laugardagur, október 01, 2005

Vegna klukks

Klara klukkaði mig víst. Fimm hlutir sem fáir vita um mann sjálfan - here goes.

VNVS: Ég hef stórglæsilegt ör á enninu, og ég fékk það á ekki óæðri hátt en vegna katanasverðs; sem að félagi minn hjó mig með við upptökur á stuttmynd eitt sinn. Ég er gríðarlega stoltur af þessu, ég hreyfi mig aldrei og er svo latur að ég viðheld varla mannsformi, en ég hef bardagaör, meðan félagar mínir sem hafa stundað bardagalistir frá fimm ára aldri hafa ekkert til að sanna það, ónei...

DVO: Ég hef holu í miðjum brjóstkassanum, sem er einkenni í ættinni minni. Rifbeinin beygjast inn að miðju og mynda þannig innfellingu. Þetta er tilvalið fyrir sjálfsmorðssprengjur, sælgætisgeymslu og morgunkornsát.

TRES: Ég átti að heita Hreggviður. Þetta var hugmynd móður minnar, sem ég hef litið grunsemdaraugum síðan. Karl faðir minn miskunnaði sig yfir mig og kom því fram að ég mundi heita Þorsteinn eftir afa mínum.

QVATTVOR: Ég hef átt í mjög svo heimskulegu karlmannsstoltsstríði við leikfimikennara menntaskólans frá byrjun. Það er eitthvað við það að sjá hálffullorðna stráka lyppast niður hóstandi og andandi með erfiðismunum, sveittir og ógeðslegir, fyrir framan fimmtuga perralega durga í gerviefnagöllum sem að fær æluna til að berjast upp í kok mitt. Ég hef svarið þess heit að reyna aldrei mikið á mig í leikfimitíma, því að ég skal ekki láta sigra mig...

QVINQVE: Ég get lækkað röddina afskaplega mikið og talað með það sem ég og fleiri kalla 'satansröddina'. Jafnvel bassar eins og hæstvirtur Doddi ná þessu ekki. Ég hlæ! Þið getið aldrei fórnað geitum á jafn sannfærandi hátt og ég, amlóðar. Ég hef verið að vinna upp hæfni í höfuðsnúningum og þeirri list að tala latínu afturábak til að uppfylla andkristsímyndina, en útlitið vinnur á móti mér, þar sem ég telst eitthvað of elskulegur í framan til að leggja mér hold til munns dags daglega.

Ég klukka að lokum il Doddo.