laugardagur, október 21, 2006

Fökking vá

Ég var að koma frá því að sjá mögnuðustu norðurljós sem ég hef á ævi minni séð. Sá þetta einhver annar?

laugardagur, október 14, 2006

Ég er ömurlegur Íslendingur

Því ég verð alveg hroðalega þunglyndur á gráum rigningardögum sem deginum í dag. Sem og flestum dögum héreftir fram á næsta sumar.

fimmtudagur, október 05, 2006

Tempus atque fortuna nobis omnibus accidunt

Það er gömul spurning hvað maður ætli að verða þegar maður verður stór. Ég er gelgja að eðlisfari og þegar ég er þráspurður svara ég oftast einhverri vitleysu, og þessi spurning er löngu svifin á það dimma landsvæði. Við þessu fást svör í líkindum við 'ælutól' eða 'trommuleikari Rage Against the Machine', eða 'nakinn flugmaður'.

Hinsvegar á þessi spurning sjaldan betur við. Ég er alls ekki búinn að átta mig á því, en MR er að verða búinn og ég veit ekki sjitt hvað gera skal eftir það. Mig langar vitund ekkert í HÍ. Ég fer því líklegar til Þýskalands í háskóla, að læra þýsku og eitthvað fleira. Meiri latínu eða eitthvað í þeim dúr. (ég er hérmeð opinberlega að hugsa upphátt. Ég fyrirgef þeim sem hætta að lesa á þessum tímapunkti, en restina drep ég ef hættir) Ég geri mér engar grillur um notagildi þessa náms, því það er óskaplega lítið. Ég get kennt og ég get orðið valdur að stórfenglegum breytingum á þekkingu okkar á forna heiminum með því að kollvarpa þýðingu orðs nr. 2189 í De Bello Gallico. Hvorugt er beint bætandi fyrir umheiminn.

Hinsvegar hef ég fátt annað sem mér finnst gaman að læra, og ég hef aldrei fundið mér neitt sem mér finnst gaman að gera sem ég get jafnframt unnið við. Og það að vinna við eitthvað sem maður nýtur ekki er uppgjöf og hálfsjálfsmorð, sem aftur á móti er ungæðisleg vitleysishugmynd sem ég á að vaxa uppúr þegar ég kynnist hinum harða heimi vinnumarkaðsins almennilega.

Munurinn á milli hugsjóna minna og það sem ég veit að er harður sannleikur er alveg hreint fáránlegur og aftur hef ég ekki hugmynd um hvort skal elta. Upp skal setja lista í hverjum skulu taldir upp möguleikar mínir.

  • Gerast eilífðarnemandi í latínu og fornum fræðum. Einskonar atvinnunörd. Taka upp kennslu. Dey með tilvitnun í Catullus á vörum.
  • Einhverskonar hroðaleg skrifstofuvinna á Íslandi, innganga í Sjálfstæðisflokkinn og óhjákvæmilegt sjálfsmorð.
  • Gerast trúbador, ganga heiminn og syngja Bob Dylan lög. Deyja í áströlsku ræsi innan um kengúrur.
  • Fara til Hollywood og meikaða sem raddleikari. Verð að lokum trailerrödd, mitt stærsta móment verður trailerinn fyrir hina sívinsælu ljósbáu mynd 'Utopian Ovaries.' Dey af sprunginni lifur eftir mikla viskýneyslu til að bæta fyrrnefnda trailerrödd.
Hm. Get ekki hugsað upp á fleiru. Af þessu lítur fyrsti möguleikinn best út. Hjálp til vals?