miðvikudagur, mars 09, 2005

Innblástur er afskaplega hvimleiður hlutur. Hann kemur og fer algjörlega án nokkurrar reglu; stundum kemur hann ef maður skrifar nógu mikið af rugli á undan, og stundum kemur hann bara þegar maður er að skrifa íslenskuritgerð kl. þrjú um nótt til skilunar sama dag... en á þessari stundu er hann í felum og ég finn hann ekki.

Ég þarf á einhverskonar spítti að halda ef ég á að skrifa eitthvað áhugavert. Það, eða að einhver góð sál taki sig til og reiti mig til reiði svo að ég geti skrifað eitthvað sem er a.m.k. smááhugavert... eins og hvað allt er viðbjóðslegt og ömurlegt. Sem það er ekki, í raun og veru, en það er ekki neitt sem fólk vill heyra.

Mögulega er kominn tími til að tala um árshátíðarmyndina. Sú mynd hefur verið að fá ansi sterk viðbrögð, sterkari heldur en ég bjóst við að hún mundi fá, sem að litli púkinn útí horni huga míns flissar að - en eiginlega verður að leggja fram afsökunarbeiðni til þess fólks hverra skoðanir ég virði...

Upphaflega afsökunin fyrir vonsku þessarar myndar er að sjálfsögðu tímaskortur. Sá partur er alfarið mér að kenna, enda vorum við félagarnir sem áttum að gera hana alls ekki nógu fljótir að koma þessu í gang (og var flöskuhálsinn aðallega mín megin.) Þegar við loksins vorum búnir að koma þessu á 'hreint', lentum við í vandræðum með að fá leikarana til að mæta á sama tíma, og lentum við því í að síðustu tveir dagarnir voru í raun þeir einu sem við gátum notað til að taka upp - 80% af myndinni var tekið þá.

Síðan bætist ofaná það árshátíðarsjónvarpið - en ég lenti í miklum vandræðum með að fá það klippt, en það er kannski annað mál. Ég horfði ekki á það, en mér er sagt að margt hafi vantað - og ábyrgðinni á því get ég þó kastað af mér, þar sem þetta var allt heilt á spólunum sem ég lét Skjá Einn fá, þeir hafa klippt efni út til að stytta þáttinn. Þetta er án efa vegna þess að við létum þá aldrei vita hversu langt þetta átti að vera, og ástæðan fyrir því er sú að ég fékk ekki efnið með kynningaratriðunum sem átti að vera inn á milli myndanna frá framtíðarstjórn fyrr en örfáum klukkutímum áður en þessu átti öllusaman að skila, og þessvegna var aldrei víst hversu langt þetta mundi vera.

Svo er eiginlega ekki heillavænlegt að nokkrar manneskjur sem þegar eru félagar skrifi svona hluti - það eina sem þeim dettur í hug er einkahúmor sem engir fíla nema þeir sjálfir, og finnst mér það hafa verið málið bæði með MR-Ví mynd 2004 (skrifuð af Jóni Eðvaldi, Bó og Hilmi Le Pré) og svo þessi hérna, sem var 'skrifuð' af mér og Darra K og félaga okkar Sindra aðallega.

Mér persónulega finnst hún bráðfyndin - enda er þetta húmor sem er sérsniðinn því sem höfundum finnst fyndið. Ég elska splatter og létt grín sem skiptir í raun engu og er fullkomlega tilgangslaust miðað við plottið - Python gengið, Zucker-bræður og Mel Brooks koma upp í hugann - enda var nóg af því í myndinni, þrátt fyrir að það hafi verið herfilega sett fram vegna slæmrar tæknivinnslu. Þó get ég afsalað mér Darth Vader brandaranum - ég vildi klippa það út, en var kosinn niður... :P

Ég skil vel að enginn hafi fílað þetta, og ég get ekki búist við öðru í retróspekt. Svo að ég biðst afsökunar á þessu, og ég efast um að ég bjóði mig fram aftur til myndbandsnefndar - þetta ár er búið að vera versta klúður, og ég get aðeins horft aftur á Skólafélagsárshátíðarmyndina með einhverskonar stolti, aðallega vegna góðrar myndatöku og stjörnuleiks Halla, og svo þeirri staðreynd að ég og Sindri björguðum henni gjörsamlega í klippingu. En það er saga fyrir annan tíma.

Og svo er alltaf gamla góða afsökunin - 'if there's only one candidate, there's only one choice'. Sem var fullkomlega satt í kosningum til myndbandsnefndar síðasta vor.