sunnudagur, júní 18, 2006

Fyrir verkalýðinn landzinz.

Undir regnhettu í bullandi rigningu verður mér litið upp til himins, sem er grár og ælulegur að sjá. Ég herði takið á hrífunni sem ég held á og í huga mér er ég Vassilíj Búlgakoff, armur verkamaður á skítugum akri í eigu aðalsins, og skyndilega skellur á mér og samverkamönnum mínum mikil höggbylgja af framandi tilfinningum; frelsisáráttu og ástarþrá, himininn lýkur upp fyrir mér, og fegurðin brýst í gegnum grátt fangelsi regnskýjanna.

Vassilíj stendur upp og virðir fyrir sér þetta furðufyrirbæri, frelsið löngu forboðið og týnt! Verkjandi bak Vassilíjs réttir úr sér með skrykk og hann sýgur til sín dýrð hins rósrauða himins, og það er eins og sólin sjálf fái samúð með hans auma verkamannablóði, því hún roðnar og spýtir inn í hug almúgans byltingu.

'Hvað gerið þér, Búlgakoff? Hví yrkið þér ekki akursspildu þá, sem yður ber að yrka?' spyr Alessander Uylovitsj, armari maður enn, því hann skorti handlegg. Ásjóna hans var sannarlega mæðandi og ill tilsjónar, en ekkert slökkti fítonskraftinn blóðrauða í æðum Vassilíjs. 'Nei, félagi Alessander, nei; héðan í frá yrki ég aðeins Rússlandi til frelsunar, en ei þrælkunar. Kom með oss, félagi! Gakk með mér á hinn langa veg frelsisins, og ég lofa þér þrautnalausn. Því, bróðir, blóð yðarer yðar, og einskis manns annars.'

Vassilíj tekur samstundis upp haka sinn og keyrir, með mikilli sveiflu, enda hans yfir höfuð Úlmoffs Jersóvitsar, varðar í liði Tsjarsins, sem gengur þegar í tvennt. Hljóð það, er loðhúfa hans sundraðist og heili hans losnaði úr fylgsni sínu, var eins og bjölluhljómur í eyrum allra þeirra verkamanna sem í kring voru. Bök lengi okuð réttu úr sér, hakar lengi lamdir gegn harðri klöpp þögnuðu og létu af takti sínum, og í loftinu var djúpt og ríkt ósamræmi.

Og allir sáu hinn rósrauða lit byltingarinnar mæra jörðina. Í flóknu mynstri breiddist blóð Úlmofs Jersóvitsar um akurinn, sem var ræktaður eins og með tilsjón til að veita því um hann allann. Og hver einasti maður, aflimaður, þreyttur sem nauður, leit til Vassilíjs, og hlýddi er hann mælti sín fræknu orð:

'Félagar! Fyrir framan oss er blóðslóðin lögð. Við erum sannarlega sigraðir, bugaðir; sá fullnaðarsigur er unninn, að þeir afhentu okkur hlekki og fótjárn og létu oss læsa þeim um eigin ökkla og hendur. En vér höfum enn lyklana, félagar; og það eina sem stendur í vegi fyrir framtíðinni og tefur hana í rás sinni er sú þrælska okkar hin flónskasta, að venjast þunga hins hindrandi stáls. En ei meir; í dag mun hver maður muna, og hver maður sjá; og hver maður mun vita að blóð mannsins verður aldrei hlekkjað.'

Og undir lokin reis hver maður upp og söng háum rómi, rússneskum rómi, sem ómar um alla jörðina; 'blóð verður aldrei hlekkjað!'

Og eftir þessa litlu hugsýn sneri ég andliti míni til jarðar og hélt áfram að raka, og regndropar runnu niður eftir andliti mínu á pirrandi hátt.