laugardagur, maí 23, 2009

Sú ofdirfska að vera ungur

Ég var að koma úr útskriftarathöfn systur minnar úr MH. Var athöfnin löng og leiðinleg eins og hæfir slíkum alvarleikastundum. Þó fannst mér þar mætast tvö ólík sjónarmið - mikið var um ræðuhöld, en stigsmunur á efni eftir aldri.

Ungir útskriftarnemar tveir stigu fyrst í pontu og héldu óskaplega skemmtilega (og afar menntaskólalega) flippræðu. Bros voru á vörum og allir hinir kærulaustu, ungt fólk og fallegt, athöfnin frjálsleg og skemmtileg. Kom svo að eldri stúdentum og rektor að tala - og annað var uppi. Umræðuefnið var kreppan.

KREPPAN!!!

Vesalings MH-ingarnir þurftu að sitja undir löngu tali um erfiðleikana þeim í vændum, hinn djúpa pytt sem Ísland er í statt og alla uppbygginguna sem verða þyrfti. Þeir voru hvattir til að leggjast í útrás fyrir góðu útrásarfyrirtækin þrjú (Marel, Össur og CCP) og loks var öll ábyrgð á endurreisninni þunglega lögð á þeirra unglingsbognu herðar. Maður fann gleðina leka frá athöfninni með hverju mæltu orði.

Ég held satt að segja að þessir menntaskólanemar séu í góðum málum í kreppunni. Þeim er nefnilega mest sama um hana, og þannig hefur hún minnst áhrif á þá. Kreppan er 70% huglæg, og langfyrirferðarmest meðal eldri kynslóða. Það ætti því að vera lágmarkskurteisi að láta hina glöðu huga hinna yngri ráða ferð í þessari athöfn - en nei. Þetta er tíminn fyrir föðurlegar hagfræðiábendingar og lúmskar dómsdagsspár innan um harmræna ættjarðarsöngva.

Er það svo vitlaust að láta þetta unga fólk bara í friði frá þessu, fyrir utan eina kurteislega bón: að vera hamingjusamt?

Einhver þarf nú einu sinni að vera það á þessu landi.