miðvikudagur, maí 30, 2007

Sumt er ekki mönnum ætlað

Eftir síðasta prófið (ég, með þorn í upphafi nafn míns, er líklega með síðustu mönnum þessa árgangs til að klára stúdentsprófin, fyrir utan þá sem taka sjúkrapróf) sofnaði ég og missti enn einu sinni af tækifærinu til að fara á hina margrómuðu Pirates of the Caribbean: At World's End. Stundum finnst mér eins og allt mitt líf leiði eftir vegggyrtum vegi til þeirrar hinnar sömu kvikmyndar, enda kemur hún eftir langt og strangt próftörn og hefur því tekið sér stöðu heilags kaleiks í lífi mínu.

Jón Spörvi og félagar í Krabbahafinu munu því vonandi uppfylla allar mínar villtustu óskir með brugðnum korðum og fyllerísstælum. Kafteinn Kolkrabbi og flennistór freygáta hans á óðaferð um æsileg höf svo yfir pena kvenmenn líður og órólegir karlmenn þerra af sér svitaperlurnar með hvor öðrum. Villt, villt! Ég fyllist Wanderlust, þramma um rusli stráðan Edengarð og ét epli.

Í hugarheimi mínum hitti ég Bob Dylan baksviðs og reyni að ná athygli hans á meðan hjartað hamast í brjósti mér. Bobb, Bobb, segi ég. Hann horfir á mig eins og ég sé eitthvað langt fyrir neðan hann, eins og Deutsche Grammophone vínyll við hliðina á geisladiski með Spice Girls. Ég uppgötva þá mér til mikils hryllings að ég tala enga ensku og ég finn slaufu koma á tungu mína. Úr mér heyrast ráfandi hljóð.

Bob Dylan segir 'It ain't you my friend that's gone, it's another.'

Ég fæ skyndilega röddina og segi honum 'Your friends are all out building churches from your bones.'

Svipur hans lýsir ánægju.

'Well, you're screaming for the replacement friends that the monks are all waiting for.'

Við þessu hef ég ekkert svar og brosi eins og fífl. Mig langar helst til að kyssa hann eða eitthvað en held aftur af mér og rétti honum bein.

'You should be made to wear earphones',
vitna ég sný mér við.