sunnudagur, júní 21, 2009

Veri Drottinn lofaður, þetta er ekki um Icesave

Undanfarið hef ég uppgötvað ákveðna tungumálagáfu hjá mér sem mér þykir mjög vænt um. Ég var alltaf ágætur í þýsku og ensku og gat lært latínu og grísku vel af bókum, en það var ekki fyrr en í HÍ sem ég neyddist til að læra önnur mál bara til að hafa ofan af fyrir mér. Svo vill til að í latínu og grísku í háskólanum er ekkert að gera, kúrsarnir fáir, leiðinlegir, alltaf með sömu kennurum, metnaðarleysið mikið. Hinsvegar fékk ég það út að ég gæti fengið einingar metnar í rómönskum tungumálum upp í latínuna í HÍ, og langaði því til að láta á frönsku reyna, bara til að deyja ekki úr leiðindum þarna.

Ég fór til að byrja með í forkröfulausan kúrs hjá Endurmenntun sem hét 'Franska fyrir byrjendur I'. Strax sá ég að hér var eitthvað slæmt á seiði. Bókin sem við vorum látin kaupa var í það fyrsta rándýr og í öðru lagi fáránlega litrík og barnaleg ESB-bók. Ég tengi ESB af einhverri ástæðu við nákvæmlega þetta - litríkt! Skemmtilegt! Fjölmenningarlegt! Stríð fortíðar löngu gleymd - öll fortíð löngu gleymd! Minnumst ekki á þau. Við erum alveg eins og Bandaríkin, en með flottari tungumál. Ein menningarheild, sameinuð í þrotlausri leit að Ameríku. ESB fer stundum í taugarnar á mér.

Ekki batnaði það þegar í tímann var komið - í honum voru svona fimmtíu manns, margt eitthvað gamalt fólk sem lét eins og það ætti heiminn, og tíminn fór allur í það að ellilegur hópurinn átti að hrópa í kór 'JE SUIS UN ÉTUDIANT' og 'JE M'APELLE (nafn) ET J'AIME DANSER'. Það að hrópa tungumál í kór er álíka uppfræðandi og að lemja ESB-bókinni í kynfæri sín meðan maður syngur La Marseillaise, hugsaði ég mér og gekk út í fústi, á meðan allt herbergið glumdi af nefhljóðum. Fuss.

Skráði ég mig þá í kúrs sem hét Sjálfsnám í frönsku I. Forkröfur í þennan kúrs voru að hafa lært frönsku í menntaskóla í a.m.k. tvö ár. Ég hafði hinsvegar einungis lært franska málfræði af netinu og gömlum bókum heima á góðum stundum, upp á forvitni mestmegnis. Mér tókst þó að sannfæra kennarann um að hleypa mér inn og komst að því yfir kúrsinn að mér fannst þetta auðvelt að gera - mér finnst ekkert mál að leggja málfræðina á minnið og þá er orðaforðinn einn eftir, sem er auðlærður með internetorðabókum (ég skulda wordreference allt!).

Sneri ég mér því nær alfarið að þessu seinasta misseri, tók Sjálfsnám í frönsku II og Ítölsku fyrir byrjendur II, farandi aftur á svig við forkröfur. Ítalskan var miður vel kennd og líka með svona týpískri ESB-bók, sem Sjálfsnámið var blessunarlega laust við, en gekk það þó afar vel líka. Nú í sumar hef ég svo kúrsalaust verið að læra spænsku, og er orðinn málfræðifær.

Þetta er farið að ruglast saman, latnesku, frönsku, ítölsku og spænsku formin, en ég reyni að muna þau sem svona runu af hliðstæðum - aqua, eau, acqua, agua og þar fram eftir götunum. Hinsvegar er þessi aðferð takmarkandi að því leiti að ég get lesið býsna vel, en á í erfiðleikum með skilning og tal sem mun að öllum líkindum viðhaldast þangað til ég hef búið eitthvað í málheimi hvers tungumáls. Aftur á móti finnst mér gott að sjá að ég er ekki fastur í fornmálum, heldur eru þau að gagnast áfram í nýmál, og gæti ég því kannski átt mér aðra framtíð en að vera rykfallinn latínufræðingur. Allgott það.

Það er líka góð uppgötvun að heilinn er ekki box sem fyllist heldur getur maður nokkurn veginn troðið hverju sem er þangað inn, hvaða tungumálum sem er og hvaða vitneskju sem er. Ég vonast allavega til að geta einhvern daginn lesið El País, Le Monde, Il Corriere della Sera og Der Spiegel í einu við drekkhlaðið morgunverðarborð, með hrokafullt glott á yfirskeggtum vörum, litríkur og sögulaus eins og Evrópusambandið. Slík er mín framtíð.

Ég held því fram að þessi einræða um sjálfan mig sé þó nokkuð áhugaverðari en skoðanir mínar á Icesave, og mig grunar að öll heimsbyggðin sé þar sammála.