fimmtudagur, apríl 14, 2005

Consecutio temporum

Oft er sagt að sumir einfaldlega fæðist á röngum tíma - að samtíminn henti þeim álíka vel og hlýrabolur kerlingu. Ég hef velt þessu fyrir mér nýlega, og þá í samhengi við nokkra félaga mína, til að byrja með.

Hann Darri hæstvirtur Edvards ætti í raun heima í Róm til forna, á tímum Súllu. Hann stæði á miðju Forum Romanum, tógað sviptandi á óæsandi hátt í kringum prívatparta hans, meðan hann læsi hárri röddu yfir hausamótum prólateirana að þeir væru einfaldlega fátækir að eðlisfari. Hann byggi í búgarði í Toscana, þar sem hann liggur mestallan daginn og rymur af ánægju yfir þögninni og einsemdinni meðan ástardrengirnir flykkjast í kringum hann með vínber, þó alltaf þegjandi.

Þórarinn Sigurðsson, hinsvegar, á heima á Ítalíu miðalda. Hann ferðast um með ítölsku 'Commedia dell'arte' ferðaleikhúsi yfir allt stígvélið og spilar á næsta hljóðfæri af mikilli ástúð, milli þess sem hann sprellar úr sér allt vit á litlu sviði i hlutverki Harlequins í ítalskri kómedíu með tilheyrandi söng, dansi og froðufellingum. Þegar hann fær frí frá leikhúsinu stundar hann sauðfjárrækt.

Að sjálfsögðu á Darri Kristmunds að lifa 'in the seventies'. Hann gengi í þröngum, innfóðruðum leðurbuxum - og hann mundi aldrei nokkurn tíman fara úr þeim - og í engu öðru. Hann byggi í London eða L.A. - erfitt að sjá hvor var meiri rokkborg - og hann væri orðinn karlkynsgrúppía flestallra hljómsveita sem fundust á þeim tíma. Hann selur blíðu fyrir tónleikaaðgang og neytir ofskynjunarlyfja daglega. Þau hafa engin áhrif á hann - níu af hverjum tíu kattarhausum inní bleiku hringiðunni sem táknar jafnvægi mannssálarinnar gagnvart hinum óendanlega rúmtíma segir honum svo.

Einar elskulegur Finnsson á hinsvegar heima í Soyuz Sovetskikh Sotsialisticheskikh Respublik, ellegar Sovétríkjunum. Hann gegnir mikilvægri stöðu í þjóðernishreinsunum Stalíns - og finnst gaman af. Hann safnar rússneskum vopnum og áróðursmyndum, hann hefur ánægju af því að stilla grammófóninn á allra hæsta stig og spila nallann, og ef einhver nágranni svo mikið sem lítur ásakandi á hann, er náð í Komitet Gosudarstvennoy Bezopasnosti, ellegar KGB, og viðkomandi sendur til Síberíu, og Einar sjálfur fylgir þeim út á lestarstöðina, og bendir og hlær háum hlátri þegar lestin flytur þá út í eilífðina.

Kannski fleiri seinna, svefn núna.