miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Kvalir!

Ég er eilítið klofinn álits þetta nálægt brottflutningi mínum af landi. Í fyrsta lagi verður mér meira sama um íslensk stjórnmál með hverjum deginum og er farinn að átta mig á því að hlutir sem eru persónulegir standa alltaf framar hlutum sem eru ópersónulegir, sem er helsta einkenni stjórnmála og opinberrar umræðu.

Ég held satt að segja að ég sé ekki fáviti fyrir að þykja líðan vina minna merkilegri í heiminum en lyktir Icesave-málsins. Þeir sem eru ósammála eru ómenni og mega fokka sér.

Í öðru lagi finnst mér ég skyndilega vera að missa af ofboðslega miklu. Ég sá lýsingu á myndunum sem verða sýndar á RIFF og áttaði mig skyndilega á því að ég væri ekki að fara á þær með Ragnhildi eins og venjulega. Þetta var meira en lítið sjokk og eitt fyrsta skiptið sem raunveruleiki brottflutnings míns slær mig. Ég er seinn í þessu sem öðru.

Í þriðja lagi finnst mér eins og allt það góða sem ég upplifi þessa dagana sé einmitt vegna þess að ég á takmarkaðan tíma eftir á landinu. Hlutirnir hafa þessa ágætu tilhneygingu til að fara ekki eins og þeir fara venjulega, þar sem þeir eru að fara að breytast. Mér þykir skyndilega vænna um það sem mér þykir vænt um, og mér er eiginlega meira sama um hluti sem mér þykir ekki vænt um. Þetta er líka til eftirbreytni.

Eitt af því helsta sem þessi ferð átti að gera var einmitt að draga mig eitthvað áfram í þroska hvað þessa hluti varðar og þvo af mér einhverja unglingaveiki með sápu raunveruleikans. Líkurnar á því að það heppnist virðast góðar.

Lesendur afsaki trúnóið