fimmtudagur, júní 07, 2007

Arbeitslösigkeit und deswegen Lebensdämmerung

Þetta er tilraun til þess að blogga með kött næstum því ofan á lyklaborðinu svo erfitt er að skrifa. Hann er slíkur nautnaseggur að ekkert gat stöðvað hann í að hlamma sér á þennan stað fyrir framan mig þar sem ég hef ekkert annað um að velja nema að þekja hann athygli.

Eftir útskrift úr MR er ég atvinnulaus. Ég tel þetta vera góða ávísun á framtiðina. Ég held þó enn í vonina með íslenskum þetta-hlýtur-að-reddast hugsunarhætti og hef fleiri atvinnuumsóknir í gangi en ég get hæglega talið. Dögunum eyði ég í að lesa Sjálfstætt fólk, sem er snilld hingað til. Seint verður Laxness ofmetinn. Eða kannski, jú, hann er ofmetinn á Íslandi, enda yfirleitt lýst sem einskonar konungi hugans með yfirskegg og hreim. En innan skynsamlegra marka er hann algóður penni.

Af þeim ástæðum er ég búinn að skrifa það sem virðist mér vera hundruðir af atvinnuumsóknum og ég hef ekki hugmynd um hvort ég sé að gera það rétt. Þar hrósa ég sjálfum mér í hástert við hliðina á mynd þar sem ég virðist sem freðinn Schwarzenegger með fúlskegg. Ég tala óhóflega mikið um einkunnir mínar. Það er spurning hvort ég ætti ekki að taka upp líflegri stíl og fara að lýsa glæstum líkamsburði að auki (allt af hverju væri lygi, en það á líka við flest í atvinnuumsóknum.) 'Magnþrungin fegurð mín glitrar við minnsta sólskin og svo virðist viðstöddum sem sólin sjálf blikni við hliðina á ásjónu minni sem skín heimsljósi sínu í gegn um skeytta veggi hugans og oft er eins og í sálu manna vakni fugl, gullgagl mikið sem hefst á loft þegar og syngur frelsissöng sinn í átt að hinum hlekkjandi himinguðum og segir þeim 'fú! fú!' Út á slíka umsókn mundi ég ráða mann á stundinni. Eða hneppa í þrældóm jafnvel.

(eftir þennan punkt verður færslan sóðaleg. Forðist, forðist! Bjargið geðheilsu ykkar og frjósemi frá yfirvofandi hættu og lesið ekki eftirfarandi.)


Hatur mitt á hægðum er geigvænlegt. Þessi grunnþörf mannkynsins er óværa og bölvun. Ég á í miklum erfiðleikum með að viðurkenna að ég sé siðað dýr og siðmenntað gáfumenni þegar á sama tíma ég neyðist til að stunda þessa siðlausu athöfn. Hugsið ykkur; já, foreldrarnir kúka, Jesús kúkar, páfinn, Davíð Oddsson. Halldór Laxness, David Bowie og Bob Dylan. Ó! Sá er mér herra og dróttinn hver sá sem er af þessu frelsaður. Komi sá hinn sami og setji á lista hinna viljugu, við hlið sauða en ekki geita.