sunnudagur, júní 19, 2005

Rýrihljóðskipti

Við Darri Edvards höfum nýlega þróað með okkur mikla notkun á því sem ég kalla rýrihljóðskipti - eitthvað sem þegar er dæmi um í málinu, en við höfum tamið okkur til persónulegra nota. Að fordæmi má m.a. nefna varpið maður - menni, sem að getur bæði verið til upphækkunar sem og niðurdragningar, eins og má sjá á orðunum ofurmenni og fúlmenni. Þetta er reyndar dæmi um meira en bara hljóðskipti, og má nefna þetta undantekningu frá reglunni, þrátt fyrir að maðurinn sé nú mælikvarði allra hluta. Betra dæmi er kannski matur - meti, en hvort það sé upphækkun eður ei skal hver maður ráða við sjálfan sig, með orðið grænmeti til hliðsjónar.

Þetta virkar einfaldlega þannig að hljóðvarpsreglu er framfylgt á fremsta sérhljóða orðsins, auk þess sem því er breytt í hvorugkyn og það látið enda á -i, orðinu eða hlutnum sem það táknar til minnkunnar. T.d. má taka þessi dæmi af mýþutengdum orðum;

Djöfull - djyfli, dvergur - dvirgi (dvyrgi lítur betur út, og leyfist í daglegu máli, en er ekki skv. hljóðvarpsreglum), tröll - trylli.

Einnig má vekja athygli á áhrifum rýrihljóðskipta á mannanöfn, og þá helst stutt nöfn/viðurnefni. Til að sýna hóf, tek ég mitt eigið nafn, og nafn félaga minna:

Þossi - Þyssi, Doddi - Deddi/Dyddi, Darri - Derri, Haukur - Heyki
Einu sinni enn ætla ég að vitna í MSN samræður okkar Þórarins:

Vox populi says:
Þverdeddi! Svar!
Doddi says:
Heill þér, Þverþyssi.

Augljóslega passa ekki öll nöfn inn í þetta. T.d. er nafnið Arngunnur - Erngynni (sorrí, Arngunnur) greinilega sett saman úr tvemur orðum, og því má einnig hljóðverpa seinni orðinu. Einnig eru sum nöfn fremur óhæf til hljóðverpingar, svo sem Halldór - Helldýri, sem að er frekar til upphækkunar en annað. Svo má ávallt benda á forskeytið þver sem höfundi er mjög svo annt um.

Einnig eru sum ókvæði vel til rýrihljóðskipta fallin, þrátt fyrir að til notkunar þeirra sé ekki hvatt hér - sem dæmi má taka til dæmis hommi - hymmi. Verða þá til ágætar setningar, svo sem 'Slímuga þverhymmið atarna hafði mig að féþúfu.'

Þetta er að sjálfsögðu ennþá í þróun og er ekki enn komið inn í sjitt-orðabókina, svo að ég hvet lesendur til að finna eitthvað skemmtilegt til rýrihljóðvörpunar og skilja eftir í kommenti.