mánudagur, mars 20, 2006

Mjólk



Nú rétt í þessu rak ég olnbogann í mjólkurfernu, innihald hverrar tók upp á þeim ósóma að sullast yfir stofuborðið og nálægan stól. Þegar þetta hafði gerst, bölvaði ég gríðarlega með djöflarödd (nokkuð sem er sparað fyrir mikil tilefni) og tók svo upp á því að þrífa þennan viðurstyggilega vökva upp.

Já, mjólk er einn ógeðslegasti hlutur sem fyrirfinnst. Í fyrsta lagi kemur þetta innan úr beljum. Í öðru lagi lyktar þetta hryllilega, einskonar sæt næringarsúpulykt, sem þránar og seytir út úr sér gunnþef miklum, sem ég bölva hérmeð með nöfnum á við Jaerazivar, Lievzohrix og Georg. Í þriðja lagi bragðast hún hræðilega ef hennar er ekki neytt í samvinnu við eitthvað, svo sem kornflex eða mjólkurkex (hvort tveggja endar á x, sem er illur bókstafur. Sjá Xerxes.)

Þetta ættu að vera meira en nóg rök fyrir hvern sem er til að afneita þessum sullhellingi Satans og snúa sér til drykkju og neyslu á einhverju bragðbetra og betur lyktandi. Neitum prótínsúpunni úr brjóstum Huppu! Ég segi hérmeð mjólk stríð á hendur. Neitum henni! Látum ei breyta oss í kvígur og kálfa. Þetta er alltsaman lævís áætlun ríkisstjórna, sem hefur staðið frá fornöld, að snúa fólki til beljulegrar leti og hlýðni, svo ekki þarf meira en gott spark í afturenda heilu þjóðanna til hlýðni! En ég hef séð ljósið. Ég hef séð ljósið!

Mjólkurlaus öld! Sjúg ei slímspenann! Tálma á kálfa! Á braut með naut! Kvígan má bíða! Beljur til heljar!