miðvikudagur, janúar 25, 2006

Loks endursnúinn

Tölva mín tók upp á að bila illilega um daginn. Nútímaunglingurinn ég tók þessu illa. Næstum strax kom upp skjálfti í höndum og hugur minn dreifðist á óheilbrigðan hátt til hluta svosem lesturs og náms. Svo jókst handaskjálftinn og fæturnir byrjuðu að hristast með. Svo færðist það í andlitið, og annarlegir andlitskippir hrelldu gesti og gangandi.

Skap mitt tók dýfu niður á við, og ég urraði frekar en talaði; og þegar ég talaði voru það bölvanir á hinni fornu Canaan-tungu. Stundum ímyndaði ég mér að ég væri geit. Stundum var ég geit. Stundum varð geitin ég, og geitabræðurnir við flugum um og átum hvali - svo rankaði ég við mér klórandi í veggfóðrið, og öskrandi á Seif. Á þeim tíma þakti ég herbergi mitt með munstri á veggjunum sem er krabbameinsvaldandi þeim sem sér, enda er það fimmvítt og ógurlegt ásyndar.

En tölvan er komin til baka, og ég get loks eytt heilasellum mínum á ný. Jeij!