fimmtudagur, maí 12, 2005

Laumulega og án þess að vekja athygli óargadýrsins fann ég mér leið að grárri, sakleysislegri byggingu sem átti eftir að bjarga lífi mínu.

Án þess að vekja skrímslið frá blundi þræddi ég mér hljóðlega leið gegnum myrkrið, og ég velti fyrir mér hverskonar meistari gæti bjargað mér frá hættunni sem hvíldi á höfði mínu og ógnaði framtíð minni svo illilega...

Skyndilega heyrði ég vindhviðu þjóta framhjá eyra mínu og ég rak upp óp; en fyrir framan mig stóð skyndilega samúræjakona ein, allillileg og ógurleg á svip. Samstundis vaknaði óargadýrið frá værum blundi og áttaði sig leiftursnöggt á ástandinu - ég hafði ráðgert á því morð!

Sannlega get ég sagt þér, lesandi góður, að líf mitt var hætt komið - en þá skyndilega stökk samúræjakonan fram með ægilegu öskri, reif upp sveðju mikla og tók að höggva að dýrinu.

Það reif og öskraði og ég með, en samúræjakonan sýndi enga miskunn, og hjó það hægri og vinstri; og þutu bitar þess út um allt gólf, og í brjósti mínu kviknaði vonarglæta um að ég skyldi laus vera við ok vættsins að lokum!

En dýrið átti enn mikla baráttu í sér, og hrein það gríðarlega og greip þegar síðustu höggin dundu á því og rifu burt illindisóvættinn; og settust leifar þess aftur á höfuð mitt, líflausar og stýrilátar.

Og þetta er sagan af því þegar tískuslysið og skrímslið, hár mitt, var vegið.

Og ég hef skrifað bloggpóst um það að ég hafi farið til rakara... hversu svakalega metró er ég.