mánudagur, júlí 16, 2007

Það sem maður sér í vinnunni

Atvik. C-gangi.

Ég var að ýta á undan mér vagni fullum af þvotti þegar ég áttaði mig á að ég hafði harmonikkutónlist í eyrum. Ég var nokkuð seinn, það tekur meiri tíma en maður heldur að raða í hillurnar hjá fólki - sem hefur líklega allt annan hátt á röðuninni en ég tel mig sjá er ég lít í fataskápinn. Mikið af þessu starfi er að meta það sem fyrir manni er og reyna að endurtaka. Vel væri ef ég kynni það betur.

Ég renn á hljóðið og lít aðeins áfram inn í félagsstarfssalinn. Það er eitthvað skrýtið hljóð meðal hljóðfæranna - það rennur milli nótna. Það er ekki beint falskt en passar varlega. Harmonikkustefin voru svo kunnugleg að ég gleymdi þeim jafnóðum og ég heyrði þau - nokkuð sem er algengt þegar þetta hljóðfæri er annars vegar.

Ég hef allan salinn fyrir augunum. Stundum virka þeir hlutir sem ég sé á mig eins og sena í kvikmynd. Widescreen-rammi, svartar rendur að ofan og neðan. Lengst til vinstri teygir stólaröð sig fram að fjólubláum vegg. Nokkrir sitja í stólunum, vandræðalegir, feimnir eða álútir og horfa á. Fyrir framan mig við vegginn stendur feitur bassaleikari með heljarinnar kontrabassa, hljóðfæri sem mig hefur alltaf langað til að kunna á. Stúlka situr á stólrönd og spilar á harmonikku. Hún er falleg og ung og í svörtum fötum, sem sker hana algjörlega úr. Hún brosir og ég sé hvernig bros það er enda geri ég það svona líka. Það má alltaf þekkja það þegar viðmót er sprottið af hugsun en ekki eðlishvöt. Kurteisi er ekki eðlishvöt neins.

Næst til hægri situr maður í spariklæðum og teygir á einhverskonar boga sem framkallaði þetta ókunnuga hljóð. Það var furðulegt hvernig það passaði en var engan veginn tónalt - eitthvað frá þeim tíma þegar tónlistarþekking var álitin versta danakukl. Hann virðist einbeittur er hann skælir þetta fram og til baka.

En það sem ég minnist mest var kona sem ég hafði kynnst fyrst þegar ég kom hingað - hún var fullkomlega skýr í heilanum en eitthvað var líkamlega að. Hún geiflaði sig stjórnlaust og talaði stöðugt upphátt, aðeins eitt atkvæði í einu, þau voru hvell og skerandi og þegar ég heyrði þau fyllist ég þessari tómleika- og flóttatilfinningu - eins og þegar maður sér aflimaðan betlara á erlendri verslunargötu eða sest of nálægt þroskaheftum manni í strætó. Augun voru svört og þau horfðu á þig á ská og hún bað þig um eitthvað og þú hjálpaðir af öllum öðrum ástæðum en meðaumkvun - frekar hræðslu, við eitthvað sem á ekki að vera hræðilegt fyrir neinn en þrátt fyrir allt mitt sjálfshatur er það.

Þessi kona, brosið uppmálað, spilar á tambúrínu og róir fram í takti. Hún brosir og meinar það. Hún næstum hlær.

Og upp skýst kall með konu við arminn og þau dansa fyrir framan samkomuna í algleymingi.