miðvikudagur, maí 16, 2007

Voce profundus

Ég er óvanur því að lesa slappar bókmenntir. Ég hef alltaf haldið mig við einhverjar frægar bækur, með þeirri röksemdafærslu að það sé svo mikið til af þeim að það væri synd að sætta sig við eitthvað minna. Þó neyðist ég nú til að lesa ákveðið rit sem verður nú að teljast hálfgert rusl. Er hún þýsk og heitir 'Er hieß Jan' (Hann hét Jánn).

Hún fjallar á háalvarlegan hátt um ástir seytján ára þýskrar ungmeyjar á undirmenninu Jáni á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Gamla góða Rómeó og Júlíu þemað í gangi. Þó er eitt sem veitir mér von í þessum hnyttna bæklingi. Þýska stúlkukornið hrífst nefnilega að Jáni ekki vegna vöðvamassa hans eða tannheilsu, heldur út af því að hann hefir svo glæsilega, seiðandi rödd. Þetta veitir mér vonarglætu í lífinu og hvetur mig til reykinga og viskídrykkju til að ná upp samskonar áhrifum á gesti og gangandi.

Það er nefnilega svo einstaklega glæsilegt að ná áfram á röddinni einni saman. Þetta þrái ég. Fullkomið hlutskipti fyrir iðjuleysingja og fúlmenni.