föstudagur, febrúar 25, 2005

Stuttmynd eftir okkur félaga. 75 MB, 27 mín. að lengd, Quicktime.

Og ef það kveikir ekki í ykkur:Hver getur staðist slíkan sársauka?
Fyrsti maðurinn stígur varlega niður úr trénu, og finnur fyrir mjúkum jarðveginum milli hárugra tánna í fyrsta sinn. Hann gengur hægt áfram á fjórum fótum, þangað til hann finnur það sem hann leitaði að - skærgrænan stein sem glitraði á í sólskininu sem brotnaði svo glæsilega í gegnum krúnublöð trésins úr hverju apinn hafði stokkið.

Og þegar apamaðurinn tekur upp steininn og starir á hann, finnur hann fyrir stundaránægju, honum finnst að líf hans sé fullkomið þessa einu stundu og að allt líf eftir þetta verði gott, því hann á græna steininn.

Síðan hvarflar að honum: En hvað ef það eru tveir grænir steinar?

Svo apinn leggur af stað að leita sér að öðrum grænum stein. Apinn leitar lengi, og hann finnur margt annað stórkostlegt sem honum hafði ekki dreymt um - þangað til hann kemur að skógi annars ættbálks af öpum, sem hann sér að hafa safnað miklu fleiri steinum og pjátri en hann - og raðað því í fallega hrúgu í ofanlág.

Við þetta verður apinn afskaplega reiður, reiðir steininn til höggs, finnur forsvarsmann apabæjarins og brýtur á honum höfuðkúpuna og hirðir steinahrúguna. Apinn er drepinn á flótta sínum úr skóginum, og hans er hefnt úr sínum eigin skógi, et cetera, og þar með er mannkynssagan byrjuð.

Við höfum nákvæmlega ekkert breyst síðan þá.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Uppgötvun gærdagsins var diskurinn Up með R.E.M. Ótrúleg tónlist. Ég hef eytt mestöllum tölvufræðitíma að berjast við löngunina að bresta út í söng, en ég er hræddur um að ég missi stjálfstjórn í Latínu og taki Daysleeper (dieidormius) með miklum brag...

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Nýtt lífstakmark: Að standa undir stjörnubjartri egypskri nótt og horfa á pýramídanna og Sphinxinn, og komast að því hvað hann er eiginlega að horfa á.

Þetta bætist ofan á að æla spaghettíleifum ofan á Bush, éta Calzone frá Napólí, stofna til orgíu á miðju Forum Romanum og slá Gunnar í Krossinum utanundir til að sjá hvort hann bjóði hina kinnina.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Die Verwirrung des Gottes hat alle Erden neben den Sonnen der unendlichen Helligkeit geschöpft.

Það er fyrir sköpun svona setninga sem ég læri tungumál...

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Þegar ég dey og fer til helvítis, mun ég standa inn í hring af feitum, sveittum, ógeðslegum, þroskaheftum, bólugröfnum unglingsnördum í óða önn að spila Counter-Strike á tölvunum sínum, hrópandi hálfensk ókvæði til hvers annars og hlæjandi hriktandi barnshlátri; og inn í miðjum tölvuhringnum mun sitja Al Pacino, drekkandi Powerade, reykjandi vindil, étandi McDonalds og talandi dönsku meðann hann spilar CS af áfergju.

Það er helvíti, skal ég segja ykkur. Það er helvíti.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Það er svo skemmtilegt að blogga í tölvufræði. Eins og að reikna áfram í stærfræðibókinni í tíma - það kætir hvert geð.

Tölvufræði er opinberlega leiðinlegasta fag sem fundið hefur verið uppá. Ég hef fundið orðið 'Brûhinxa' fyrir kennarann... ég er ekki viss hvað það þýðir, en það er örugglega eitthvað lýsandi.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Þegar tveir dagar voru eftir til árshátíðar, var ekkert búið að klippa af árshátíðarsjónvarpinu og u.þ.b. þrjár mínútur komnar af efni fyrir árshátíðarmyndina, sem fellur hvort tveggja á mig í stöðu minni sem myndbandsnefnd MR. Nú, á tvemur dögum tökum við upp fáránlegt magn af efni, og loksins á kvöldi þriðjudags fæ ég spólur sem ég þurfti á að halda frá framtíðinni við gerð árshátíðarsjónvarpsins. Ég hringi í klipparann og hann hótar mér að hætta við að klippa það, örfáum klukkutímum áður en því þarf að skila, en eftir gríðarlangar tiltölur yfir síma næ ég að sannfæra hann. Eftir að hafa týnt á framtíðarskrifstofunni nauðsynlegu millistykki þurfti ég að eltast við það uppí Háskólabíó hvaðan ég sníkti lykla af Inspectori Scholae, fara upp á skrifstofu, ná í stykkið, hendast aftur til klipparans sem býr útí rassgati, fara heim og fá vel útilátið taugaáfall.

Morguninn eftir þurfti ég að skrópa í þýsku til að hendast með spólurnar með sjónvarpinu upp í Skjá Einn, gefa þær heimskri afgreiðslukonu, koma mér heim, ræða við klipparann sem nú hatar mig útaf lífinu og fá hann til að klippa myndina líka, fara til hans að klippa með honum, þegar heim er komið klippa meira með samskiptum við hann yfir MSN, bíða alla nóttina eftir að fá sent rough-cut, senda aftur lista með breytingum, bíða eftir final cut, gefa nokkrar breytingar á því, og þá fara í rúm, sofa í örfáa tíma, fara í morgunpartí, sýna myndina í hálftómum sal, fara á La Primavera, éta með bekknum, fara í partí og á ball.

En mín helsta minning frá öllu þessu ferli er örugglega að standa í fyrirparíi og horfa á bekkjarstöllur mínar fara yfirum í Singstar.

Ég elska bekkinn minn, það er ekkert grín.