miðvikudagur, maí 30, 2007

Sumt er ekki mönnum ætlað

Eftir síðasta prófið (ég, með þorn í upphafi nafn míns, er líklega með síðustu mönnum þessa árgangs til að klára stúdentsprófin, fyrir utan þá sem taka sjúkrapróf) sofnaði ég og missti enn einu sinni af tækifærinu til að fara á hina margrómuðu Pirates of the Caribbean: At World's End. Stundum finnst mér eins og allt mitt líf leiði eftir vegggyrtum vegi til þeirrar hinnar sömu kvikmyndar, enda kemur hún eftir langt og strangt próftörn og hefur því tekið sér stöðu heilags kaleiks í lífi mínu.

Jón Spörvi og félagar í Krabbahafinu munu því vonandi uppfylla allar mínar villtustu óskir með brugðnum korðum og fyllerísstælum. Kafteinn Kolkrabbi og flennistór freygáta hans á óðaferð um æsileg höf svo yfir pena kvenmenn líður og órólegir karlmenn þerra af sér svitaperlurnar með hvor öðrum. Villt, villt! Ég fyllist Wanderlust, þramma um rusli stráðan Edengarð og ét epli.

Í hugarheimi mínum hitti ég Bob Dylan baksviðs og reyni að ná athygli hans á meðan hjartað hamast í brjósti mér. Bobb, Bobb, segi ég. Hann horfir á mig eins og ég sé eitthvað langt fyrir neðan hann, eins og Deutsche Grammophone vínyll við hliðina á geisladiski með Spice Girls. Ég uppgötva þá mér til mikils hryllings að ég tala enga ensku og ég finn slaufu koma á tungu mína. Úr mér heyrast ráfandi hljóð.

Bob Dylan segir 'It ain't you my friend that's gone, it's another.'

Ég fæ skyndilega röddina og segi honum 'Your friends are all out building churches from your bones.'

Svipur hans lýsir ánægju.

'Well, you're screaming for the replacement friends that the monks are all waiting for.'

Við þessu hef ég ekkert svar og brosi eins og fífl. Mig langar helst til að kyssa hann eða eitthvað en held aftur af mér og rétti honum bein.

'You should be made to wear earphones',
vitna ég sný mér við.

mánudagur, maí 28, 2007

Æðislegt

fimmtudagur, maí 24, 2007

Bob Dylan á afmæli í dag

Hann er 66 ára. Heimsendir er í nánd.

And these visions of Johanna are all that remain...

Gamla, hallærislega Ísland

Íslenskar bókmenntir sem fag er einhverskonar menningarleg fornleifafræði. Það fjallar um gamla, hallærislega Ísland sem er að hverfa. Enn má sjá nokkra agenta þess spranga um, Ómar Ragnarsson, stjórnmálaleiðtoga og fleiri sem ekki fylgjast nógu vel með og hafa ekki ferðast alveg nógu víða.

Á gamla Íslandi segja menn skondnar ferskeytlur við hátíðleg tækifæri. Menn syngja ættjarðarlög og tigna landið og náttúruna. Menn grúska í ættum og tala um framsóknarflokkinn og mjólkurbúin og hafa hávamál fyrir vörum. Kemur hún ekki að austan og vertíðin er rétt að hefjast á Húsavík. Sigmund og zetan í Mogganum. Þetta er bæði fyndið og sorglegt.

Líka tilfinningu fæ ég þegar ég les sum af þessum misgóðu íslensku ljóðum og smásögum - formálar hverra í kennslubókinni hrósa þeim eins og glænýjum guðspjöllum. Kommon! Höfundar bókarinnar geta í alvöru ekki hugsað svona þjóðhverft. Hávamál eru ekki heimsbókmenntir og hana nú, né þá nokkuð af kommasögunum, verkalýðsruglinu, dramaljóðunum um fossa og allt náttúruklámið. Íslendingasögurnar eru magnaðar, vissulega heimsbókmenntir, en þar nemur glæsileiki íslenskra bókmennta staðar. Að átta sig ekki á þessu er hallærislegt og vandræðalegt og aulalegt. Plís, plís lærið eitthvað heimsmál og lesið á því og fáið samanburð... [bitur prófpóstur, horfið framhjá þessu]

miðvikudagur, maí 16, 2007

Voce profundus

Ég er óvanur því að lesa slappar bókmenntir. Ég hef alltaf haldið mig við einhverjar frægar bækur, með þeirri röksemdafærslu að það sé svo mikið til af þeim að það væri synd að sætta sig við eitthvað minna. Þó neyðist ég nú til að lesa ákveðið rit sem verður nú að teljast hálfgert rusl. Er hún þýsk og heitir 'Er hieß Jan' (Hann hét Jánn).

Hún fjallar á háalvarlegan hátt um ástir seytján ára þýskrar ungmeyjar á undirmenninu Jáni á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Gamla góða Rómeó og Júlíu þemað í gangi. Þó er eitt sem veitir mér von í þessum hnyttna bæklingi. Þýska stúlkukornið hrífst nefnilega að Jáni ekki vegna vöðvamassa hans eða tannheilsu, heldur út af því að hann hefir svo glæsilega, seiðandi rödd. Þetta veitir mér vonarglætu í lífinu og hvetur mig til reykinga og viskídrykkju til að ná upp samskonar áhrifum á gesti og gangandi.

Það er nefnilega svo einstaklega glæsilegt að ná áfram á röddinni einni saman. Þetta þrái ég. Fullkomið hlutskipti fyrir iðjuleysingja og fúlmenni.

laugardagur, maí 12, 2007

Jæja

Nú kemst maður loksins að því hvað þeir meina með þessu 'lýðræðis' dæmi.

föstudagur, maí 11, 2007

Og eftir Eurovision

Frjálslyndi flokkurinn hefur nú örugglega fengið tugþúsundir kjósenda sem vilja helst setja Austur-Evrópu í útrýmingarbúðir.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Eurovision

Ég hef tapað námsvilja mínum eftir latínubrjálæðið. Því skrifa ég þetta. Það skal taka fram að þú munt örugglega vera ósammála þessum pósti. Meira en það, þú munt líklega telja mig minni mann eftir lesturinn. Þú munt hugsa, æ, fokking besserwisser hommi. Skríð út í þinn mjóa skurð gullaldartónlistar og gítargoða og hír þar votur og grátandi í kring um látnar eða hálflátnar goðsagnir. Tak þinn kassagítar og mótmæltu eins og þessi flón frá því fyrir Krist. En samt sem áður skrifa ég eftirfarandi, enda hugrakkur mjög og öruggur frá nútímanum í mjóa skurðinum mínum.

Hvað sem því líður, þá hata ég Eurovision. Í þessari keppni, sem telur sig vera keppni um besta lag sem Evrópa hefur upp á að bjóða, má finna nákvæmlega þessa stereótýpu sem Bandaríkjamenn halda uppi þegar þeir hugsa um Evrópu og Evrópubúa. Þetta kalla þeir 'Eurotrash'. Mér leiðist að viðurkenna það, en þetta er réttnefni.

Ég var að horfa á áðan myndefni af silfurklæddum, rúmenskum hópi í einhverskonar vélmennadansi. Þeir voru víst allir klæðskiptingar eða kynskiptingar eða eitthvað samansafn af öllu þarna á milli. Öll þessi sena lyktaði af svona stemmingu, allt má! Brjótum samtímaviðhorfin! Verum öðruvísi öll saman. Gagnkynhneigð er bara fyrir homma. Þýsk nútímalist, dósamatur fullur af mennskum hægðum sem er hellt yfir hest. Kynlíf er staðreynd lífsins og ætti þess vegna að vera háð einungis á húsþökum. Villtir súbkúltúrklúbbar fullir af leðri og fínum vínum. Basshunter og Scooter og aflitað hár og netabolir og magadans og wannabe-Ameríkanar. Klám ofan á klám ofan á fáránlegt tískuvit ofan á rasískan múg. Ef við töpum, eru það þessar fokking Austur-Evrópuþjóðir.

Við erum bara að uppfylla allt þetta sem er haldið fram um Evrópubúa um allan heim. Snobbað, heimskt, uppveðrað glanslið sem gengur í gjafapappír og hlustar á lélegar eftirhermur af amerískri tónlist á sínu eigin hrognatungu, því það er of þröngsýnt til að læra nokkuð annað mál. Við erum að gefa þeim skotfæri. En enginn hneykslast, enginn vill breyta þessari 'hefð', heldur horfum við á eftir allri listsköpun álfunnar hellast ofan í holræsið og drekkum á meðan bjór í Eurovision partíi, bíkíníklæddir dvergar dansandi á meðan á breiðum flatskjá.

Þetta er nú bara fokk.

mánudagur, maí 07, 2007

Cicero er meira himpigimpi en Bubbi Morthens

Glefsur úr Cicero.

... og farðu því úr borginni, Catilina!

nokkrar setningar líða.

...og, eins og ég hef áður sagt, farðu því úr borginni, Catilina!

...

...og þess vegna, Catilina, þar sem það er svo, farðu úr borginni!

...

...eins og ég hef oft áður sagt, Catilina, farðu úr borginni!

...það er enginn hér inni sem veit ekki þig hafa verið bla bla bla et cetera meus pater est equus.

Ecce!

Rerum natura impetrare est.

(Ég veit að enginn nennir að leysa úr þessu, ég er að tala við sjálfan mig með þessu. Hæli, hælisfæði er ég.)

Diei satis minutarum non est

Numquam ante tam male doctus fueram.

laugardagur, maí 05, 2007

Romanes eunt domus!

Í tilefni latínuprófs.

[Brian is writing graffiti on the palace wall. The Centurion catches him in the act]
Centurion: What's this, then? "Romanes eunt domus"? People called Romanes, they go, the house?
Brian: It says, "Romans go home. "
Centurion: No it doesn't ! What's the latin for "Roman"? Come on, come on !
Brian: Er, "Romanus" !
Centurion: Vocative plural of "Romanus" is?
Brian: Er, er, "Romani" !
Centurion: [Writes "Romani" over Brian's graffiti] "Eunt"? What is "eunt"? Conjugate the verb, "to go" !
Brian: Er, "Ire". Er, "eo", "is", "it", "imus", "itis", "eunt".
Centurion: So, "eunt" is...?
Brian: Third person plural present indicative, "they go".
Centurion: But, "Romans, go home" is an order. So you must use...?
[He twists Brian's ear]
Brian: Aaagh ! The imperative !
Centurion: Which is...?
Brian: Aaaagh ! Er, er, "i" !
Centurion: How many Romans?
Brian: Aaaaagh ! Plural, plural, er, "ite" !
Centurion: [Writes "ite"] "Domus"? Nominative? "Go home" is motion towards, isn't it?
Brian: Dative !
[the Centurion holds a sword to his throat]
Brian: Aaagh ! Not the dative, not the dative ! Er, er, accusative, "Domum" !
Centurion: But "Domus" takes the locative, which is...?
Brian: Er, "Domum" !
Centurion: [Writes "Domum"] Understand? Now, write it out a hundred times.
Brian: Yes sir. Thank you, sir. Hail Caesar, sir.
Centurion: Hail Caesar ! And if it's not done by sunrise, I'll cut your balls off.

föstudagur, maí 04, 2007

Dylan hrellir börn

Sjaldan hef ég verið jafn stoltur af því að vera Dylan-aðdáandi!

Þessi börn munu vera afar stolt þegar þau vaxa úr grasi. Bob Dylan skemmdi mig sem barn! How My Life Changed Forever When My Soul Was Raped By A Fearsome, Withered Rock God, metsölubók.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Þessi pistill er um stjórnmál og er langur og leiðinlegur eftir því

Gaman er af stjórnmálaauglýsingamennsku í blöðunum. Yfirleitt byrja þessar greinar á einhverju einföldu, sem allir geta verið sammála um:
  • Nú eru kosningar að hefjast.
Þetta setur rétta tóninn, því að lesandinn skal hugsa 'aha! Sannleikur! Þessari manneskju er treystandi, og hefur líka svo fallegt bindi. Ég mun halda áfram lestri mínum.'
  • Nú er það á ábyrgð okkar Íslendinga, að koma ákveðnum breytingum á.
'Jasso!' Hugsar kjósandinn. 'Þar hittir hann/hún naglann á höfuðið! Ég hafði næstum því ekki efni á síðasta líkamsræktarkorti og er í hefndarhug.'
  • Samfylkingin hefur viljann og styrkinn til að stuðla að betra Íslandi.
'Aha!' Hugsar hinn skarpskyggni kjósandi. 'Þessu trúi ég varlega. Hvað hafa þeir á prjónunum?' spyr hann sig, fullur gáfulegra efasemda, með augabrýrnar upp í loft á lýðræðislegan hátt. Nú hefst leikurinn fyrir alvöru.
  • Samfylkingin styður markvissa eyðingu fátæktar á Íslandi, en rannsóknir sýna að í dag lifa fimm þúsund íslensk börn undir fátæktarmörkum. Einnig viljum við hefja markvissa eyðingu biðlista á spítölum landsins, og auka stuðning og aðhlúningu við börn með geðræn vandamál. Ennfremur viljum við lækka skatta á láglaunafólki, auka hátekjuskatta, auka framlög Íslands til þróunarhjálpar og koma á heimsfriði.
'OMG!' hugsar kjósandinn. 'Þetta er nákvæmlega það sem mér finnst! Ég skrái mig snarlega í flokk.'

Eins og sumir lesendur hafa eflaust tekið eftir er ekki hægt að vera ósammála neinu á þessum lista. Maður spyr sig hvernig standi á því að þessi vandamál séu til staðar ef enginn er til sem veldur þeim og enginn sem ekki vill þau laga. Eina niðurstaðan sem hægt er að komast að er einfaldlega sú að þetta séu vandamál sköpuð af samfélaginu sjálfu, svo illleysanleg að stjórnmálaflokkar geta ekkert gert til að bæta úr. Lítum nánar á þennan lista.

Í byrjun pistilsins má sjá orðið 'markviss'. Þetta ágæta lýsingarorð er alltaf algjörlega merkingarlaust. Svona eins og orðið 'of' í fornum íslenskum ljóðum. Svo er talað um 'eyðingu fátæktar'. Aldrei er minnst á aðferð til þessa og það er vegna þess að engin aðferð er til. Einnig er dálítið þjóðhverft að tala um fátækt á Íslandi, þegar einhversstaðar í hinum stóra heimi sem er vissulega til fyrir utan Ísland liggur barn með uppþembdan maga og skerandi rifbein í sólinni og hrærir sig ekki af vanmætti þótt ormar séu þegar farnir að grafa sig inn í augu þess. Það er dálítið annað en það sem fyrirfinnst meðal þessara 5000 barna á Íslandi. Eitthvað annað orð væri gott hérna, kannski 'alsnægtaskortur.' Hann er visssulega til á Íslandi, og hann má kannski laga. Öllu verra er með hitt, en það viljum við helst ekki leiða hugann að. Flestir sjá að við höfum enga lausn á því.

Annað merkilegt eru stöðugar tilvísanir í 'rannsóknir'. Rannsóknir eru, ólíkt því sem stjórnmálamenn vilja halda fram, þverafstæðar. Alltaf þegar vitnað er í rannsókn hætti ég að hlusta, því það er alltaf til önnur rannsókn sem segir einmitt hið gagnstæða. Stjórnmálamenn reiða sig á að enginn rannsaki rannsóknirnar og tékki á því hvort þær séu unnar með einhverri fræðilegri aðferð eður ei, og ég skil það svosem, því hver nennir því?

Ég held því fram að það sé enginn flokkur á Íslandi sem vilji breyta samfélaginu að neinu verulegu leiti. Eina mögulega breytingin sem getur orðið í kjölfar þessara kosninga er einhver skattahækkun ef VG kemst í valdastöðu. Sjálfstæðismenn (sérstaklega ungir Sjálfstæðismenn sem vita ekki hvað kommúnismi er) halda því statt og stöðugt fram að Ísland muni umturnast í kommúnistaríki ef svo fer, en það er ekki mjög raunsætt sjónarmið. Ísland verður alveg eins fyrir og eftir þessar kosningar. Hinsvegar finnst mér löngu vera kominn tími á að Sjálfstæðismenn prófi smá setu í stjórnarandstöðu. Það drepur engan, það týnist enginn eignaréttur né rísa samyrkjubú, það þýðir bara að rostinn verður smávegis lækkaður í valdhöfum okkar, og þess er sannarlega þörf.

Kosningar eiga að vera hefndarstarfsemi. Ekki kjósa með heilanum, það er röng aðferð. Kjósendur eru alltof margir til að reyna að taka gáfulegar ákvarðanir í sameiningu. Það sem gildir er bara að hefna fyrir þær skyssur sem Sjálfstæðismenn hafa gert í sinni endalausu stjórnartíð, svo sem Íraksstríðið, Falun Gong málið og allt hneykslið með þennan bévítans söngfugl kínverska kommúnistaflokksins sem við sleiktum svo upp að ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa til þess; fjölmiðlamálið allt (sem ég þó studdi) þegar Sjálfstæðismenn vildu breyta stjórnarskránni í sinn hag, og svo ótalmargt fleira.

Svo að lokum bara það augljósa: Það er einfaldlega ekki lýðræðislegt að flokkur sitji svona lengi við völd, og ennfremur er það fáránlegt að fylgislaus flokkur eins og Framsókn hafi setið þetta lengi með þeim. Nú sá ég að þeir eru að auglýsa sig með einhverskonar hipphoppbúfénaði til að höfða til yngri kynslóðar kjósenda. Þetta á víst að sameina þau þjóðlegu, íslensku gildi sem flokkurinn stendur fyrir og um leið sameina þau við nýjasta nýtt frá blámönnum nýja heimsins. Ef þetta sjarmerar ekki unga fólkið, þá veit ég ekki hvað.

Eitt er þó gott að hefur ekki breyst í íslenskum stjórnmálum; frambjóðendur okkar eru enn í dag ljótir. Það er gott að fegurðarbrjálæðið allt sé ekki komið þangað inn og við höfum enn þann kost að kjósa yfir okkur ljótara fólk en okkur sjálf. Þegar það síðasta vígi fellur, veit ég svei mér ekki.