þó ekkert minna en þú átt skilið.

Og hafðu það!

PS: Þú sópur! Þú saurverpi úr ystu hringjum þess sem ímyndast verður! Þér eruð hummus, okandi hussi, óbarn, sólkólfur og hubb. Ég óska þér vávistar innan vébanda Satans þar til að endinum líður og kaldur eldur gleypir allt sem er nema þig sem fær að horfa á innan úr hinni víðu sápukúlu eymdarinnar.

Grrrr!

PS II: ÞÚ MIÐPUNKTUR MENNSKRAR HEIMSKU OG ALMENNS BLÆTIS!!! Ég gæti étið þig, nei, fú, oj! Oj!!!

þriðjudagur, september 11, 2007

Tónlistarferill. Stefnulaust

Flestir ættu að kannast við að fá sér geisladisk með einhverjum tónlistarmanni og melta hann - það er fátt skemmtilegra. Ég finn afar mikið fyrir því hversu fáránlega langt ég á eftir, hversu mikið af tónlist ég á eftir að hlusta á sem ég mun elska.

Fyrir um það bil fimm árum hlustaði ég varla neitt á tónlist. Svo datt ég inn í klassískt rokk og varð þessi hroðalegi hlutur, hataður af kúlistum allstaðar - gullaldarperri.

Að sjálfsögðu var það Led Zeppelin til að byrja með. Þetta kannast allir gullaldarperrar við. Þegar maður er þarna þrettán til fimmtán er einfaldlega ekkert svalara til - hljóðfæraspilunin er mögnuð og lögin eru öll grípandi og frábær - hvert og eitt einasta og það eru hundruðir sem þeir sömdu. Fyrir hvern þann sem hlustaði á FM957 á sínum smekklausu barndómsárum var þetta ótrúlegt. Ég vissi ekki að svona tónlistarmenn væru til.
Þá komu Bítlarnir næst. Ef eitthvað réttlæti væri í heiminum væru þeir á undan, en svona er þetta. Það tók mig reyndar langan tíma að hlusta þá alla upp. Það er hinsvegar vel þekkt að aldrei hafa hæfileikaríkari lagasmiðir og tónlistarmenn starfað saman. Maður heyrir strax að þetta eru Bítlarnir, það er eitthvað sánd sem þeir hafa og enginn annar. Það er takmarkandi en einstakt. Eins öðruvísi og Julia og Hey Jude eru, þá eiga þessi lög eitthvað sameiginlegt. Allir Bítlarnir lærðu af hver öðrum og gáfu fram og til baka - Paul skrifaði John-leg lög og öfugt og sama með George. Og, tja, Ringo, býst ég við.

Svo byrjar ballið. Ég varð versta týpan af gullaldarperra; ég heyrði lagið Shine On You Crazy Diamond Part I í útvarpinu (já, allar þrettán mínúturnar) og ég hafði aldrei heyrt neitt svona fallegt - ég varð kolástfanginn af Pink Floyd.

Nú, ég skil vel af hverju þessi sveit er litin hornauga í kúlistahringjum. Þeir eru snillingar, en þeir eru vissulega eins 'pretentious' og hljómsveit verður. Þeir hafa hinsvegar góða ástæðu fyrir því: þeir voru einfaldlega að gera stærri hluti en aðrar hljómsveitir og skammast sín helst til lítið fyrir að segja það. Hljóðfæraleikurinn er ótrúlegur - ekkert hljómar eins og Pink Floyd plata. Þær voru óaðfinnanlega hljóðblandaðar og enn í dag er Dark Side of the Moon notuð til að prófa hljóðkerfi. Einnig eru textar Roger Waters frábærir og ég taldi þá lengi vera toppinn á textasmíði dægurtónlistar, þangað til ég uppgötvaði þann tónlistarmann sem ég met nú líklega mest af öllum.

Bob Dylan, sem fæddist undir nafninu Robert Allen Zimmerman, er magnað ljóðskáld. Hann skrifar í beinni mótsögn við hina beinu, tilfinningaþrungnu og skýru texta Roger Waters. Dylan getur skrifað fullkomlega um tilfinningu með því að skrifa ekkert um hana sjálfa heldur um allt í kringum hana, aðstæður og afleiðingar án þess að tilgreina orsök eða ástæðu. Hann spinnur af sér frasa sem eru svo ótrúlega fjarstæðukenndir en svo stórkostlega rökréttir að þeir festast í huga manns og hverfa aldrei - það er hægt að koma sér upp ágætu orðatiltækjasafni úr Dylan-textum sem ættu að geta þjónað manni við flest tækifæri, þótt áheyrendur ræku líklega upp stór augu. Þessi textasmíð er ekki tilgerðarleg á neinn hátt (finnst mér!)

Þrátt fyrir að vera meðalmaður í hljóðfæraleik og söng hefur hann sankað að sér mögnuðum tónlistarmönnum til að spila með sér á plötum sínum og hafa þær oft náð að gjörbreyta dægurtónlistarheiminum til hins betra með einhverju glænýju. Flestir ljóðrænir dægurlagatextar sem þið hafið heyrt eru innblásnir af Dylan. Tónlist hans er rík og svo glæsileg á svo viðkvæman og tilraunakenndan hátt, ekkert er fullkomið en það gerir þetta svo ótrúlega mikið betra sem hann er að gera.

~

Eftir Dylan (ég á nú samt langt í land með að hlusta á hann allan) hafa önnur bönd verið að uppgötvast á sífellt meiri hraða og fleiri tónlistargeirar. Djass, Miles Davis og John Coltrane, og svo soul og gospel og blús - í klassíska rokkinu eru svo The Band og Rolling Stones og Van Morrison og svo að sjálfsögðu fullt, fullt, fullt af öðru sem ég er ekki að minnast á.

Ég held að ég geti verið þolanlega ánægður með árangurinn hingað til. Ég hef farið úr engu í þó nokkuð en það er ótrúlega mikið eftir. Ég á eftir að sökva mér ofan í klassíska tónlist og ég veit að ég mun elska hana. Hinsvegar langar mig eiginlega varla til þess að fara út í það. Það verður mál. En ég vonast eftir þolanlega löngu lífi sem ég get eytt í þetta hobbí. Þeir eru raunar fáir hlutirnir sem ég vildi frekar eyða tíma mínum í.

Hu. Á öðrum nótum byrjaði ég á þessum pósti til að tala um lagið Acadian Driftwood með The Band. Síðan vatt þetta svona upp á sig.

Anyway, þá er það geðveikt lag.

sunnudagur, september 09, 2007

'Nú þegar lögreglan hefur troðið skrílinn niður og endað óöldina í miðænum, getur hún nú kannski loksins hreinsað burt þessa fjárans gyðinga'

Nýlega hóf Morgunblaðið umfangsmikla umfjöllun um næturlíf borgarbúa og ferðamanna stadda hér á landi. Fólk mátti ekki kasta af sér þvagi í húsasundi án þess að Mogginn harmaði viðburðinn í nákvæmri frétt um hve oft viðkomandi hristi.

Svo vill til að kominn er nýr lögreglustjóri. Hann er víst ungur og óreyndur en hefur greinilega gott sens fyrir almannatengslum, enda hefur hann stöðugt svarað borgaralegum ó-vei hrópum blaðanna og fundið upp á nýjum og nýjum smáborgaralegum árásum á friðhelgi einkalífsins til að friða aldraða miðstéttina.

Það sem oft vill gleymast er að lögreglumenn eru afar fáir, og þeim fækkar stöðugt, vegna lélegra launa, illrar meðferðar og ósætti við yfirmanninn og nýja starfshætti. Nýlega tók til starfa svokölluð greiningardeild Ríkislögreglunnar, sem hefur það ágæta markmið að safna upplýsingum um Íslendinga og þeirra gjörðir. Einnig var fjölgað í sérsveit lögreglunnar, og það var gert að fullu starfsheiti; þ.e. sérsveitarmenn eru alltaf á fullum launum á vakt og vinna ekki sem venjulegir lögreglumenn þegar ekkert er að gera. Sem er oftast.

Eftir ellefta september hefur það ávallt verið vinsælla og vinsælla hjá yfirvöldum á vesturlöndum að koma fram við alla borgara eins og glæpamenn. Fyrst fólk er saklaust uns sekt er sönnuð, skal bara búast við sekt allra. Sigri hrósandi státa lögregluyfirvöld sig af fjölgun eftirlitsmyndavéla, bæði venjulegra og véla sem fylgjast með umferðarhraða. Á sama tíma hafa umferðarsektir hækkað um mörg hundruð prósent. Vélar þessar borguðu sig víst upp á tvemur vikum eða eittvað þvíumlíkt. Ég vil helst ekki hugsa um hvert gróðinn af þessum vélum fer. Ég hef á tilfinninguna að það sé í stærri byssur á sérsveitina og alls ekki í laun hins almenna lögreglumanns.

Það nýjasta nýtt er sem sagt gríðarlegt lögreglueftirlit í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Sérsveitin sér nú um löggæslu í miðbænum (vonandi óvopnuð.) Fólk er handtekið fyrir að henda rusli á götur og pissa. Þeir tala víst um 'færibandsaðferðina' þar sem fólk, fyrir minnstu sakir mögulegar, er eiginlega neytt til þess að borga lögreglunni tíu þúsund krónur. Aftur er ég uggandi um ágóða lögreglunnar af þessu. Einnig er það góð spurning af hverju þessir hlutir verða skyndilega að glæpum á ákveðnum tíma sólarhrings um helgar og hvort einhver lagaleg heimild sé fyrir þessari vitleysu, þessari 'færibandsaðferð'.

Það er einfaldlega ekki rétta aðferðin að bregðast við einhverju svona með Big Brother aðferðinni. Af hverju pissar fólk á göturnar, af hverju sækir það út úr stöðunum til að skemmta sér, af hverju myndast slagsmál, af hverju fer fólk yfirleitt í miðbæinn? Fólk er ekki að gera þetta af fólskulegri illsku eða vegna tengsla við Al-Qaeda. Nokkrar ábendingar til lögreglunnar, sem mun aldrei lesa þetta (eða ef þeir lesa þetta, munu þeir setja mig á einhvern lista yfir 'atvinnumótmælendur' hjá greiningardeild) og annarra smáborgara sem krefjast úrlausnar á 'óöldinni':
  • Drykkja áfengis er ekki ný af nálinni. Mannkynið hefur bruggað bjór (sem er afar flókið ferli) lengur en það hefur baðað sig (afar einfalt ferli.) Það er gjörsamlega árangurslaust að reyna að banna áfengi; þá mun fólk bara drekka landa í staðinn og verða verra fyrir vikið. Að banna eitthvað breytir eftirspurninni ekki neitt.
  • Af hverju fyllast húsasund Laugavegar af hlandi um helgar? Því fyrir útteygðar þvagblöðrur bjórdrykkumannsins er í fá önnur hús að venda, því í miðbænum eru nefnilega engin almenningssalerni.
  • Við fólk sem býr í miðjum miðbænum. Við hverju í ósköpunum bjuggust þið? Þið talið oft um að það þurfi að færa skemmtistaðina úr íbúðahverfunum. Tja, gangi ykkur vel. Ætlið þið að reka þá burt með vopnavaldi? Biðja þá kurteislega?
  • Ástæðan fyrir því að fólk sækir út af stöðunum til að skemmta sér er ein. Reykingabannið. Borgaryfirvöld verða að spyra sig hvort það hafi virkilega verið þess virði og vera nógu skynsöm og hógvær til að skilja að þetta var bara mjög illa ígrundað bann.
  • Það er bara ekki mjög vænlegt til árángurs í kosningum að kalla stóran hóp ungra Reykvíkinga 'skríl'. Bara plís dónt, ég tek þessu persónulega.
Öll þessi umræða er afskaplega lituð af því að þeir sem að henni koma hafa aldrei stigið í miðbæinn um helgar og vita ekkert um hvað það er að tala. Reykjavík er alltaf að verað stærri og stærri og meiri stórborgarbragur að koma á hana, og sömuleiðis hljóta vandamálin að aukast. Erlend blöð eru ekki uppfull af fréttum um hvað lögreglan gerði í drykkjulátum borgarbúa, það eru ekki fréttir neinsstaðar nema hér. Fólk drekkur og fólk lendir í vandræðum og þetta er einfaldlega mannlegt vandamál sem er ekki að fara að hverfa nema með öllu fasískari aðferðum en ég er tilbúinn að lifa við. Leave it alone.

laugardagur, september 01, 2007

Skjótt skipast veður í lofti, sagði Sókrates og leysti vind


Formælingar mínar á sjálfum mér í síðasta pósti eru að engu orðnar. Ég hefi bætt mig, smeygt svartri skyrtu yfir nærbolinn og hreinsað til í kringum mig. Nú sit ég í dauðhreinsuðu umhverfi með bassagítar við hné mér og hlusta á jass. Ég er svalur á ný.