mánudagur, maí 04, 2009

Skuldarar, píslarvættir hinna síðari daga

Kannski er ég tilfinningalaus bastarður, eða skuldlaust, saklaust háskólaelítugerpi á blogginu. Allt þetta má kalla mig. En eftir sem áður er ég alls ófær um að vorkenna skuldurum.

Nú eru uppi háværar kröfur skuldara þessa lands um réttlæti gagnvart þeim í boði yfirvalda. Nú í mogganum í dag er viðtal við atvinnulausan fyrrum atvinnubílstjóra með tvö bílalán, eitt 100% húsnæðislán og loks ein sjö börn - hann ætlar að hætta að borga, segir annað ekki vera hægt.

Maður þessi var atvinnubílstjóri - af starfstétt sem var ekkert á leiðinni að verða langlíf. Samt tekur maðurinn, í miðri bólu, tvö bílalán og 100% húsnæðislán. Hann virðist gefa í skyn að hann bara hafi ekki getað annað, lánin voru svo vel seld og kynnt. Þess vegna vill hann að fólk taki sig saman og hætti að borga, því ef hann gerir það einn er það glæpur, en ef það gera þúsundir er það pólitík.

Þar með sest íbúðalánasjóður á hausinn og nýju bankarnir verða að afskrifa fé, svo ríkisstjórnin þarf að veita þeim nýtt, sem hún þarf að innheimta frá skattborgurum. Með þessu er sem sagt skuldum helstu fjármálaóvita þessa lands, sem telja kannski 10% þjóðarinnar, velt yfir á hin 90%. Allt í nafni réttlætis.

Þetta fer í taugarnar á mér. Það neyddi enginn neinn til að taka lán. Það var vissulega andi fyrir því í þjóðfélaginu - andi sem ég hefði án vafa dottið í væri ég fæddur bara tvemur árum fyrr - en það er engin afsökun. Fólk er á eigin ábyrgð. Það ber ábyrgð á eigin heimskulegu lántökum og ábyrgð á því að velta þeim yfir á annað, blásaklaust fólk.

Þetta er kallað að hætta að borga, ekki það sem það er, sem eru svik, eða stuldur. Það bitnar á öllum nema þeim sjálfum, sem telja sig alsaklausa - nema að það er rangt. Stórskuldarar þessa lands eru í nákvæmlega sama hópi og hinir alræmdu útrásarvíkingar - þeir eru dæmi um fáránlegt fjármálavit Íslendinga sem keyrði sig nú nýlega, algjörlega verðskuldað, í kaf.

Ég hef verið að velta því fyrir mér undanfarið hversu fáránlegt það er að taka gígantískt húsnæðislán - maður er í raun að treysta því að það verði efnahagslegur uppgangur í 25 ár eða hvað sem borgun að fullu á að taka. Það getur enginn treyst á þetta. Sá sem tekur svona lán tekur rosalega, rosalega áhættu - áhættu sem Íslendingum í þessum sporum hefndist fyrir.

Megi þeim svo leyfast.