mánudagur, ágúst 18, 2008

Í andleysi. Þögn -

Í vinnunni er það oft svo að ég hef ekkert að gera. Þar sem ég er samt í návist annarra, uppteknari starfskrafta, sem ósnjallt er að pirra, get ég ekki beint tekið með mér Rauðu seríuna til að stytta mér stundir, enda er það of sýnilegt merki þess að ég geri minna (og leiðist meira) en þeir.

Þess vegna verð ég að sitja og leita til internetsins til að koma mér í gegn verklausa daga. Auðvelt, gæti maður haldið. Svo er þó ekki.

Staðreyndin er sú að internetið er hundleiðinlegt. Ég tel mig hafa klárað skemmtanagildi þess fyrir löngu og er nú kominn út í ótrúlegustu hluti sem eiga ekkert skilt við 'dægrastyttingu' lengur. Waterloo-bardaginn á Wikipedia. Að athuga hvort rússneska nafnið Gennady sé skylt Kennedy (svo er ekki.) Læra frönsku. Skoða feisbúkk, sem er án vafa leiðinlegasta síða sem sköpt hefur verið.

Sjálfsvorkunn mín er nú komin fram úr öllum mörkum, en ég verð að segja - internetið er fokking ofmetið. Enda ekkert nema bóla.