fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Vísindunum hefur enn ekki tekist að finna upp á leið til að vera kalt og vera kúl á sama tíma

Ef við ímyndum okkur kosmíska kaffistofu hvar veðurguðirnir safnast saman og skeggræða um þróun í nafngift hvirfilbylja, get ég nú hæglega séð Vetur konung standa hálfvaltan upp, hlaupa í átt að brún heimsins og spýja duglegri súpu af kaldri ælu yfir Ísland. Hér er kalt. Hér er fokking kalt.

Íslendingar hafa nýlega orðið mjög hipp þjóð. Nafn þjóðarinnar birtist í þvílíkum undirstöðum menningarlífs heimsins svo sem Rolling Stone og NME, þar sem tónlistarunglýður okkar er lofaður í hástert fyrir mest lítið annað en að hljóma enn frumlegar og verr en það sem á undan hefur gengið. Undir þessum kringumstæðum tökum við klæðaburð okkar afar alvarlega. Við erum epítóm indírokksins og nýbylgjunnar og erum stanslaus tískuviðmið, undir vökulum augum heimsins.

En þó hverfur þetta gjörsamlega þegar kalt er í verði. Sannleikurinn er sá að föt sem fyrirbyggja kulda eru undantekningarlaust tískuslys, nei, tískuhryðjuverk. Þar má meðal annars nefna húfuna. Þetta fat höfuðsins er alveg hreint hroðalegt fyrir hvern hárprúðan mann, apparat sem brottnemur allt líf og allan lit af höfði manns svo ekkert er eftir nema andlitið, sem maður vill nú láta sjást sem allra minnst, til að bjóða fólki ekki upp á þann óskapnað.

Einnig koma inn hinar risastóru úlpur sem gætu fengið meðalmódel til að líkjast digrum hólki. Þessar eru einnig oft í hinum annarlegustu litum, líklega til að maður týnist ekki í snjónum eða eitthvað viðlíka skynsamlegt. Meira fylgir, vettlingar, kuldaskór, síðar nærbrækur, sem ég hefi haft fordóma fyrir síðan ég var kynntur fyrir fyrirbærinu í grunnskólalesbók minni Lesum Saman á hinum myrku árum barnsdóms míns.

Hér taka Íslendingar tvær brautir í gegnum lífið og skiptist jafnt. Annarsvegar eru þeir kaldir og kúl eða funheitir og þjóðinni til skammar, a.m.k. fyrir augum fyrirmyndaskortandi útlendinga. Þetta er erfitt val og við erum sannarkega vorkunnarverð. Hér er alltof kalt.

Pósturinn að ofan er svar til efasemdarmanna um líf þessa bloggs. Það deyr aldrei, nema það sé drepið, af höfrungi.