sunnudagur, febrúar 26, 2006

Til að viðhalda trúarlega þemanu á þessari síðu

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Hárgreiðsla Vors Herra

Ég var að flytjast til um herbergi, sem væri ekki frásögnum færandi nema að ég rakst á bókahillu í nýja herberginu, í hverri var bók sem ég man eitthvað eftir úr æsku. Heitir þessi bók 'Sögur Biblíunnar'. Þetta er myndskreytt og rækilega ritskoðuð útgáfa af biblíunni, ætluð fyrir börn. Á forsíðunni má sjá Jesúm; sólbrúnn en rækilega hvítur að kynþætti, sem réttir fram fagra arma sína undan hvítþvegnum kufli sínum til hóps af börnum (eitt af hverjum kynþætti) og góðlátlegt andlitið er innrammað hinni fegurstu möllet-hárgreiðslu og skeggið virðist snyrt af fagmönnum.

Já, Jesús er sannarlega kynþokkafullur. Ég varð einfaldlega að velta því fyrir mér af hverju ímynd heilagleikans og sonur Guðs væri svona eighties í útliti. Einnig var furðulegt að Jesús er greinilega hvítur og virðist koma frá einhverjum miðríkjum Bandaríkjanna. Það að hann hafi verið bláfátækur uppreisnargyðingur frá Júdeu er gleymt. Í staðinn kemur hinn rammameríski, mölletaði kyntáknsjesú. Það er eins og hann sé stiginn úr Village People myndbandi.

Svo fletti ég nú á útgáfu bókarinnar á opinberunarbókinni, gríðarmiklum bálki sem fjallar um sýrutripp einhvers Jóhanness á eynni Patmos. Þar sér hann örlög heimsins og þeim er hér lýst með fögrum orðum og fögrum myndum. Þar er talað um að Jesú stígi á bak hvítu hrossi, og með riddaralið himins fyrir aftan sig ríði hann af himnum niður til jarðar. Þar tekur hann víst sverð úr munni sínum og lýstur heiminn með því. Því er lýst á mjög saklausan hátt að Jesús eyði þar þeim illu sem standa á móti honum, með hinu gríðarmikla eldibrandi. Úr munni sínum.

Síðan kveður Guð upp mikinn dóm og er því lýst að himininn breytist í 'eins konar sjónvarp'. Guð sýnir þá þeim sem hafa syndgað að hann hafi fylgst vel með, og er það sérstaklega tekið fram að syndararnir iðrist. Jafnvel Satan sjálfur iðrast. En svo kemur þessi skemmtilega kristilega setning: 'En það var of seint.' Og þá ringdi eldi af himnum og öllum þeim sem syndgað hafa var tortímt í himnaeldi.

Já, kristni er fagur hlutur. Við kristna fólkið erum svo umburðalynd og skilningsrík, svo fyrirgefandi. Við trúum að allir séu jafnir, en hvítklæddi hvíti maðurinn með mölletinn, hann er miklu jafnari en aðrir.

Þetta er kannski ástæðan fyrir því að Múslímar vilji ekki að það séu gerðar myndir af Múhameð spámanni. Því að kannski vildi Múhameð spámaður bara alls ekki vera þekktur fyrir að hafa möllet.