þriðjudagur, janúar 31, 2006

Lost

Klukkan er tuttugu mínútur í fjögur um nótt og ég var að enda við að horfa á síðasta þáttinn í Lost seríu 1 á DVD í boði Brynhildar, sem ég ánefni hérmeð góðmenni. Ég tók svo upp fyrsta í seríu 2, og horfi á það á morgun.

Djöfull verður maður háður þessu!

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Loks endursnúinn

Tölva mín tók upp á að bila illilega um daginn. Nútímaunglingurinn ég tók þessu illa. Næstum strax kom upp skjálfti í höndum og hugur minn dreifðist á óheilbrigðan hátt til hluta svosem lesturs og náms. Svo jókst handaskjálftinn og fæturnir byrjuðu að hristast með. Svo færðist það í andlitið, og annarlegir andlitskippir hrelldu gesti og gangandi.

Skap mitt tók dýfu niður á við, og ég urraði frekar en talaði; og þegar ég talaði voru það bölvanir á hinni fornu Canaan-tungu. Stundum ímyndaði ég mér að ég væri geit. Stundum var ég geit. Stundum varð geitin ég, og geitabræðurnir við flugum um og átum hvali - svo rankaði ég við mér klórandi í veggfóðrið, og öskrandi á Seif. Á þeim tíma þakti ég herbergi mitt með munstri á veggjunum sem er krabbameinsvaldandi þeim sem sér, enda er það fimmvítt og ógurlegt ásyndar.

En tölvan er komin til baka, og ég get loks eytt heilasellum mínum á ný. Jeij!

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Á hvaða tímapunkti...

...skeit ritstjóri DV síðasta lífffærinu og lét eitthvað svart og viðurstyggilegt vaxa í staðinn?

þriðjudagur, janúar 10, 2006

La musica

Mig langar í helgi, og því ætla ég að nostalgíast um þá sem leið.

Helgi þessa síðastliðnu fór ég á tvo tónleika, fyrst umhverfisverndunartónleika, að mér fremur áhugalausum um umhverfisverndun, sem er reyndar ekki nógu gott. Reyndar breyttu tónleikarnir því lítið. Þeir seinni voru kórtónleikar með The Tallis Scholars, en ég er einfaldlega ekki nógu gáfaður til að segja stakt orð um það, svo hinir tónleikarnir verða að nægja.

Það kom mér á óvart hvað ég gat haft gaman af mörgu þarna, verandi fordómafullur gegn íslenskri tónlist - Hjálmar voru snarbilaðir, ég hef alltaf gaman af Múm og Sigur Rós, KK var frábær, Björk var, tja, Björk (í þetta sinn íklædd grænum ruslapoka með hörpuleikara í farteskinu). Svo skellihló ég að Dr. Spock og Rass - mér finnst alltaf jafn ótrúlegt hvernig á Íslandi það tíðkast að stofna hlægilega asnalegar sveitir og fá heilmikla athygli út á það. Ég er sérstaklega að hugsa um sveitina Hairdoctor, en eftir umfjöllun um þá 'sveit' í tímariti moggans langaði mig, eins og oft áður, til að flýja land sem skjótast. Ghostdigital er þó eitthvað sem mér finnst ekkert fyndið. Ég þurfti að hlusta á þá á upphitun fyrir Pixies, og ég hef aldrei leitast eftir því að hlusta á þá aftur. Svo hef ég króníska vanþóknun á Bubba Morteins. Hann stendur með Birni Bjarnasyni sem asnalegasti maður Íslands (finnst mér, [pólitískt rétthugsandi afsökun].)

Íslenskri dægurtónlist er þá mögulega viðbjargandi - það er varla stök sveit sem ég mundi telja virkilega stórkostlega, en þetta er kannski ekki sama samansafn af helberum ungum vanvitum og/eða löngu útbrunnum gamalmennum og ég hélt. Lýsist þá upplit dagsins.

En á þjóðníðingslegri nótum fannst mér Damien Rice frábær, og hef verið að downloada lögum með honum undanfarna daga. Einnig hefur heyrst að Nick Cave hafi sett á sig sataníska huliðshjálminn sinn og komið fram óvænt, þó enn ósýnilegur. Hann hefur líklega sent satanískar heilabylgjur sínar til meðlima Ghostdigital og fengið þá til að spila í það sem virtist vera margar klukkustundir. Nick Cave hefur svo gengið af sviðinu, hlæjandi illum hlátri og allir sem litu í augu hans breyttust samstundis í saltstólpa.

Einnig, hin ellifjálga Gorgóna Jónas hefur kveðið depurð í kviðinn með silfurskeið.

föstudagur, janúar 06, 2006

Blogg í Einarsstíl

Næst verður Einar tekinn fyrir í góðlegri eftirhermu.

Í gær vaknaði ég við það að ég var að éta á mér höndina.

Ég horfði á það, ég sá hvað ég var að gera en ég gat ekki stoppað, ég tók bita og annan bita og sinahnyklar og húðtægjur og blóðsósa ólgaði um í meltingarfærum mínum, og ég át og át þangað til að það var bara bein eftir.

Þá byrjaði ég að naga eins og hundur og ég gat ennþá ekki hætt, ég fann tennurnar skrapast og slípast og verða að engu, en ég gat ekki stoppað mig, ég var svo svangur. Ég horfði á fastur inn í stjórnlausu hylki eins og hrætt barn í rússíbanaferð sem endar aldrei. Ég át og át þangað til tannholdið sargaðist niður og blóðið flæddi ofan í kok, en ég gat ekki brotið beinið og ég gafst upp, en ég var samt svangur og ég hafði ekkert að éta nema mig sjálfan.

Steik í matinn, namm namm

Heh, þetta er sjúkasti hlutur sem ég hef skrifað. Er samt ekki jafn sikk og þitt dæmi, karl minn... ;)

sunnudagur, janúar 01, 2006

Felix sit novus annus

Gleðilegt nýtt ár og danke schön fyrir það gamla og árið þar á undan, en ekki árið á undan því, þið eigið engar þakkir skildar fyrir það, bölvuð!