þriðjudagur, september 27, 2011

Skyn og sturlun

Ég get ekki alveg ákveðið mig hvort það sem nú er í gangi í heimshagkerfinu sé rökrétt og skynsamlegt eða klikkun.

Á yfirborðinu er þetta greinilega markaðssturlun sem er í gangi. Markaðspanikk þykir mér varla nógu sterkt orð. Fjölmiðlar reyna að skýra þetta með ýmsum mishlægilegum aðferðum, en það er mikilvægt að átta sig á því að þetta eru eftiráskýringar. Markaðurinn er í panikki út af því að markaðurinn er í panikki. Grikkland kemur málinu ekkert við, skuldir ríkja, sem eru nákvæmlega eins eða minni en 2007, koma málinu ekkert við, skuldaþak Bandaríkjanna kemur málinu ekkert við, meira að segja bankarnir per se koma málinu ekkert við (öfugt við kreddukenndar fullyrðingar sumra þá hafa þeir gríðarmiklu að tapa á þessu). Það er mýtan um hinn skynsama, kerfisbundna markað sem fær fjölmiðla til að leita að þess konar skýringum í raunheiminum, sem er vonlaust. Og nokkrir nýta sér þetta ástand í enn ömurlegri tilgangi: til að krefjast einhverra pólítískra breytinga sér í hag; nýta sér markaðinn eins og handrukkara eða fjárkúgara. Markaðssturlun er hinsvegar essentíal partur af kapítalismanum og það sem nú er að gerast á ekki að koma neinum á óvart, enda ekkert nýtt.

Markaðurinn gæti farið í klessu núna á næstu dögum eða mánuðum, eða alveg jafn líklega lafir hann áfram. Mögulega geta aðgerðir stjórnvalda haft áhrif á þetta. En þessi þjónusta og þessar buktanir fyrir markaðnum, eins og hann muni hugleiða alvarlega stöðu sína í ljósi stærðar bjargarsjóða Evrópusambandsins og relatívrar skuldaáhættu miðfranskra banka, og jafnvel ákveða að breyta til betri vegar sinni órökréttu hegðun, eru innantómar. Markaðurinn er ekki rykfallinn hagfræðingur í skrifstofu og honum er andskotans sama; þessir hlutir snerta hann ekki neitt. Markaðurinn fer í panikk af býsna skýrum ástæðum. Það er enginn munur á framleiðslugetu landa (sem er það sem peningar eru raunverulega gerðir úr) frá árinu 2007 til ársins 2011, en braskarar vita samt vel að markaðurinn er skynlaus og líklegur til að panikkera. Sá sem síðan panikkerar fyrstur bjargar mestu fé; því er gífurlegur hvati til að panikkera, en fátt sem letur mann frá því. Þetta panikk er því skynsamt í hinum mjög svo þrönga hugarheimi braskaranna, en þó sturlun í víðara samhengi, því afleiðingarnar (fall lífsgæða út um allan heim) eru ekki í nokkru einasta samhengi við orsökina. Þetta er eins og að lesa stjörnuspekiblogg og fara svo út og myrða forsetann.

Þó er hægt að setja þetta upp sem skynsemi á einn annan hátt: það sem er raunverulega að riða til falls er þetta lánahagkerfi, langt fyrir ofan raunhagkerfið sem við flest hrærumst í, og einkenni þessa lánahagkerfis er (og þetta hvorki er né hefur verið leyndarmál, ólíkt því sem sumir halda fram) að það er ekki raunverulegt. Augljóslega er markaðurinn því of hátt skráður - í heilbrigðu hagkerfi væri yfirleitt engin kauphöll og það væri ekkert Goldman Sachs og svo lengi sem þetta tvennt stendur þá er það á sama tíma um það bil að falla. Þess vegna er það bara skynsemi að Dow Jones-vísitalan liggi beinustu leið niður á við; eða allavega meiri skynsemi en ef hún lægi upp á við.

Svo hér get ég ekki ákveðið mig. Einn partur af mér segir að heimurinn öðlist betri tengingu við raunveruleikann með hverri hlutabréfalækkun; falli þau því sem mest. Hinn segir að þetta muni hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir lífsskilyrði gríðarlega margs fólks, því þetta ímyndaða lánahagkerfi hefur náð að tengja sig sinni raunverulegu hliðstæðu og sýgur þaðan raunveruleg lífsgæði ofan í svartholið. Þá svarar hinn parturinn, það er bara fórn sem er þess virði að færa, því þetta þarf allt að hverfa til að klippa á þessi óheilbrigðu tengsl raunveruleikans og hinnar sjúku hugsmíðar braskaranna; fyrr gerist það ekki. Þá svarar hinn að nú hljómi ég eins og íslenskur húsnæðislánaróttæklingur sem er sama um alla aðra en sjálfan sig. Þá öskrar móðgaði róttæklingsparturinn kaldhæðið í falsettu, er enginn að hugsa um börnin!? Og ég veit loks ekki hvað ég á að hugsa.

laugardagur, ágúst 13, 2011

Litlu neytendurnir í London

Nú hef ég fylgst með fréttunum frá London undanfarið. Svona óeirðir eru nú svosem ekkert nýtt og þetta fylgir að ýmsu leiti nákvæmlega uppskriftinni: lögregluórétti sem kveikir í kraumandi óánægju undir niðri meðal lægri stétta. En það merkilega er að hér er eitthvað sem brýtur sig frá munstrinu og gerir það miklu erfiðara að beina fingrum eða krefjast einhverra breytinga til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig. Í óeirðunum í Los Angeles (eftir því sem ég les) eða Brixton eða hvar sem þær nú urðu finnst manni einhvernveginn orsökin í einhverjum takti við afleiðingarnar. Það virðist hinsvegar blasa við nú að svo er ekki. 100 manns í Tottenham safnast friðsamlega fyrir framan lögreglustöð og biðja um svör - klukkutíma síðar er hverfið farið að brenna, daginn eftir helmingur London, og loks er England allt orðið að hættusvæði. Hvernig í ósköpunum gat eitt leitt af öðru?

Vinstrimenn hafa hingað til getað tekið svona óeirðir og hampað grunnmálstað þeirra - baráttu gegn lögregluóréttinu, rasismanum, fátæktinni. Þeir hafa hingað til haft umboð til að tala fyrir hönd þeirra sem verða fyrir ríkisofbeldi. En það sérstaka í dag er, held ég, að þetta hefur ekkert með vinstri að gera, og það er ansi magnað að fylgjast með því hve ráðvilltir hinir hefðbundu talsmenn hinna vinnandi stéttra eru - þeir virðast varla koma upp einu skynsömu orði, allt er í getgátum og litað af maybe og perhaps.

Því það sem óeirðirnar snúast um er ofar öllu öðru eignanám. Og ekki á framleiðslutækjunum, ekki á brauði eða smjöri alþýðunnar, heldur strigaskóm og flatskjám - heldur á því sem er auglýst í sjónvarpinu sem nauðsynjavörur okkar tíma. Marx virðist ekki hafa svar við þessu. Þetta er einfaldlega ekki vinstrihegðun, heldur einmitt andstæðan.

Það er nefnilega grunnspeki innan kapítalismans að neytendur fylgja hagsmunum sínum og þeim eingöngu. Menn fylgja lögum ekki því þannig farnast samfélaginu best - samfélagið er hvort sem er ekki til, eins og Thatcher sagði - heldur því annars eru meiri líkur en minni að það myndi fá refsingu sem gerði það að útlögum, hefði neikvæð áhrif á lífsgæði þess frekar en jákvæð. Þegar lögleysi brýst út, þegar samfélagssáttmálinn brestur, þá skyndilega hafa lögbrot engar afleiðingar lengur - eða allavega verða afleiðingar miklu ólíklegri. Þegar allir gera það er það ekki glæpur.

Það er því fullkomlega röklegur kapítalismi að brjótast inn í Argos og ræna sér flatskjá ef mann langar í flatskjá, frekar en að kaupa hann - svo lengi sem afleiðingarnar eru ekki líklegar til að verða neikvæðar fyrir mann sjálfan. Áhrifin á samfélagið skipta engu. Og þegar þú hefur náð þér í þinn flatskjá þá skiptir heldur engu hvort þú brennir búðina til grunna - það dregur ekki úr þínum lífsgæðum; þú átt þegar allt sem þú vilt úr þessari tilteknu verslun. Og það er gaman að fá útrás - þess vegna erum við háð tölvuleikjum þar sem maður fær að gera nákvæmlega þetta.

Ég held að það sé augljóst að fátækt fólk í London, eða a.m.k. fátæk ungmenni, upplifir ekki lengur neina einustu tengingu við sósíalisma eða vinstri eða hugmyndir um samstöðu hinna vinnandi stétta. Áróður hægrimanna, í gegn um fjölmiðla og auglýsingar, er hinsvegar alltumlykjandi og ég sé ekki betur en að þessi hegðun á götum London sé rökrétt afleiðing af honum. Ég man að eftir að skjálftinn varð í Japan undruðust vestrænir miðlar það mjög hve lítið bar á eignanámi - þeir sáu það greinilega, réttilega, að ef þetta gerðist á Vesturlöndum yrðu fáar búðir eftir standandi. En kannski hefur hugmyndafræðilega þróunin þar orðið önnur og betri hvað varðar upplifun fólks á því að tilheyra samfélagi.

föstudagur, júní 17, 2011

Um orð

Vandamálið er yfirleitt orð, og orðið, eins og allir vita og hafa heyrt allt of oft, er “kreppa”.

Þetta orð er þrungið merkingu. Eitthvað við hljóðfræðina í því og undirliggjandi líkinguna kallar upp mjög sterka mynd af erfiðleikum og hættulegu ástandi. Og allra helst kallaði það áður upp mynd af þessu: Link

Þar til árið 2008 táknaði orðið “kreppa” þetta og aðeins þetta; Kreppuna miklu í Bandaríkjunum, sem hratt fasismanum af stað í Evrópu, orsakaði yfir 30% atvinnuleysi í heimalandinu, kallaði þar á mesta byltingarástand sem orðið hefur í nútímasögu landsins, sem var svo bælt harkalega niður: súpubiðraðir, fjöldamorð lögreglu, kommúnismi, fasismi – þarna liggja raunar orsakirnar á bak við allt okkar núverandi sögulega ástand. Þetta er einn merkasti viðburður mannkynssögunnar.

En eftir 2008 breytti orðið um merkingu. Það fór að þýða þetta.

Hér hefur eitthvað mjög skrýtið gerst sem þarf nauðsynlega að útskýra. Þetta er ekki eðlileg merkingarbreyting orðs. Ísland í dag líkist ekki á neinn hátt – ekki á neinn mögulegan hátt – Bandaríkjunum á kreppuárunum. Líkingin er fábjánaleg. En hún er algild í okkar tungumáli og ég hef stundum á tilfinningunni að íslenska “kreppan” sé að taka bandarísku “kreppuna” yfir – köllunin hafi varanlega færst eftir þrjú ár af stanslausri hömrun: kreppa! efnahagslegar hörmungar! fátækt! örbirgð!

Enn er það þannig, eftir því sem ég fæ best séð, að grunnatburðir íslenska efnahagshrunsins eru rifjaðir upp a.m.k. einu sinni í hverju einasta dagblaði sem komið hefur út síðan 2008. Einhver lesendagrein mun áreiðanlega byrja á einhverju eins og “...árið 2008 hrundu íslensku bankarnir til grunna eftir stanslausa græðgisvæðingu nýfrjálshyggjunnar....” eða “...síðan þrír stærstu bankar þjóðarinnar lögðust á hliðina vegna spillingar hinna svokölluðu útrásarvíkinga”... til hvers er þetta skrifað? Af hverju þarf enn ein greinin að rifja þetta upp sem allir vita?

Íslendingar hafa nefnilega allt frá því að hrunið margumtalaða varð – og það er ekki orð sem hefur neina ýkta merkingu, skal taka fram; hér varð vissulega hrun – tekið sig til við söguskrifun okkar tíma eftir að þráðurinn flæktist svo ógurlega árið 2008. Nú skal byrjað á Stunde Null, og það er eiginlega algengara að sjá tímatalið “eftir hrun – fyrir hrun” í íslensku máli en hliðstæðuna Krists.

Og á eftir þessari fyrstu hömrun á atburðunum sem leiddu okkur hingað, þá fylgir yfirleitt einhverskonar lýsing á örbirgðinni og jafnframt er tekist á loft í beina átt frá sannleikanum. Hér eru nefnilega læknar horfnir, matarbiðraðir langar, lánastofnanir ósanngjarnar, ríkisstjórnin kommúnísk (en þó þræll auðvaldsins), traustið ekkert og lífið hræðilegt; í stuttu máli þá er hér allt eins og í Bandaríkjunum 1930.

Ótrúlegustu hópar hafa sameinast um að sjá hlutina í þessu ljósi. Hægrimenn sjá hér örbirgð af völdum kommúnistastjórnarinnar, vinstrimenn örbirgð af völdum kapítalistastjórnarinnar, þjóðernissinnar örbirgð af völdum alþjóðasinnuðu rýtingsstungustjórnarinnar, róttæklingar örbirgð af völdum hins alþjóðlega kapítals, stuðningsmenn Geirs Haarde örbirgð af völdum sviptivinda hins alþjóðlega markaðar og svo má lengi telja. Það eru allir pólítískir aktívistar sammála um aðeins eitt: hér er kreppa. Alvöru kreppa!

Nú vil ég fá að fullyrða eitt og rökstyðja mig einfaldlega með því að biðja fólk um að líta út um gluggann sinn. Hér er engin kreppa. Hér keyra allir um á bíl, sem er munaður. Hér kaupir fólk enn rafmagnstæki eins og enginn sé morgundagurinn, hér er sérstök búð sem selur ekkert nema iPhone, hér eru, les ég, fjórtán hundruð milljarðar króna sem liggja inn á bankainnistæðum Íslendinga – misskiptir milljarðar, vissulega, en fáránleg upphæð engu að síður - hér er, for fokks seik, gígantísk nýreist glerhöll fyrir symfóníuna af öllum hljómsveitum – og þrír risabankar. Alveg eins og áður.

Hér er kannski eitthvað sem má kalla góðærisskort. En ei meir.

Vissulega hefur hér hinsvegar eitthvað breyst frá því fyrir 2008. En hér er samt ekki neinskonar örbirgð. Íslendingar rændu heiminn en björguðu sjálfum sér (óvart), og í kjölfarið kom eitt stærsta pólítíska sjokk í íslenskri stjórnmálasögu – Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur átt þetta land með húð og hári í svo að segja fimmtíu ár, datt úr stjórn. Svona hlutir hafa áhrif. Þegar bankahrunssjokkið reið yfir þá hélt ég og héldu allir að einmitt, nú kæmi kreppa eins og bandaríska kreppan. Og það staðfestu hagfræðingar: hér er kreppa, sögðu þeir. Og allir bjuggust við fasisma, kommúnisma, súpuröðum, lögregluofbeldi, bjuggu sig undir að brenna peningaseðla sér til hita og hamstra niðursuðudósir, þetta er allt vel þekkt. Því hér myndi verða kreppa.

En ekkert þannig gerðist. Það kemur nefnilega í ljós að orðið “kreppa” hefur þriðju merkinguna í heimi hagfræðinnar. Nefnilega, án nokkurrar sérstakrar sögulegrar skírskotunar, ákveðið fall hagvaxtar og kaupmáttar yfir ákveðna prósentu um ákveðinn tíma. Þetta uppfyllti Ísland eftir 2008 sannarlega. En fræðiskilgreiningin er annað en skilgreining fólks, sem misskildi hvað var í vændum og það herfilega - hver sá sem hamstraði Ora-grænar baunir í dós var að gera hlægileg mistök.

Þetta hinsvegar kemur hvergi fram ef maður les blöðin sem komið hafa út seinustu þrjú árin. Þvert á móti virðist sá maður hafa verið stórskynsamur; og þar liggur vandinn. Þetta sjokk eftir árið 2008 virðist hafa haft þau áhrif á gífurlega marga málsmetandi menn að þeir hafa misst allt raunveruleikaskyn og einhvern veginn náð að telja sér trú um að þeir búi við örbirgð, lokaðir inni í einbýlishúsinu sínu með áfasta bílskúrnum og einkabílum (í fleirtölu!) fjölskyldunnar þar fyrir innan. Einhvern veginn telja þeir að fyrst þeir þurfi að borga af þessum eigum til banka þá séu þeir fátækir og jafnvel liður í einhvers konar verkalýðsbaráttu (sem í þeirra tilfelli kallast hinsvegar eitthvað nútímalegra, eins og “baráttu fyrir leiðréttingu” eða “fjölskyldubyltingu” – en orðið bylting hefur einnig misst alla merkingu; engu þarf þessa dagana að vera bylt til að það megi kallast bylting. Raunar þýðir bylting oftast ekkert annað en “stór mótmæli”.)

Einhver vitund er þó um fáránleika þessa. Í mínum eigin vinahring, sem er að sjálfsögðu gífurlega takmarmaður og ekki neinskonar þverskurður af neinu nema ef ske kynni vera ungum vinstrisinnuðum háskólanemum, er orðið “kreppa” löngu orðið að brandara. “Ætlarðu að fá þér [X]? Veistu ekki að það er kreppa!?” eða eitthvað í þeim dúr. Orðið er orðið fyndið í sjálfu sér; það er svo innilega mikil fjarstæða og jafnframt er það að benda á það tabú, sem er þráðbein uppskrift að húmor. Og kreppuklæmingar vita vel af þessu, sem maður sér vel á hinum stöðugt örvæntingarfyllri dæmum sem þeir taka til að réttlæta þetta fixasjón sitt. Eitt af því sem hefur verið mest áberandi eru hinar íslensku matarbiðraðir, en súpuraðirnar í Bandaríkjunum eru einmitt eitt helsta tákn Kreppunnar miklu. Hér eru nefnilega vissulega slíkar raðir; tvær talsins, meira að segja, og eru víst viðkomandi matargjafar í samkeppni um fólkið. Sjáið, segja málsmetandi menn: kreppa í sinni tærustu mynd.

Vissulega. En eins og Ármann Jakobsson benti einna fyrstur á, þá eru þessar biðraðir ekki nýjar af nálinni. Þær hófust ekki árið 2008, og þótt samkvæmt heimildum þær hafi eitthvað stækkað síðan þá, hafa þær ekki stökkbreyst á neinn hátt. Málið er að fyrir árið 2008 voru Íslendingar þeirrar skoðunar að það væri engin kreppa, og þessa sjónarmiðs til stuðnings var aldrei á þessar matarbiðraðir minnst, að einu atviki undanskildu: þegar Davíð Oddsson lýsti fyrirlitningu sinni á fólki sem þá þáði mat í hans kreppulausu Reykjavíkurborg.

Eftir 2008, hinsvegar, breyttist sjálfsmynd Íslendinga, og umfjallanir um þessar biðraðir sprungu út í íslenskum miðlum. Og þetta er, held ég, kjarni málsins. Ísland hefur einkennst og einkennist enn af þessum afar hvimleiða hlut sem kallast ímyndarsköpun í þar til gerðum fræðum. Fyrir 2008 var sú ímynd af hinni fullkomnu frjálshyggjutilraun. Þar var engin fátækt og ekkert atvinnuleysi, og ef merki um annað hvort kom upp var það einhvern veginn þaggað niður. Þá ríkti sátt um Sjálfstæðisflokkinn og gagnrýni á ríkisstjórnina var alltaf sýnd sem eitthvað dálítið hlægilegt fyrirbæri; viðkomandi væru ekki alveg með á nótunum. Þeim var bara mætt með dálítið vorkennandi glotti sem flestir ættu að kannast við af forhrunsvaldhöfum og gætu mögulega hafa tekið eftir að hefur ekki svo mikið sem einu sinni sést á eftirhrunshliðstæðunum. En þar liggur hundurinn grafinn. Sjokkið árið 2008 batt ljótan enda á þessa ímynd; raunar var það hún sem gaf frá sér stærsta skellinn.

Þá myndaðist þessi stutti rammi til breytinga, og ólíkt því sem sumir kreppuklæmingar halda fram, þá breyttist gífurmargt. Hér í fyrsta lagi fóru hinir áður goðskipuðu stjórnendur þjóðarinnar frá og aðrir tóku við. Þá hvarf hugmyndin um þjóðina og ríkið sem standa saman og eftir varð hugmyndin um hina gagnrýnu, hetjulegu þjóð sem stendur saman gegn ríkinu og peningaöflunum. Skyndilega varð gagnrýni á ríkisstjórnina ekki lengur hjákátleg heldur hetjuleg, og það sérstaklega eftir valdaskiptin sjálf – í dag er það hjákátlegt að verja sitjandi stjórn, og ennfremur hefur orðið “ríkisstjórn” fengið á sig ákveðinn merkingarblæ, jafnvel fyrir mig hikandi stuðningsmanninn, sem drýpur af ógeði og klígju. Hún fær enda yfirleitt á sig einkunn, ábendingarfornafnið “þessi” – “þessi ríkisstjórn”. Tilgangurinn í því er að gera hana öðruvísi en allar aðrar stjórnir – hún er sú ógeðslegasta í sögunni, þessi þarna sérstaka og eina. Svona getur eitt orð mörgu breytt.

Loksins byggðist upp hin nýja sjálfsmynd enn frekar með hetjuskap þjóðarinnar gegn erlendum peningaöflum, eða raunar bara útlöndum almennt. Það helst í málefnum Evrópusambandsins og svo ákveðins máls sem ég ætla ekki að nefna á nafn vegna klígju og markar einn ömurlegasta punkt íslenskrar sögu; það byrjar á I. Þetta sameinast svo í ótrúlegra rætinni þjóðernishyggju sem er orðin svo hryllileg, svo antí-intellektúel og svo prótó-fasísk að ég á það til að verða skíthræddur um framtíð minnihlutahópa á þessu landi þegar ég les verstu miðlana.

Síðan er þetta allt hnýtt saman með ákveðnum einbeittum brotavilja til þess að blekkja útlendingana alla aftur upp á nýtt. Nú skal landið kynnt erlendis sem byltingarþjóð gegn peningaöflunum, Spánverjum og fleirum til fyrirmyndar, og það samtímis og allar tilraunir til að draga þau sömu öfl til ábyrgðar á Íslandi sjálfu eru talaðar niður. Ég hef enn ekki séð Sérstökum saksóknara hrósað í íslensku riti. Geir Haarde er að verða að þjóðhetju. I-málið endaði með sigri þeirra sem bera á því ábyrgð. Og wikileaks-skjal, sem íslenskir fjölmiðlar hafa nær gjörsamlega þagað í hel, sýnir hvert plan Sjálfstæðismanna er og hversu vel það gengur – hann gæti tekið völdin, segir Bjarni Benediktsson við Bandaríska sendiráðið, en hann vill það ekki. Hann ætlar að leyfa “þessari ríkisstjórn” að sitja og taka hitann af þessu furðuástandi allt fram að næstu kosningum – og svo ætlar hann að rústa henni.

Það er afskaplega skýrt í dag að það mun takast hjá honum. Þarna er á ferð næsti forsætisráðherra þessa lands.

Ég held að ég neyðist til að enda á framtíðarspá sem mun örugglega verða gjörsamlega úrelt og asnaleg eftir tvö ár, en hvað um það: eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tekur völdin aftur mun þessi gagnrýnisandi sem núsitjandi stjórnvöld hafa þurft að lenda svo illilega fyrir barðinu á koðna hægt og hægt niður. Ég held að stór partur af kreppuupplifun ýmsra byggist nefnilega á þeim óvenjulegheitum að hinn hefðbundni valdaflokkur sé ekki við völd, og að þeir muni missa alla löngun til gagnrýni þegar það breytist. Gagnrýni mun aftur verða að einhverskonar hobbýi svokallaðra atvinnumótmælenda sem á að hlæja að. Og þessir sömu “atvinnumótmælendur” eru einnig að hvetja til þessa, með því að ýta gagnrýnislaust undir þessa fáránlegu ímynd af Íslandi á Spáni og í gervallri Evrópu, með því að beint eða óbeint taka undir með Davíð Odssyni og sitjandi forseta og öllum hinum gömlu valdamönnunum sem eru að byggja hinn íslenska lygamúr upp á nýtt.

Ég hef það er að segja illan grun um að “kreppan” muni hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar Sjálfstæðismenn komast aftur til valda, og það muni skila Íslandi, hægrisinnaðri en nokkru sinni en þó tandurhreinu og meyjarhvítu hvað ímynd landsins varðar í faðm heimsins á ný. Og þá mun þetta allt saman byrja aftur.

Ég held að vinstrimenn af öllum toga verði að reyna að sameinast um eitt og aðeins eitt: að segja hinn sára sannleika um þetta land. Að hér eru engir byltingarmenn. Hér varð engin bylting. Hér er eitthvað mikið að. Hér er alls enga fyrirmynd að finna fyrir einn né neinn.

Og loks að hér er nákvæmlega engin kreppa.

sunnudagur, maí 08, 2011

Brot úr Saffó - úr ritgerð

Ég segi það satt, ég vildi að ég væri dáin.

Hún grét þegar hún fór frá mér.

Hún sagði mér margt og meðal annars þetta:

Ó, hvað við þurfum að þola!

Saffó, trúðu mér, sjálf vil ég ekkert fara.”

Ég svaraði henni þessu:

Vertu sæl og farðu af stað,

og hugsaðu til mín, því þú veist hvað við vorum hrifnar af þér.

Og ef ekki, þá skal ég minna þig á...

... og nutum okkar.

Því þú krýndir þig mörgum krönsum

úr fjólum og rósum og ... af sama stað ...

...fyrir mig,

og þú lagðir um mjúkan hálsinn

marga ofna sveiga

alla úr blómum,

og þú smurðir þig

með mikilli ... ríkri olíu

og konunglegri ... [myrru],

og á mjúku rúminu ...

mjúku ...

svalaðirðu þrá þinni...

og ekki finnst nokkur ... né nokkuð

hof ...

sem við heimsóttum ekki...

eða laut ... dans

...”

"Hér er mjög auðvelt að sjá kynferðislegt samhengi: Stúlkan farin og Saffó rifjar upp þær stundir sem þær áttu saman og hvernig þær nutu sín. Lýsingin á blómunum og krönsunum er flæðandi og stigvaxandi, og kvæðið virðist vinna sér leið niður á við á líkama hinnar horfnu stúlku: hún setur krans um höfuð sér, blómsveig um hálsinn, smyr sig með olíu og svalar loks þrá sinni á mjúku rúmi..."

föstudagur, maí 06, 2011

Mannhatur, beint og óbeint

[Þetta er reiðibréf skrifað og sent á frettir@ruv.is og pall.magnusson@ruv.is rétt í þessu. Yfirleitt þegar ég skrifa eitthvað í reiði þá sé ég eftir því síðar; sjáum til hvort svo verði nú. Í það minnsta hvet ég fólk til að gera það sama.]

Sælt veri fólkið.

Ég er langþreyttur til að trana mér fram á þennan hátt en stundum tekur steininn úr. Frétt ykkar "Hælisleitandi olli sprengihættu" á ruv.is, slóð: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-olli-sprengihaettu, er ógeðsleg, og fréttaritendur virðast of saklausir til að átta sig á því af hverju. Á þetta verður að benda og menn verða að vona innilega og með öllu hjarta að viðkomendur sjái að sér og öðlist aðeins skýrari sýn á heiminn fyrir vikið.

Hér er sumsé gapandi bil milli þess sem gerðist og hvernig atburðinum er lýst.

Það sem gerðist: Hælisleitandi sér sig knúinn, í vonlausri baráttu sinni við íslenskt skrifræði, í vonleysi sínu yfir því að fá ekki, aldrei, neinstaðar að lifa með virðingu, hvorki í Íran né á Íslandi, til þess að myrða sjálfan sig á sársaukafyllsta hátt sem hægt er að ímynda sér. Þessi aðferð hefur ákveðið samhengi sem fréttaritari virðist ekki heldur átta sig á. Það var nefnilega einn sjálfsíkveikjumaður sem hratt af stað byltingunum í Túnis, Egyptalandi og Líbýu og hinum nú kraumandi óróa út um allan hinn arabíska heim. Einn sjálfsíkveikjumaður getur því valdið gífurlegum straumhvörfum í hugsun milljóna manna - og er þá ekki hægt að gefa sér að jafnvel, kannski og mögulega sé þarmeð hægt að sannfæra 300.000 manns í miðju Atlantshafi um að meðferð hennar á flóttamönnum og hælisleitendum sé hryllileg og eigi sér eina og aðeins eina hliðstæðu - meðferð heimsins, og Íslands, á landflótta gyðingum á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar?

Honum er svo rétt svo bjargað frá þessum hryllilegu örlögum, meðal annars af Rauða kross-fólki sem var annt um líf hans, lagði sig í hættu fyrir til að bjarga því og eru líklega einu Íslendingarnir sem nokkra sál virðast hafa fyrir þessum manni. Jafnvel réttilega.

Þetta er hin raunverulega saga. Hún er hræðileg og á að vekja fólk til djúprar, afar djúprar íhugunar um það hvort þetta samfélag sé í lagi og hvort það sé siðlegt að leyfa því að halda áfram óbreyttu eða óbyltu.

En!

Það sem fréttin snerist um:

Hælisleitandi - orð sem er húrrandi neikvætt gildishlaðið - gekk af göflunum, og hefði getað - ef ekki hefðu komið til vopnaðir sérveitarmenn - skaðað starfsmenn Rauða krossins!

Það er að segja Íslendinga, svo ég fylli það inn sem gefið er í skyn. Já, þeir einu sem skipta máli. "Mikil sprengihætta skapaðist, og bensínið slettist á starfsmenn Rauða krossins." Þeir voru sumsé í hættu - ekki flóttamaðurinn. Þeim var bjargað, ekki flóttamanninum: enginn meiddist, í merkingunni enginn Íslendingur, í merkingunni enginn sem skiptir máli.

Nú ætla ég ekki að ásaka þann sem skrifaði þessa frétt um að þessar séu hans skoðanir viljandi og vitandi vits. Svo er án vafa ekki. En þetta er andi orðanna og þetta er andi Íslands og Íslendinga í samskiptum sínum við flóttamenn; hvernig kemur þetta Íslendingum við? Allt er gert til að forðast það að gefa manninum eigið líf og gildi, að viðurkenna að hann hafi eitthvað að segja eða skipti neinu máli að öðru leiti en því hvernig þetta hatursfulla þjóðfélag getur grætt á eða að minnsta kosti séð sem minnst af honum. Og það er þaðan sem þessi frétt kemur.

Ég vil og bið að fréttaritendur RÚV átti sig á því - og þetta á ekki að vera stór bón, en er það greinilega - að þetta er manneskja sem hefur jöfn réttindi og jafna hugsun og allir aðrir menn. Hann gerir þetta ekki af ástæðulausu eða af gamni sínu. Allt sem hann er að sækjast eftir er að fólk komi fram við hann eins og hann skipti máli. En ekki einu sinni eftir þetta, þegar hann hefur sýnt sig tilbúinn til að drepa sig til að koma þessum skilaboðum sínum á framfæri, er RÚV tilbúið að láta honum þá aumu bón eftir.

Í von um að sem mest af þessu sé oftúlkun og hársærni,

-Þorsteinn Vilhjálmsson,
Neshaga 12, 107 RVK

fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Um hreinan og beinan vilja til þess að gera fólk fátækt

PIGS er nú orðið mjög vinsælt orð yfir þær þjóðir sem herrar Evrópu, lesist stjórnendur Bretlands, Frakklands og Þýskalands, hafa löngum fyrirlitið og fyrirlíta, allgreinilega, enn. Portúgal, Írland, Grikkland og Spánn - hörundsdökkar þjóðir álfunnar eða þá hinir langhötuðu Írar.

Fjölmiðlar fundu upp á þessu hugtaki fyrir nokkru síðan og hafa allar götur síðan haldið uppi megnum áróðri gegn efnahag þessara þjóða. Og eins og frægt er, þá nægir að tala um að þjóð sé á leiðinni á hausinn og spádómurinn, ef nógu margir heyra hann, rætist af sjálfu sér - The Economist tekst þannig að hafa nær aldrei rangt fyrir sér. Og nú skulu svínin falla.

Írland er nýfallið. Nú er rekinn harðvítugur áróður gegn hinum. Og meira að segja er fólk farið að taka Belgíu inn líka - eins og að það bara verði að vera alltaf fjórar þjóðir í einu!

Þetta gæti hugsanlega kallast einhverskonar aðhald eða hlutlaus greining. Það er það ekki. Þetta er rasískur, lítilsvirðandi, ógeðslegur áróður sem hefur eitt og aðeins eitt að markmiði: að gera þjóðir fátækar. Þetta er glæpur, hryllilegur glæpur. The impoverishment of nations. Og gert með fullum, glæpsamlegum vilja þessara siðlausu, sálarlausu manna sem leika sér að saklausum lífum og fá borgað fyrir það.

Mér er þó nokkuð niðri fyrir þegar að þessu fólki kemur.

mánudagur, nóvember 08, 2010

Um femínisma

[Ég hef snurfusað þessa grein til fyrir birtingu hennar á kistunni.is, hún hefur því breyst lítillega frá upprunalegu formi.]

Ég held að flestir kannist við þetta fullkomna og algjöra sambandsleysi sem stundum kemur upp þegar manns eigin skoðanir hitta fyrir algjörlega andstæðar, fullkomlega viðteknar skoðanir hjá öðrum. Ef maður hitti manneskju sem í fullri alvöru tryði á flata jörð, og myndi bara brosa og hrista höfuðið þegar maður reyndi að tala um fyrir henni; á slíkum stundum kemur upp ákveðið vonleysi. Það er ekki hægt að eiga samskipti yfir þessa gapandi gjá: hér eru tvær manneskjur sem hreinlega geta ekki skilið hvor aðra.

Dæmið um flata jörð er hinsvegar allt of augljóst. Því það er eitt svona fenómenon í gangi á Íslandi sem er, held ég að sé hreinlega staðfest, til staðar hjá gífurstórum hluta þjóðarinnar, og já, er þar fullkomlega viðtekið og talið augljóst: það er leynt eða ljóst hatur á femínisma og hugmyndinni um jöfnuð karla og kvenna. Eða bara einfaldlega kvenhatur, eins og ég vildi satt að segja kalla það.

Nú hefur t.d. verið stofnuð síða "fyrir konur", sem kallast bleikt.is. Hún fjallar um "samskipti kynjanna" og "íslenska deitmenningu"; þá helst hvað er að henni. Í afar furðulegu viðtali í Fréttablaðinu við stofnanda síðunnar kom fram að hún hefur reyndar aldrei búið í útlöndum og hefur nákvæmlega engan raunverulegan samanburð: þetta skal hinsvegar ekki stoppa neitt. Því einn helsti máttarstólpi þessarar síðu og þessarar gervallrar kvenhatandi undirmenningar er nefnilega sá að það nægi alveg að horfa á Sex & The City og amerísk sitcom til að verða alvitur um einkenni kynjanna. Já, einkenni kynjanna, ekki sum, heldur öll; karlmenn fíla þetta í fari kvenna en hata hitt. Allir karlmenn! Og öfugt! Og hverjar eru þær staðalímyndir sem þarna er sprautað framan í lesendur eins og moneyshot úr aldraðri klámmynd? Jú, tvær amerískar klisjur, sem eru furðulega tvískiptar:

Í fyrsta lagi þá birtist konan sem dulúðug, ung, fögur, gjörsamlega án áhuga á kynlífi, fjarlæg og ábyrgðarfull; á móti kemur að maðurinn hennar er heimskur, einfaldur, kynóður og hugsar helst um (amerískan eða evrópskan) fótbolta. Þetta er ímynd 1 og sést hvað helst í gamanþáttum. Hún háir mikla baráttu við ímynd 2; þá eru konur þvert á móti frjálsar, einhleypar, orðheppnar, en þó fáránlega grunnhyggnar og hugsa ekki um neitt annað en að finna sér karlmann til að giftast og fá peninga frá; þess á milli sefur hún hjá fullt af nærfatamódelum sem eru nær fullkomlega lausir við persónuleika, eins og allir karlmenn virðast vera í þeim heimi. Þessu er stillt upp sem einhvers konar leik, skemmtilegum og leyfilegum (innan marka), en þó ber að muna: þetta er allt uppbygging fyrir kristilega giftingu; og þá giftingu í lagi! Hvítur meyjarkjóllinn, yfirborðshyggjan og bara öll hin viðurstyggilega erkitýpíska symbólógía kvenkúgunar sem brúðkaupið er; þetta er allt uppfyllt í minnstu smáatriðum. Þetta er Sex & The City klisjan.

Og hvort tveggja er gubbandi fáránlegt. Fyrir mig sjálfan og flesta sem ég þekki þá eru hreinlega engin dæmi um að manneskjur hagi sér líkt þessu, og sem betur fer. En veruleikinn kann að virðast annar hjá svo fáránlega, fáránlega mörgum. Síður eins og bleikt.is og nokkur gífurvinsæl blogg, flest á þeim subbulega klámmiðli pressan.is, byggja einfaldlega á því að halda fram ímynd af heiminum sem er einhverskonar blanda af þessum staðalímyndum að ofan. Og það versta: þetta er allt sett fram með þessum sérstaka tóni, sem er erfitt að lýsa í rituðu orði en allir kannast við, þegar maður fleygir einhverju fram sem maður veit að er ekki rétt en gerir samt tilkall til réttmætingar í gegn um það að vera orðið viðtekin klisja. Fólk notar þetta þegar það segir svertingjabrandara, en meinar það ekki, því það er bara að grínast, kommon! Eða yfirleitt þegar það fleygir fram einhverri klisjukenndri setningu til að taka samræður af alvarlega stiginu og á annað yfirborðskenndara; eins og í umræðu um stjórnmál, þá er sagt: æj, þið vitið að þetta skiptir engu máli, það er sami rassinn undir þeim öllum; og hugsun þarmeð lýkur.

Á sama hátt er fullyrt: æj, þið vitið að karlar og konur geta ekki verið vinir (ég er ekki að skálda neitt af þessu, þetta er allt á netinu.) Það er fullyrt, konur vilja bara frekar hjúkra en skapa, konur (eingöngu) vilja alltaf verða fallegri og grennri, karlar vilja bara fá það sjálfir og ekki gefa neitt af sér í kynlífi; dæmin eru endalaus og þið kannist við þau öll. Þessar hörmulegu klisjur eru út um allt og við heyrum þær allan daginn. Þær gera tilkall til þessa ímyndaða heims amerísku sjónvarpsþáttanna og gera stórfurðulegar reglur hans að okkar eigin. Og bæði kynin taka þessar klisjur upp; þetta vandamál einskorðast lítið við fyrrnefndar vefsíður. Frá karlmönnum hef ég persónulega heyrt: að konur séu heimskari en karlar, að konur skilji ekki rök og hugsi eðlislægt öðruvísi, að karlar, eins og að ofan, vilji bara fá'ða, að inni í hverri konu sé lítil lesbía (þetta virkar hinsvegar alls ekki á hinn veginn), að femínistar séu eingöngu ljótar, kynlausar beljur, þær sömu beljur hati karlmenn og að það sjáist á því að þeim sé sama um það þegar hallar á réttindi karlmanna (sem er frámunalegt rugl; það hallar nákvæmlega hvergi á réttindi karlmanna og mun að öllum líkindum aldrei gera.)

Þegar maður tekur þetta allt saman, hreinar og beinar vinsældir þessara klisja og þá fáránlegu umræðu sem er allstaðar í gangi um femínista, fer maður að fá áhyggjur af því að það sé í gangi reaksjón eða gagnbylting gegn kvenréttindum, og þegar út í það er farið, hugmyndinni um jafnrétti manna óháð þjóðerni, kynþætti og kynhneigð. Og þannig virkar nefnilega sagan, segja margir: þegar einhver framþróun verður mun hún alltaf mæta reaksjóni eða gagnbyltingu gegn breytingunum, upprunninni frá íhaldinu. Í þeirri baráttu, ef það fer að skerpast á henni, þarf maður að vera afskaplega viss um hvar maður stendur.

Ég segi því fyrir sjálfan mig að ég spýti á amerískar staðalímyndir um samskipti kynjanna og er argasti öfgafemínisti, trukkalessa, kynlaus belja og karlhatari ef það fylgir þar með, og býð ykkur vel að lifa.