sunnudagur, nóvember 23, 2008

Af einhverri ástæðu er ég ekkert reiður

Þegar maður leikur sér með eld eru líkur á að maður brenni sig. Þegar maður hins vegar ræðst á lögregluna er það algjörlega og fullkomlega víst að maður brenni sig. Því er ég alls ófær um að skilja hugsun unglinganna sem reyndu að, tja, hvað voru þeir að reyna?

Unglinganna sem voru að fá útrás á hurðum lögreglustöðvarinnar, látum það nægja. Þá skil ég ekki. Ég skil heldur ekki alla þessa reiði sem á að vera svo landlæg. Kannski er það því að ég er ungur og skuldlaus, en ekki stoppaði það fyrrnefnda unglinga!

Þeir sem bregða upp vörnum yfir mótmælahreyfinguna þessa dagana gera það með því að segja að ef þetta leiði til þess að ríkisstjórnin stokki upp og fari að reka eitthvað fólk sé þetta þess virði. Gott og blessað, en er það ekki óskaplega mikið skópiss út af fyrir sig að einhverjir ráðherrar verði reknir? Til hvers? Hvað mun lagast við það?

Það er margt að gerast á Íslandi núna sem ég skil ekki. Ég hlakka til, ég hlakka mikið til að komast annað í nám. Mér finnst ég ekki skilja neitt lengur og ekki tengjast neinu lengur. Ég er að missa trúna á því að þetta muni yfirleitt lagast, og er þá botninum nokkurn veginn náð.