þriðjudagur, júní 26, 2007

Vinnuvæl

Ég er aldrei mjög ánægður við vinnu, sama við hvað ég fæst, enda sé ég vinnu á fremur daufan og margir mundu segja (og hafa rétt fyrir sér í því) barnalegan hátt.

Svo vill til að menn eiga það til að deyja. Það er meira að segja nokkuð undantekningalaust. Tími okkar í þessum heimi er takmarkaður og sannarlega, eins og sést á elliheimilum út um allt, er allt lagt í sölurnar til að auka þann tíma (á röngum enda lífsins.) Tíminn er það dýrmætasta sem við eigum.

Þessi tími er það sem vinnuveitendur kaupa af okkur. Nám okkar eða hæfileikar spila stundum inn í, en á heildina séð er sá sem er viljugur til að fórna meiri tíma ráðinn. Við seljum líf okkar utanaðkomandi fyrir fé. Það er bara eitthvað... sem ekki virkar við þetta fyrir mig. Ég fæ samviskubit, finnst ég vera að gera eitthvað af mér.

En þetta elst líklega af, eins og flest gott í lífinu...