sunnudagur, júlí 19, 2009

Varist eðlurnar

Mér hefur alltaf fundist sem svo að samsæri séu ótrúlega skemmtileg fyrirbrigði. Skemmtanagildi þeirra liggur annarsvegar í fáránleikanum sem þær fela í sér, og hinsvegar í þeirri margfalt einfaldari og jafnvel vonbetri heimssýn sem maður öðlast í gegn um þær. Það að heimurinn sé ekki stjórnlaus og á barmi heljar og kjarnorkustríðs heldur þvert á móti stjórnað af járnvilja af ofurmennskum afkomendum Jesú Krists er ekkert nema hughreystandi. Kjarnorkustríð er ekkert á leiðinni undir þeim kringumstæðum! Illuminati vilja að við lifum!

Fáránleikann þarf vart að taka fram. Nútíma samsæriskenningamenning sprettur öll upp frá einu riti sem kallast á ensku The Protocols of the Elders of Zion. Þetta rit er ekki á allra vörum, en er samt sem áður eitt það áhrifamesta sem nokkurn tíman hefur verið skrifað. Hver það skrifaði er erfitt að segja - vitað er að það var einhver starfsmaður Okhrana, leynilögreglu Tsarsins í Rússlandi seint á 19. öld. Á þeim tíma þurfti Tsarinn að glíma við kommúníska byltingarsinna og þurfti að réttlæta ofsóknir ríkisins gegn þeim. Lausnin var þessi bæklingur, sem Okhrana sagðist hafa fundið fyrir einskæra tilviljun. Efni hans skal nú lýst, og haldið ykkur.

Bæklingurinn er skrifaður sem einskonar handbók til Gyðinga fyrir demóníska áætlun þeirra um risastórt, heimsvætt samsæri, sem skal felast í að umbylta ríkisstjórnum heimsins, eyða hefðbundnum gildum landa, koma á alheimskommúnisma, eyða öllum trúarbrögðum, og þegar heimurinn er loks þurrausinn af öllu góðu, þá skal snúa heimsbyggðinni til júdaisma og krýna Konung Gyðinga alvaldan. Mun hann þá setjast á blóði drifið hásæti sitt og vaka yfir bugaðri jarðkringlunni til hinsta dags.

Þetta hljómar ekki sannfærandi fyrir manni, vissulega, og ég efast um að höfundur ritsins hafi haft nokkra hugmynd um hver áhrif þess mundu verða. Þetta var nefnilega fljótt þýtt og prentað í flestum löndum heims. Frægasti átrúandi þessa rits í gegn um söguna er án vafa Adolf Hitler, en þar á eftir má t.d. nefna mæta menn svo sem Henry Ford og Ayatollah Khomeni. Þetta rit er einfaldlega grunnurinn á bak við allt nútíma Gyðingahatur sem og allan nútíma alheimsríkisstjórnarótta - og þessi hugtök eru því afar tengd.

Það furðulega er að þessi bók er fölsun og sú staðreynd hefur alltaf verið mjög skýr, hefur oft verið sannreynd og birt - en það hefur engin áhrif. Adolf Hitler sjálfur hafði heyrt að þetta væri fals, en sagði að sú fullyrðing sannaði einmitt að svo væri ekki. Lík lógík virðist ríkja hjá fólki enn í dag sem trúir þessu fram í rauðan dauðann - má þar t.d. nefna einhvern fjölda moggabloggara á Íslandi, sem ég hef slysast til að lesa.

Þetta hefur að sjálfsögðu þróast áfram og í nútíma samsærisfræðum þykir ekki kúl beint að segja 'Gyðingar', heldur er það 'alþjóðleg hástétt' eða 'afkomendur Krists' eða jafnvel 'eðlufólk úr geimnum' sem stjórnar heiminum. Þetta seinasta er engin ýking. Til er maður að nafni David Icke, Breti, sem var virtur BBC-fjölmiðlamaður og stjórnmálamaður þar til hann einn daginn í miðju sjónvarpsviðtali fór að tala um að eðlur úr geimnum stjórni í raun heiminum og telji innan raða sinna meðal annars drottningu Bretlands, Bush forseta og Elvis Presley, og ég segi aftur, ég er ekki að ýkja - þessi maður er helsta stjarna samsærishreyfingarinnar!

Á Vesturlöndum er mest um svona eðlutrúarfólk sem stendur en helst er almennilegt, gamaldags Gyðingahatur stundað í Mið-Austurlöndum, kannski skiljanlega. The Protocols of the Elders of Zion finnst þar þýtt og stundum kennt í skólum sem staðreynd, skilst manni af Wikipedia, og þar er vinsælt að trúa, sem reyndar menn eins og Henry Ford og Ezra Pound höfðu áður gert, að Gyðingar ráði í raun ríkjum í Bandaríkjunum á bak við tjöldin og vilji nú útrýma Aröbum með öllu móti.

Saga þessa ágæta rits, The Protocols of nenni ekki að skrifa það, er því ansi mögnuð. Vituð fölsun í meira en 100 ár, en alltaf jafn vinsæl, og hefur óbeint valdið dauða ótrúlegs fjölda Gyðinga í bæði Helförinni í Evrópu og í pogromum í Rússlandi/Sovétríkjunum. Fólk mun hreinlega trúa hverju sem er svo lengi sem það styður einhverjar grunntilfinningar þess, og skipta þá mótbárur og rök engu. Þetta eru svona andleg placebo-áhrif, held ég: maður les einhvern texta sem einfaldar og útskýrir þá furðulegu gátu sem heimurinn og ástand hans er, svo að maður gleymir því hvernig yfirleitt er hægt að sjá heiminn sem kaótískan og óskiljanlegan eins og við flest gerum.

Fyrir palestínskum dreng sem furðar sig á dauða móður sinnar í Gaza-innrásinni, þá verður það ekki bara út af því að Guð er grimmur: nei, heimurinn er grimmur því Gyðingar gera hann grimman. Fyrir atvinnulausan hjólhýsisbúa í BNA verður bág þjóðfélagsstaða hans aðeins skýrð með því að Gyðingar stjórni heiminum og þeir vilja ekki sjá mann af hans kynþáttagæðum á háum stöðum. Fyrir David Icke, annars ágætlega gáfuðum manni, þá geta hlutir eins og heimsstyrjaldir og þjóðernishreinsanir hreinlega ekki verið framdir af mönnum - nei, aðeins eðlur utan úr geimnum (sem birtast sem Gyðingar fyrir okkur) geta slíkt.

Pistillinn er kannski farinn að hljóma eitthvað bitur eða ásakandi núna, en mér í raun og veru finnst þetta bara fyndið í dag. Eftir allan þennan tíma, eftir allar þessar fórnir, eftir allar þessar breytingar er þetta enn prentað sem sannleikur - en sem betur fer aldrei til áhrifaminni hóps en nú, aldrei til jafn lítils árangurs. Þetta er allt að lagast, en það hefur bara tekið svo hryllilega, hryllilega langan tíma.

Þessu valda eðlurnar